Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Við þessari spurningu er ekki eitt algilt svar þar sem froskategundirnar eru yfir 5.000 talsins og töluverður breytileiki er á milli tegunda. Í raun er ekki mikið vitað um langlífi froska, en almenna reglan er þó sú að því stærri sem tegundirnar eru því eldri verða einstaklingarnir. Vissulega eru undantekningar frá þessari reglu en sambandið á milli stærðar og langlífis virðist nokkuð gott.
Það er tiltölulega erfitt að greina aldur froska og annarra froskdýra. Yfirleitt telja menn hringi sem myndast í beinvef þeirra, svipað og hjá trjám. Takmarkaðar upplýsingar finnast um það hversu gamlir froskar verða í náttúrunni en eins og gildir um mörg önnur dýr þá ná villtir froskar ekki eins háum aldri og froskar í haldi manna. Fyrir því eru ýmsar orsakir, lífsbaráttan er harðari í náttúrunni, þar er meiri samkeppni um fæðu og svo mætti lengi telja.
Risakartan
Bufo Marinus getur náð um eða yfir 20 ára aldri í haldi manna.
Vitað er að froskar af ýmsum tegundum í haldi manna geta náð nokkuð háum aldri. Algengt er að þeir verði einhvers staðar á bilinu 5 til 14 ára eftir tegundum, en vissulega eru dæmi um eldri einstaklinga, jafnvel allt að 40 ára gamla.
Ef tekin eru dæmi um nokkrar tegundir sem algengar eru í dýragörðum þá getur risakarta (Bufo marinus) náð allt að 24 ára aldri þótt algengt sé að hún verði ekki meira en um 14 ára. Græni og svarti eiturörvafroskurinn (Dendrobates auratus) hefur líklega náð hæst 17 ára aldri, Kínaklukkari (Bombina orientalis) nær allt að 14 árum og stórhyrndi froskurinn (Ceratophrys ornata) getur orðið allt að 12 ára gamall.
Heimildir og mynd:
Tamotsu Kusano, Kinji Fukuyama, Noriko Miyashita. 1995. Age Determination of the Stream Frog, Rana sakuraii, by Skeletochronology. Journal of Herpetology, 29(4): 625-628.
Jón Már Halldórsson. „Hversu gamlir geta froskar orðið?“ Vísindavefurinn, 1. nóvember 2007, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6879.
Jón Már Halldórsson. (2007, 1. nóvember). Hversu gamlir geta froskar orðið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6879
Jón Már Halldórsson. „Hversu gamlir geta froskar orðið?“ Vísindavefurinn. 1. nóv. 2007. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6879>.