Fyrir um 10 þúsund árum tók veðurfar að hlýna og úrkoma minnkaði, loftslag varð þurrara með þeim afleiðingum að breytingar urðu á gróðurfari. Flestir sérfræðingar um ísaldartímann eru á því að breytingar á gróðri hafi valdið því að margir risar ísaldartímans dóu út, bæði jurtaætur og rándýr sem lifðu á þeim. Útbreiðslusvæði margra núlifandi dýra, eins og úlfa og ljóna, breyttust mjög. Kenningar um að maðurinn hafi útrýmt mörgum dýrategundum með veiðum, virðast því samkvæmt nýjustu rannsóknum ekki eiga við rök að styðjast. Margar dýrategundir hurfu einnig á tempruðum svæðum jarðar svo sem risajagúarinn, risabeltisdýrið og hið tröllvaxna letidýr. Hér á eftir verður fjallað lítillega um nokkur af þeim spendýrum sem hurfu á umræddu tímabili. Hér er hægt að lesa um mammúta (Mammuthus spp.) Sverðkötturinn (Smilodon fatalis) var eitt ógurlegasta rándýr ísaldartímans. Þessi stórtennti köttur var uppi frá því fyrir um tveimur milljónum ára og dó út fyrir um 11 þúsund árum. Smilodon var á stærð við núlifandi tígrisdýr (200-250 kg) og veiddi stór dýr á borð við unga mammúta. Sverðkötturinn var ekki heimskautadýr heldur lifði hann á tempruðum svæðum. Loðnir nashyrningar (Rhinoceros antiquitatis) voru algengir á heimskautasvæðinu á jökultímanum. Þeir lifðu á túndrusvæðum Evrasíu og Norður-Ameríku.
Ameríska hellaljónið (Panthera atrox) er talið hafa, á hlýindaskeiði fyrir hundruðum þúsunda ára, komið yfir landbrúna sem var á milli Síberíu og Alaska og breiðst út um Ameríku, allt suður til Perú. Þetta ljón hvarf úr dýraríki Ameríku á sama tíma og fjöldi stórra spendýra við lok ísaldar. Í Norður-Ameríku var einnig til úlfategund sem varð aldauða við lok ísaldar. Þessa tegund mætti kalla á íslensku ógnarúlf (e. dire wolf, canis dirus) og hafði sama sess í vistkerfi sunnanverðri Norður-Ameríku og blettahýenur nútímans hafa í Afríku. Ógnarúlfurinn var stærri en gráúlfurinn, um 55-80 kg að þyngd. Hann hefur sennilega lifað fyrir sunnan útbreiðslusvæði gráúlfsins sem hafði aðlagað sig erfiðari skilyrðum. Nokkrar tegundir risaletidýra voru þekktar á tempruðum svæðum ísaldar. Þau voru tröllvaxin og gátu náð 6 metra lengd og lifðu á jörðinni en ekki í trjám eins og letidýr nútímans gera. Mastódonar (Mammut spp.) voru náskyld fílum nútímans og mammútum. Nokkrar tegundir voru innan ættkvíslarinnar mastodon. Mastódonar voru sennilega á ferli í Ameríku þegar fyrstu frumbyggjarnir komu til álfunnar, en þeir lifðu um allan heim og eru talsvert algengir í jarðlögum. Þeir voru ekki eins háfættir og fílar nútímans en mjög skrokkmiklir og lifðu á blöðum lauftrjáa. Mastódonar hafa að öllum líkindum verið mikið veiddir af frumstæðum þjóðflokkum Ameríku og Evrasíu enda hafa fundist fjölmargar minjar þessara skepna í gömlum mannavistarleifum. Mastódonar voru margir hverjir loðnir líkt og mammútar.