Sauðnaut í Dofrafjalli í Noregi
Frumbyggjar norðurhjarans hafa vissulega þekkt sauðnautið frá alda öðli en það var ekki fyrr en árið 1869 sem vesturlandabúum varð kunnugt um tilvist þess. Útbreiðsla sauðnautsins nú er á heimsskautsvæðum allt í kringum norðurpól, í Alaska, Kanada, Grænlandi og Rússlandi. Í Alaska dóu sauðnaut reyndar út seint á 19. öld, en nokkur dýr voru flutt inn aftur á 4. áratug síðustu aldar og hefur tegundinni farnast afar vel þar síðan. Ennfremur voru nokkur dýr flutt til Dofrafjalla í Noregi skömmu eftir seinni heimssyrjöldina. Þar eru komnar nokkuð góðar hjarðir og hafa fáeinar þeirra fært sig austur yfir landamæri Svíþjóðar. Innfluttum dýrum hefur einnig farnast vel á Svalbarða og í norður Rússlandi. Að vonum var útbreiðsla sauðnauta mun meiri á síðasta jökulskeiði en nú er og hafa leyfar þeirra fundist talsvert langt suður á bóginn, meðal annars í Frakklandi. Sauðnaut kjósa sér helst þurrt og stöðugt meginlandsloftslag þar sem kalt er allan veturinn. Ef útbreiðsla þeirra á Grænlandi er skoðuð sést að þau halda sig að mestu á úrkomulitlum svæðum, helst undir 250 mm meðalúrkomu á ári. Lífshættir og útlit
Sauðnaut eru vel aðlöguð að lífi við norðurhöf og þola bæði miklar frosthörkur og hríðarveður. Síðhærður feldurinn er afar góð vörn enda samanstendur hann af vindhárum sem geta verið allt að 70 cm á lengd en undir er þykkt ullarháralag. Undir húðinni eru þau auk þess með þykkt spiklag. Á vorin fella sauðnautin ullina en ekki vindhárin. Liturinn er dökkbrúnn, allt að því svartur, en á vorin og sumrin lýsist feldurinn nokkuð. Skrokkur sauðnauta er nokkuð langur og samanrekin. Fæturnir eru stuttir og sterklegir með breiðar klaufar sem henta vel til að róta í snjó eftir æti. Bæði kynin eru hyrnd, en horn tarfanna eru mun stærri og sterklegri en á kúnum. Þau eru afar breið við rótina og mynda nokkurs konar konar höfuðskjöld ekki ósvipaðan og hjá hinum afríska vatnabuffal (Syncerus caffer). Sauðnaut eru hjarðdýr og samanstanda hjarðirnar af dýrum af báðum kynjum, ungum törfum, kúm og kálfum. Hjarðirnar eru sjaldnast stórar, vart fleiri en 10-12 dýr, en þó þekkjast stærri hjarðir með allt að 60 dýrum. Þótt hjarðirnar séu yfirleitt blandaðar þekkist a' þó að ungir og gamlir tarfar myndi sérstaka hjörð. Fengitími sauðnauta er í júlí og ágúst, en nokkru áður fer árásargirni á milli tarfanna að aukast og bardagar þeirra á milli verða algengir. Eftir því sem nær dregur fengitíma verður samkeppnin harðari og aukin harka færist í bardagana. Á þessum tíma leggur frá þeim megna moskuslykt, en enska heiti þeirra er einmitt musk ox. Meðgöngutími sauðnauta er að jafnaði níu mánuðir og fæðast kálfarnir venjulega í apríl eða maí. Oftast bera kýrnar einn kálf og eru fjölburafæðingar afar sjaldgæfar. Meðalþyngd nýborins kálfs er um 7 kg.
Hefðu sauðnaut ekki verið friðuð væru þau að öllum líkindum nú útdauð.
Þau dýr sem sauðnautum stendur mest ógn af, fyrir utan manninn, eru fyrst og fremst úlfar (Canis lupus) og ísbirnir (Ursus maritimus), en brúnbirnir (Ursus arctos) eiga það einnig til að drepa sauðnaut. Úlfarhópar sækjast einkum eftir ungviðinu og er það atferli sauðnauta mjög vel þekkt að að þegar úlfar gera atlögu að hjörðinni slá fullorðnu dýrin hring utan um ungviðið. Þessi aðferð gefst mjög vel, en eiga úlfarnir eiga litla sem enga von um að rjúfa þennan varnarmúr. Þessi aðferð reyndist hins vegar ekki vel sem vörn gegn manninum, sem með sín öflugu skotvöpn átti auðvelt með að þurrka hjörðina út. Verndun
Skömmu eftir að Evrópumenn uppgötvuðu sauðnaut urðu þau meðal vinsælustu veiðidýra heimskautsfara og ævintýramanna. Veiðarnar urðu á skömmum tíma svo gegndarlausar að fljótlega dóu þau út alveg út í Alaska og í Kanada vestan McKensie árinnar. Til eru fjölmargar ferðalýsingar frá upphafi síðustu aldar sem meðal annars vitna um mikla og sorglega rányrkju á sauðnautum. Hefði ekki verið gripið til verndaraðgerða gagnvart sauðnautum væru þau að öllum líkindum útdauð í dag. Eftir að þau voru hins vegar friðuð tóku eftirlifandi hjarðir vel við sér, sem og hópar sem fluttir voru á ný inn á svæði þar sem sauðnautum hafði verið útrýmt. Í dag telst heildarstofnstærð sauðnauta vera rúmlega 60 þúsund dýr og hefur tegundin verið tekin af lista IUCN yfir dýr í útrýmingarhættu. Sennilega hafa heimskautamenn fyrir þúsundum ára stuðlað að útrýmingu sauðnautsins á túndrunum í norðanverði Evrópu og Asíu. Sumir fræðimenn hafa haldið því fram að þegar veiðimenn í norðaustur Síberíu höfðu ekki lengur nein sauðnaut að veiða á búsvæðum sínum, hafi þeir farið austur yfir Beringssund til Ameríku. Þessir fólksflutningar eru taldir hafa átt sér stað fyrir um 3.000 árum og orðið til þess að inúítar tóku sér bólfestu í Ameríku. Þar voru þá fyrir innfæddir þjóðflokkar sem komið höfðu löngu fyrr. Fækkun sauðnauta olli einnig miklum breytingum á menningu inúíta, en þeir þurftu í auknum mæli að snúa sér að veiðum á sjávardýrum og þá einkum sel. Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Hvernig er dýralíf á Grænlandi?
- Hvernig var dýralífið á ísöldunum?
- Gætu vísundar lifað villtir í íslenskri náttúru?
- Hvað er það helsta sem einkennir spendýrin?
- Groves, P. 1997. Muskox. Alaska Geographic, 23/4: 56-86.
- Nowak, R. 1999. Walker's Mammals of the World. The Johns Hopkins University Press, Baltomore.
- Wikimedia Commons