Öll froskdýr hafa slétta, slímuga (raka) húð án hreisturs. Fjórir fætur þeirra svara þróunarlega að gerð og þroska til eyrugga og kviðugga fiska. Lífsferli froskdýra má skipta í tvennt, lirfustig og fullorðinsstig. Lirfurnar eða halakörtur lifa oftast í ferskvatni og minna á fiskseiði. Þær anda með tálknum og með húðinni. Flestar salamöndrur lifa í vatni ævilangt, en froskar geta lifað á þurru landi eftir að þeir ná fullorðinsstigi. Nánast allar tegundir froskdýra fá lungu þegar dýrin þroskast en nokkrar tegundir salamandra hafa bæði lungu og tálkn á fullorðinsstigi. Öll frjóvgun froskdýra fer fram í vatni, gildir einu hvort dýrin lifa í vatni eða á þurrlendi á fullorðinsstigi. Það er eitthvað breytilegt eftir flokkunarkerfum hvað froskdýr eru talin skiptast í margar tegundir. Til viðmiðunar má benda á vef skriðdýrafræðingsins Darrel Frost og The American Museum of Natural History Amphibian Species of the World. Þar eru tegundir froskdýra sagðar vera 6.433 og eru froskar langtegundaríkasti hópurinn með 5.679 tegundir í 48 ættum. Salamöndrur telja 580 tegund í 9 ættum og ormkörtur 174 tegundir í 3 ættum. Hægt er að fræðast meira um froskdýr í öðrum svörum á Vísindavefnum, til dæmis við spurningunum:
- Eru salamöndrur eðlur?
- Hvernig gefa froskar frá sér eitur?
- Hvernig æxlast froskar?
- Hversu gamlir geta froskar orðið?
- Hvað eru margar froskategundir til á Íslandi og í heiminum?