Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er dýralíf í Rússlandi?

Jón Már Halldórsson

Það er hægara sagt en gert að gera almennilega grein fyrir hinu fjölskrúðuga dýralífi sem finnst innan landamæra Rússlands, enda er það stærsta land í heimi. Innan landamæra þess má finna flest helstu þurrlendisvistkerfi jarðar, allt frá túndrum til steppa og laufskóga. Nyrst í landinu eru mikil túndrusvæði. Þar fyrir sunnan eru víðáttumestu skógar jarðar, barrskógabeltið (e. taiga) en það er óslitið belti frá Kareliu, sem er í vesturhluta landsins, og þar fyrir sunnan og allt austur til Kamtsjatkaskaga sem stendur við Kyrrahafið. Fyrir sunnan barrskógana miklu eru gresjur og teygja laufskógar sig víða um miðhluta landsins, þá sérstaklega austast, í fylkinu Primorsky Krai, en þar er vísir að norðlægum regnskógum. Þar gætir mikilla monsúnrigninga á sumrin.

Rússland er stærsta land í heimi. Það kemur því varla á óvart að dýralíf þar er einkar fjölskrúðugt en innan landamæra Rússlands má finna flest helstu þurrlendisvistkerfi jarðar, allt frá túndrum til steppa og laufskóga.

Í heildina þá er dýralíf í Rússlandi ákaflega fjölbreytt og raunar vart nokkuð land í heiminum sem státar af jafnfjölbreytilegu dýralífi. Þar má til dæmis finna vísunda (Bison bonasus), hvítabirni (Ursus maritimus), tígrisdýr (Panthera tigris) og hlébarða (Panthera pardus)! Í Rússlandi er að finna 276 tegundir spendýra, þar af eru 22 tegundir einlendar en alls eru 5 spendýrategundir í mikilli hættu á að deyja út. Varpfuglategundirnar eru 732 og er aðeins ein einlend. Í landinu finnast 75 tegundir skriðdýra og 27 tegundir froskdýra og af ferskvatnsfiskum hafa fundist 400 tegundir. Mestur þéttleiki spendýra er í suðaustasta hluta landsins í Primorsky Krai, sem í gömlum ritum nefnist Ussuriland, en þar eru blandaðir laufskógar, og einnig í norðurhluta Kákasusfjalla.

Hin tilbreytingalausa túndra

Túndrusvæði Rússlands teygir sig vestur frá Kareliu og um Kolaskaga austur til Chukchi-skagans við Beringssund, alls rúmlega 7 þúsund km leið. Túndran þekur um 11% af heildarflatarmáli landsins. Á þessu trjálausa svæði lifa frekar fáar tegundir en harðgerð dýr og plöntur þrauka þarna allan ársins hring. Fuglarnir sem verpa á þessu svæði halda nær allir til suðlægra breiddagráða á haustin. Það geta spendýrin hins vegar ekki og þau þrauka annað hvort veturinn eða leggjast í dvala. Helstu spendýrin sem lifa á túndrusvæðum Rússlands eru hreindýr (Rangifer tarandus), sauðnaut (Ovibos moschatus) og heimskautarefir (Alopex lagopus).

Hreindýr (Rangifer tarandus) eru meðal þeirra spendýra sem lifa á túndrusvæðum Rússlands.

Fá svæði eru jafnóvistleg að vetrarlagi og túndrur Rússlands. Það er því ekki að undra að fjölmörg fangelsi í Gúlag-fangabúðakerfinu voru staðsett á túndrusvæðunum. Víðátturnar þar eru meiri þröskuldur fyrir fanga en hæstu múrar. Túndrurnar eru skjóllausar, vindasamar og ískaldar og fá dýr eru þar á ferli. Á sumrin vakna túndrusvæðin aftur til lífs þegar milljónir fugla koma þangað til að verpa, svo sem snjógæsis (Anser caerulescens), og spendýrin verða meira áberandi. Refir leggjast á egg farfuglanna og úlfar halda til veiða á smáum spendýrum og því sem eftir er af stórum hreindýrahjörðum Rússlands. Önnur algeng spendýr eru læmingjar og snæhérar (Lepus timidus) sem eru mikilvæg fæða fyrir ýmsar tegundir rándýra og fugla, svo sem snæuglur (Bubo scandiacus).

Fyrir norðan íshafsströnd Síberíu eru svo fjölmargar heimskautaeyjar. Kunnust þeirra er Wrangel þar sem mikið er af rostungum (Odobenus rosmarus) og hvítabjörnum (Ursus maritimus).

Úlfa (Canis lupus) má einnig finna á túndrusvæðum Rússlands en stofnar úlfa eru ákaflega sterkir þar í landi.

Túndrusvæðin eru efnahagslega mikilvægustu svæði Rússlands. Helstu olíulindir ríkisins eru í norðvesturhluta Síberíu auk þess sem margar iðnaðarborgir eru á þessum svæðum eins og Norilsk. Þrátt fyrir það lifa innan við 1% Rússa á þessum svæðum.

Hinir endalausu barrskógar

Skipting gróðurbelta milli túndrunnar og barrskóganna er ekki klippt og skorin heldur breytist túndran hægt og bítandi í sífellt þéttari barrskóg eftir því sem sunnar dregur. Vistfræðingar tala um túndruskóga sem ákveðið belti þar sem samruni þessara miklu vistkerfa er. Þar eru tiltölulega fáar tegundir en oftar en ekki stórir stofnar. Skógarbirnir (Ursus arctos) eru kunnustu spendýr barrskóganna. Skógarbjörninn á sér sterka skírskotun í þjóðarsál Rússa og er hann óumdeilanlega þjóðardýr landsins. Skógarbirnir lifa vítt og breytt um landið nema á túndrunum. Stofnstærð skógarbjarna, árið 2012, var 189.900 dýr og lifa því sennilega um 75% allra núlifandi skógarbjarna í landinu en í allri Norður-Ameríku eru þeir um 53 þúsund. Þar sem búsvæði þeirra er svo víðlent finnast nokkrar undirtegundir bjarnanna í landinu. Ein þeirra, U. a. collaris, finnst í miðhluta Síberíu og Altai, U. a. Arctos finnst í vesturhluta landsins og í Kákasus og að lokum eru það risarnir á Kamtsjatkaskaga, U. a. beringianus.

Líkt og á við um skógarbirni eru stofnar úlfa ákaflega sterkir í Rússlandi. Í landinu finnast sennilega um 45 þúsund dýr og eru þeir hvergi fleiri nema í Kanada, þar sem finnast 52-60 þúsund dýr. Þrátt fyrir þennan fjölda eru úlfar ekki friðaðir í landinu.

Skógarbjörninn er óumdeilanlega þjóðardýr Rússlands. Á myndinni gefur að líta hina stórvöxnu undirtegund Ursus arctos beringianus en þeir eru oft kallaðir risarnir á Kamtsjatkaskaga.

Stærsta kattardýr barrskóganna er evrasíska gaupan (Lynx lynx) en fjöldi smærri rándýra er þar einnig. Af grasbítum er helst að nefna hin síberísku muskdádýr (Moschus moschiferus) og elgi (Alces alces) en þau eru mikilvægustu veiðidýr úlfa og bjarna í skógunum. Þegar gengið er um þessa fornu skóga víða í austurhluta Síberíu og nærri Tunguska og Baykal er auðvelt að sjá ýmis skógardýr eins og íkorna og krákur. Spætur eru einnig nokkuð algengar auk nokkurra tegunda ugla. Villisvín (Sus scrofa) finnast ekki í barrskógunum heldur í sumargrænu skógunum í Suður-Rússlandi, til dæmis Í Primorsky Krai í suðausturhluta landsins, þar sem tegundafjölbreytileiki landsins er hvað mestur.

Rússnesku barrskógarnir eru stærstu samfelldu skógar jarðar en þeir þekja rétt rúmlega 40% landsins eða rúmlega 7 milljón ferkílómetra. Allir skógar Rússlands þekja rúmlega 45% landsins.

Hinn rússneski Amason-skógur

Í suðausturhorni Rússlands eru hinir sumargrænu laufskógar og er dýralíf þar skyldara dýralífi sunnar í Asíu. Þarna lifa úlfar, marðarhundar (Nyctereutes procyonoides), skógarbirnir, asíska svartbirni (Ursus thibetanus) og evrasískar gaupur, auk hinna stórvöxnu síberísku tígrisdýra (Panthera tigris altaica), sem eru stærstu núlifandi kattardýrin en fressdýrin geta orðið rúmlega 300 kg að þyngd, og amur-hlébarðinn (Panthera pardus orientalis), sem er að vísu á barmi útdauða, en hann er norðlægasti og jafnframt sjaldgæfasti hlébarðinn. Þriðja og smæsta kattartegundin finnst í þéttum skógum syðst í Primorsky Krai en það er hlébarðakötturinn (Prionailurus bengalensis). Algengir grasbítar á svæðinu eru skógarhirtir (Cervus canadensis) og evrasísk villisvín sem er algengasta bráð tígrisdýranna á svæðinu.

Síberísku tígrisdýrin (Panthera tigris altaica) eru stærstu núlifandi kattardýrin en fressdýrin geta orðið rúmlega 300 kg að þyngd!

Fuglalífið ber einnig svipmót suðlægari fánu. Um 300 fuglategundir verpa á Ussuri-svæðinu einu en það er svæðið sem markast af Amur-fljótinu í norðri, Ussuri-fljótinu í vestri og strandlengjunni í austri og suðri. Síberíutranan (Grus leucogeranus) er sennilega tígulegasti varpfugl Rússlands og finnst meðal annars við Khanka-vatn. Brimörn eða risaörninn eins og hann hefur verið kallaður (Haliaeetus pelagicus), sem er stærsta arnartegund í heimi, verpir nyrst á svæðinu og aðallega við strandlengju Kamtsjatkaskaga við Okhotsk-haf.

Vagga hestamenningarinnar ‒ steppurnar miklu

Fyrir sunnan barrskógana í vesturhluta Rússlands taka við steppurnar miklu og ná þær um stóran hluta Kasakstan og austur til Mongólíu. Í Rússlandi eru steppurnar frá ármynni Don og teygja sig austur til Kasan og að suðurmörkum Úralfjalla. Á þessum slóðum voru hross fyrst tamin og nytjuð.

Úlfar eru vel aðlagaðir að lífi á steppunum og veiða þau dýr sem þeir komast yfir. Fyrr á öldum var þar undarlegur grasbítur sem taldi milljónir dýra. Þetta er saiga-antilópan (Saiga tatarica) en stjórnlausar iðnaðarveiðar á tímum Sovétríkjanna þurrkuðu tegundina nær út. Frá 1951 hefur tegundin verið friðuð en við hrun Sovétríkjanna stunduðu veiðiþjófar stjórnlausar veiðar þar sem horn þeirra eru talin kynörvandi samkvæmt fornri kínverskri læknisfræði. Dýrunum fækkaði þá um 95% eða úr 2 milljónum í rúmlega 50 þúsund. Þökk sé auknu eftirliti í Rússlandi, en saiga-antilópan lifir aðeins í Kalmykíu og Kasakstan, hefur tegundin hjarnað nokkuð við en baktería sem leggst á öndunarfærin hefur valdið dauða tugþúsunda dýra á undanförnum árum.

Á steppunum miklu voru hestar fyrst tamdir og nytjaðir.

Einkennisfugl steppanna er gullörninn (Aquila chrysaetos) sem er algengur víða í Mið-Asíu. Smávaxin spendýr eru helsta fæða hans, svo sem kanínur og hérar.

Ótalið í þessari stuttu yfirreið um helstu dýr Rússlands eru 13 tegundir snáka sem teljast hættulegir mönnum og yfir 80 tegundir froskdýra.

Rússnesk náttúra hefur mátt þola talsverða ágjöf í hinum pólitíska ólgusjó landsins en þrátt fyrir það hefur Rússum tekist að vernda stór svæði og gera að friðlöndum. Sennilega er ekkert land í heiminum sem hefur jafnmarga og stóra þjóðgarða og Rússland. Það hefur einnig verið náttúrunni til happs hversu stórt landið er. Víðáttur Síberíu er svo miklar að mörg svæði þar teljast til afskekktustu svæða jarðar, til dæmis Tunguska-svæðið í miðhluta Síberíu.

Myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

15.8.2013

Spyrjandi

Svandís Perla Snæbjörnsdóttir, f. 2000

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig er dýralíf í Rússlandi?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63503.

Jón Már Halldórsson. (2013, 15. ágúst). Hvernig er dýralíf í Rússlandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63503

Jón Már Halldórsson. „Hvernig er dýralíf í Rússlandi?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63503>.

Chicago | APA | MLA

Tengd svör

Skoða öll nýjustu svörin

Senda grein til vinar

=

Hvernig er dýralíf í Rússlandi?
Það er hægara sagt en gert að gera almennilega grein fyrir hinu fjölskrúðuga dýralífi sem finnst innan landamæra Rússlands, enda er það stærsta land í heimi. Innan landamæra þess má finna flest helstu þurrlendisvistkerfi jarðar, allt frá túndrum til steppa og laufskóga. Nyrst í landinu eru mikil túndrusvæði. Þar fyrir sunnan eru víðáttumestu skógar jarðar, barrskógabeltið (e. taiga) en það er óslitið belti frá Kareliu, sem er í vesturhluta landsins, og þar fyrir sunnan og allt austur til Kamtsjatkaskaga sem stendur við Kyrrahafið. Fyrir sunnan barrskógana miklu eru gresjur og teygja laufskógar sig víða um miðhluta landsins, þá sérstaklega austast, í fylkinu Primorsky Krai, en þar er vísir að norðlægum regnskógum. Þar gætir mikilla monsúnrigninga á sumrin.

Rússland er stærsta land í heimi. Það kemur því varla á óvart að dýralíf þar er einkar fjölskrúðugt en innan landamæra Rússlands má finna flest helstu þurrlendisvistkerfi jarðar, allt frá túndrum til steppa og laufskóga.

Í heildina þá er dýralíf í Rússlandi ákaflega fjölbreytt og raunar vart nokkuð land í heiminum sem státar af jafnfjölbreytilegu dýralífi. Þar má til dæmis finna vísunda (Bison bonasus), hvítabirni (Ursus maritimus), tígrisdýr (Panthera tigris) og hlébarða (Panthera pardus)! Í Rússlandi er að finna 276 tegundir spendýra, þar af eru 22 tegundir einlendar en alls eru 5 spendýrategundir í mikilli hættu á að deyja út. Varpfuglategundirnar eru 732 og er aðeins ein einlend. Í landinu finnast 75 tegundir skriðdýra og 27 tegundir froskdýra og af ferskvatnsfiskum hafa fundist 400 tegundir. Mestur þéttleiki spendýra er í suðaustasta hluta landsins í Primorsky Krai, sem í gömlum ritum nefnist Ussuriland, en þar eru blandaðir laufskógar, og einnig í norðurhluta Kákasusfjalla.

Hin tilbreytingalausa túndra

Túndrusvæði Rússlands teygir sig vestur frá Kareliu og um Kolaskaga austur til Chukchi-skagans við Beringssund, alls rúmlega 7 þúsund km leið. Túndran þekur um 11% af heildarflatarmáli landsins. Á þessu trjálausa svæði lifa frekar fáar tegundir en harðgerð dýr og plöntur þrauka þarna allan ársins hring. Fuglarnir sem verpa á þessu svæði halda nær allir til suðlægra breiddagráða á haustin. Það geta spendýrin hins vegar ekki og þau þrauka annað hvort veturinn eða leggjast í dvala. Helstu spendýrin sem lifa á túndrusvæðum Rússlands eru hreindýr (Rangifer tarandus), sauðnaut (Ovibos moschatus) og heimskautarefir (Alopex lagopus).

Hreindýr (Rangifer tarandus) eru meðal þeirra spendýra sem lifa á túndrusvæðum Rússlands.

Fá svæði eru jafnóvistleg að vetrarlagi og túndrur Rússlands. Það er því ekki að undra að fjölmörg fangelsi í Gúlag-fangabúðakerfinu voru staðsett á túndrusvæðunum. Víðátturnar þar eru meiri þröskuldur fyrir fanga en hæstu múrar. Túndrurnar eru skjóllausar, vindasamar og ískaldar og fá dýr eru þar á ferli. Á sumrin vakna túndrusvæðin aftur til lífs þegar milljónir fugla koma þangað til að verpa, svo sem snjógæsis (Anser caerulescens), og spendýrin verða meira áberandi. Refir leggjast á egg farfuglanna og úlfar halda til veiða á smáum spendýrum og því sem eftir er af stórum hreindýrahjörðum Rússlands. Önnur algeng spendýr eru læmingjar og snæhérar (Lepus timidus) sem eru mikilvæg fæða fyrir ýmsar tegundir rándýra og fugla, svo sem snæuglur (Bubo scandiacus).

Fyrir norðan íshafsströnd Síberíu eru svo fjölmargar heimskautaeyjar. Kunnust þeirra er Wrangel þar sem mikið er af rostungum (Odobenus rosmarus) og hvítabjörnum (Ursus maritimus).

Úlfa (Canis lupus) má einnig finna á túndrusvæðum Rússlands en stofnar úlfa eru ákaflega sterkir þar í landi.

Túndrusvæðin eru efnahagslega mikilvægustu svæði Rússlands. Helstu olíulindir ríkisins eru í norðvesturhluta Síberíu auk þess sem margar iðnaðarborgir eru á þessum svæðum eins og Norilsk. Þrátt fyrir það lifa innan við 1% Rússa á þessum svæðum.

Hinir endalausu barrskógar

Skipting gróðurbelta milli túndrunnar og barrskóganna er ekki klippt og skorin heldur breytist túndran hægt og bítandi í sífellt þéttari barrskóg eftir því sem sunnar dregur. Vistfræðingar tala um túndruskóga sem ákveðið belti þar sem samruni þessara miklu vistkerfa er. Þar eru tiltölulega fáar tegundir en oftar en ekki stórir stofnar. Skógarbirnir (Ursus arctos) eru kunnustu spendýr barrskóganna. Skógarbjörninn á sér sterka skírskotun í þjóðarsál Rússa og er hann óumdeilanlega þjóðardýr landsins. Skógarbirnir lifa vítt og breytt um landið nema á túndrunum. Stofnstærð skógarbjarna, árið 2012, var 189.900 dýr og lifa því sennilega um 75% allra núlifandi skógarbjarna í landinu en í allri Norður-Ameríku eru þeir um 53 þúsund. Þar sem búsvæði þeirra er svo víðlent finnast nokkrar undirtegundir bjarnanna í landinu. Ein þeirra, U. a. collaris, finnst í miðhluta Síberíu og Altai, U. a. Arctos finnst í vesturhluta landsins og í Kákasus og að lokum eru það risarnir á Kamtsjatkaskaga, U. a. beringianus.

Líkt og á við um skógarbirni eru stofnar úlfa ákaflega sterkir í Rússlandi. Í landinu finnast sennilega um 45 þúsund dýr og eru þeir hvergi fleiri nema í Kanada, þar sem finnast 52-60 þúsund dýr. Þrátt fyrir þennan fjölda eru úlfar ekki friðaðir í landinu.

Skógarbjörninn er óumdeilanlega þjóðardýr Rússlands. Á myndinni gefur að líta hina stórvöxnu undirtegund Ursus arctos beringianus en þeir eru oft kallaðir risarnir á Kamtsjatkaskaga.

Stærsta kattardýr barrskóganna er evrasíska gaupan (Lynx lynx) en fjöldi smærri rándýra er þar einnig. Af grasbítum er helst að nefna hin síberísku muskdádýr (Moschus moschiferus) og elgi (Alces alces) en þau eru mikilvægustu veiðidýr úlfa og bjarna í skógunum. Þegar gengið er um þessa fornu skóga víða í austurhluta Síberíu og nærri Tunguska og Baykal er auðvelt að sjá ýmis skógardýr eins og íkorna og krákur. Spætur eru einnig nokkuð algengar auk nokkurra tegunda ugla. Villisvín (Sus scrofa) finnast ekki í barrskógunum heldur í sumargrænu skógunum í Suður-Rússlandi, til dæmis Í Primorsky Krai í suðausturhluta landsins, þar sem tegundafjölbreytileiki landsins er hvað mestur.

Rússnesku barrskógarnir eru stærstu samfelldu skógar jarðar en þeir þekja rétt rúmlega 40% landsins eða rúmlega 7 milljón ferkílómetra. Allir skógar Rússlands þekja rúmlega 45% landsins.

Hinn rússneski Amason-skógur

Í suðausturhorni Rússlands eru hinir sumargrænu laufskógar og er dýralíf þar skyldara dýralífi sunnar í Asíu. Þarna lifa úlfar, marðarhundar (Nyctereutes procyonoides), skógarbirnir, asíska svartbirni (Ursus thibetanus) og evrasískar gaupur, auk hinna stórvöxnu síberísku tígrisdýra (Panthera tigris altaica), sem eru stærstu núlifandi kattardýrin en fressdýrin geta orðið rúmlega 300 kg að þyngd, og amur-hlébarðinn (Panthera pardus orientalis), sem er að vísu á barmi útdauða, en hann er norðlægasti og jafnframt sjaldgæfasti hlébarðinn. Þriðja og smæsta kattartegundin finnst í þéttum skógum syðst í Primorsky Krai en það er hlébarðakötturinn (Prionailurus bengalensis). Algengir grasbítar á svæðinu eru skógarhirtir (Cervus canadensis) og evrasísk villisvín sem er algengasta bráð tígrisdýranna á svæðinu.

Síberísku tígrisdýrin (Panthera tigris altaica) eru stærstu núlifandi kattardýrin en fressdýrin geta orðið rúmlega 300 kg að þyngd!

Fuglalífið ber einnig svipmót suðlægari fánu. Um 300 fuglategundir verpa á Ussuri-svæðinu einu en það er svæðið sem markast af Amur-fljótinu í norðri, Ussuri-fljótinu í vestri og strandlengjunni í austri og suðri. Síberíutranan (Grus leucogeranus) er sennilega tígulegasti varpfugl Rússlands og finnst meðal annars við Khanka-vatn. Brimörn eða risaörninn eins og hann hefur verið kallaður (Haliaeetus pelagicus), sem er stærsta arnartegund í heimi, verpir nyrst á svæðinu og aðallega við strandlengju Kamtsjatkaskaga við Okhotsk-haf.

Vagga hestamenningarinnar ‒ steppurnar miklu

Fyrir sunnan barrskógana í vesturhluta Rússlands taka við steppurnar miklu og ná þær um stóran hluta Kasakstan og austur til Mongólíu. Í Rússlandi eru steppurnar frá ármynni Don og teygja sig austur til Kasan og að suðurmörkum Úralfjalla. Á þessum slóðum voru hross fyrst tamin og nytjuð.

Úlfar eru vel aðlagaðir að lífi á steppunum og veiða þau dýr sem þeir komast yfir. Fyrr á öldum var þar undarlegur grasbítur sem taldi milljónir dýra. Þetta er saiga-antilópan (Saiga tatarica) en stjórnlausar iðnaðarveiðar á tímum Sovétríkjanna þurrkuðu tegundina nær út. Frá 1951 hefur tegundin verið friðuð en við hrun Sovétríkjanna stunduðu veiðiþjófar stjórnlausar veiðar þar sem horn þeirra eru talin kynörvandi samkvæmt fornri kínverskri læknisfræði. Dýrunum fækkaði þá um 95% eða úr 2 milljónum í rúmlega 50 þúsund. Þökk sé auknu eftirliti í Rússlandi, en saiga-antilópan lifir aðeins í Kalmykíu og Kasakstan, hefur tegundin hjarnað nokkuð við en baktería sem leggst á öndunarfærin hefur valdið dauða tugþúsunda dýra á undanförnum árum.

Á steppunum miklu voru hestar fyrst tamdir og nytjaðir.

Einkennisfugl steppanna er gullörninn (Aquila chrysaetos) sem er algengur víða í Mið-Asíu. Smávaxin spendýr eru helsta fæða hans, svo sem kanínur og hérar.

Ótalið í þessari stuttu yfirreið um helstu dýr Rússlands eru 13 tegundir snáka sem teljast hættulegir mönnum og yfir 80 tegundir froskdýra.

Rússnesk náttúra hefur mátt þola talsverða ágjöf í hinum pólitíska ólgusjó landsins en þrátt fyrir það hefur Rússum tekist að vernda stór svæði og gera að friðlöndum. Sennilega er ekkert land í heiminum sem hefur jafnmarga og stóra þjóðgarða og Rússland. Það hefur einnig verið náttúrunni til happs hversu stórt landið er. Víðáttur Síberíu er svo miklar að mörg svæði þar teljast til afskekktustu svæða jarðar, til dæmis Tunguska-svæðið í miðhluta Síberíu.

Myndir:

...