- Evrasíuúlfur (Canis lupus lupus): Finnst víða í Evrópu og Asíu, svo sem í Rússlandi, Kína, Mongólíu og á Himalajasvæðinu. Stofnstærð er sennilega fáeinir tugir þúsunda dýra og hefur heildarstofnstærðin verið nokkuð stöðug undanfarna 3-4 áratugi. Ekki í hættu en staðbundin dýr kunna að vera í hættu vegna smárrar stofnstærðar og skyldræktunar.
- Túndruúlfur (Canis lupus albus): Finnst á túndrusvæðum og í nyrstu skógum í Rússlandi, Síberíu og nyrst í Skandinavíu. Stofnstærðin er stöðug og ekki í hættu eins og sakir standa.
- Arabíuúlfur (Canis lupus arabs): Finnst í Miðausturlöndum frá Ísrael og til austustu landa Arabíuskagans. Smávaxinn eyðimerkurúlfur. Er í mikilli útrýmingarhættu.
- Heimskautaúlfur (Canis lupus arctos): Lifir á heimskautasvæðum í Alaska, Kanada og á Grænlandi. Ástand þessarar deilitegundar er tiltölulega gott og er hún ekki talin í hættu.
- Mexíkóúlfur (Canis lupus baileyi): Lifir í norðurhluta Mexíkó, Nýju-Mexíkó, Arisóna og Texas. Er í nokkurri hættu.
- Steppuúlfur (Canis lupus campestris): Lifir á steppum Suður-Rússlands, í Kasakstan og á Kákasussvæðinu. Þessi deilitegund er ekki í hættu og er talið að í Kasakstan einu lifi nú um 30 þúsund einstaklingar.
- Tíbetúlfur (Canis lupus chanco): Smávaxinn úlfur sem finnst á hrjóstrugum svæðum Himalajafjalla, í Mongólíu, Mið-Asíu, Kasmír og víða í Kína, svo sem í Xinjang, Sensi, Yunnan og Sichuan. Víða á útbreiðslusvæði tíbetúlfsins er hann ofsóttur og hefur honum fækkað á flestum svæðum og telst því vera í útrýmingarhættu. Heildarstofnstærð hans telst þó enn vera í tugum þúsunda dýra.
- Vancouver-úlfur (Canis lupus crassodon): Finnst á Vancouver-eyju í Kanada og Bresku Kólumbíu. Stofninn mun vera stöðugur og því ekki í hættu.
- Hudson-úlfur (Canis lupus hudsonicus): Lifir við Hudson-flóa í Manitoba og á túndrusvæðunum í norðvesturhluta Kanada. Deilitegund þessi telst vera í hættu enda hefur henni fækkað eitthvað undanfarna áratugi.
- Labrador-úlfur (Canis lupus labradicus): Lifir í Labrador og norðurhluta Quebec í Kanada. Var ofveiddur á fyrri hluta síðustu aldar en með fjölgun á hreindýrum í Labrador braggaðist deilitegundin nokkuð og telst ekki vera í útrýmingarhættu eins og sakir standa.
- Norður-Klettafjallaúlfur (Canis lupus irremotus): Lifir í norðurhluta Klettafjalla og á aðliggjandi svæðum, svo sem í Yellowstone-þjóðgarðinum. Deilitegundin er mjög fáliðuð en hefur eitthvað fjölgað. Telst þó vera í útrýmingarhættu.
- Alexander-eyjaklasaúlfur (Canis lupus ligoni): Finnst á eyjum undan suðausturhluta Alaska. Stofninn er nokkuð stöðugur, tæplega þúsund dýr. Telst ekki vegna þessa vera í útrýmingarhættu en er vel vaktaður. Úlfum hefur þó fækkað nokkuð á sumum eyjum, svo sem á eyjunni Prince of Wales eða um 50% á tæpum tveimur áratugum.
- Austræni úlfurinn (Canis lupus lycaon): Lifir á austustu svæðum Ontario, aðallega á Algonquin-verndarsvæðinu og aðliggjandi svæðum auk þess að finnast á austustu svæðum Quebec. Utan verndarsvæða er hann ofsóttur enda landbúnaður stundaður víða á svæðinu. Stofnstærð hans er um 2000 dýr og telst hann vera í hættu.
- Mackenzie-úlfur (Canis lupus mackenzii): Finnst á norðvestursvæðum Kanada. Stórvaxinn túndruúlfur sem mun vera í útrýmingarhættu.
- Baffinlands-úlfur (Canis lupus manningi): Lifir á hinu harðbýla Baffinslandi og nokkrum smærri aðliggjandi eyjum. Hann flækist oft til Vestur-Grænlands. Þetta eru heimskautaúlfar með hvítan og þykkan feld sem lætur þá líta út stærri en þeir eru. Deilitegundin er í útrýmingarhættu en stofnstærðin er höfundi ekki kunnug.
- Buffalo-úlfur (Canis lupus nubilus): Lifir í Bandaríkjunum nánar tiltekið í Michigan, Wisconsin og Minnesota. Hefur vaxið nokkuð á undanförnum áratugum og eru kröfur um að deilitegundin verði tekin af lista yfir úlfa í útrýmingarhættu. Núverandi stofnstærð er rúmlega 3.800 dýr.
- Mackenzie-dalsúlfur (Canis lupus occidentalis): Náskyldur Mackenzie-úlfi og hafa sumir dýrafræðingar viljað setja þessa deilitegund undir C. l. Mckenzii deilitegundina. Staðan á tegundinni er sú að hún er ekki í hættu eða lítil hætta á útrýmingu (e. least concern).
- Grænlands-úlfur (Canis lupus orion): Lifir í austurhluta Grænlands. Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á deilitegundinni en stofnstærðin er aðeins um 50-120 dýr og er hann friðaður á 90% útbreiðslusvæðis síns. Deilitegundin er klárlega í útrýmingarhættu enda afar fáliðuð.
- Indverski úlfurinn (Canis lupus pallipes): Smávaxinn úlfur sem finnst frá Indlandi og vestur til Miðausturlanda. Er í útrýmingarhættu vegna smárrar stofnstærðar. Í Tyrklandi er stofninn um 1000 dýr, Ísrael um 150 dýr, Sádi-Arabíu um 300 til 600 dýr og um 1000 úlfar á Indlandi. Heildarstofnstærðin er sennilega nærri 3000 dýr og er deilitegundin þar af leiðandi í talsverðri útrýmingarhættu.
- Yukon-úlfur (Canis lupus pambasileus): Finnst í Alaska og á Yukon-svæðinu. Á undanförnum áratugum hefur verið unnið að því að efla stofn þessara úlfa og gengið svo vel að hann hefur á sumum svæðum verið friðaður en þó takmarkaðir veiðikvótar gefnir út, meðal annars leyfi til veiða úr flugvélum árið 2009. Kvótinn var settur um 200 dýr þrátt fyrir mikil mótmæli náttúruverndarsamtaka.
- Rauðúlfur (Canis lupus rufus): Finnst í austurhluta Norður-Karólínu. Dýrafræðingar hafa mikið deilt um hvort rauðúlfurinn sé blendingur sléttuhunds (e. coyote) og úlfs, sérdeilitegund úlfa eða jafnvel sértegund, Canis rufus. Samkvæmt nýlegum rannsóknum virðast flestir vísindamenn „sætta“ sig við að hér sé um deilitegund úlfs að ræða. Rauðúlfurinn hvarf reyndar úr villtri náttúru Norður-Karólínu árið 1980 en metnaðarfullt starf við að koma honum aftur á legg hefur borið góðan árangur. Deilitegundin er þó í mikilli útrýmingarhættu.
- Alaska-túndruúlfur (Canis lupus tundrarum): Lifir á túndrusvæðum Alaska og meðfram norðurströnd Alaska. Hann er meðal stærstu úlfa heims, karldýrin verða allt að 80 kg. Deilitegundin er stöðug og ekki í hættu.
- Macdonald, David; Claudio Sillero-Zubiri (2004). The Biology and Conservation of Wild Canids. Oxford: Oxford University Press. Bls. 45-46.
- Mammals of the Soviet Union Vol. II Part 1a, Sirenia and Carnivora (Sea cows; Wolves and Bears). V.G Heptner og N.P Naumov (ritstjórar), Science Publishers, Inc. USA. 1998.
- Nowak, R. M. (2003). Chapter 9: Wolf evolution and taxonomy. Í D. Mech & L. Boitani (Ritstjórn). Wolves: Behavior, Ecology, and Conservation (bls. 239-258). Chicago: University of Chicago Press.
- Royal Ontario Museum and the Ontario Ministry of Natural Resources - Eastern Wolf
- Cosmosmith - The Mackenzie Tundra Wolf
- en.wikipedia.org - Gray wolf: Canis lupus lupus. Sótt 3.4.2012.
- en.wikipedia.org - Subspecies of Canis lupus: Canis lupus arctos. Sótt 3.4.2012.
- en.wikipedia.org - Subspecies of Canis lupus: Canis lupus crassodon. Sótt 3.4.2012.
- en.wikipedia.org - Subspecies of Canis lupus: Canis lupus lycaon. Sótt 3.4.2012.
- en.wikipedia.org - Subspecies of Canis lupus: Canis lupus occidentalis. Sótt 3.4.2012.
- en.wikipedia.org - Subspecies of Canis lupus: Canis lupus pallipes. Sótt 3.4.2012.
- en.wikipedia.org - Subspecies of Canis lupus: Canis lupus rufus. Sótt 3.4.2012.