Við got eru kanínuungar blindir og hárlausir (e. altricial) og algjörlega hjálparvana. Héraungar eru hins vegar bráðþroska þar sem þeir eru hærðir og hafa góða sjón strax við fæðingu (e. precocial) og geta þess vegna, ef því er að skipta, flúið óvin. Atferli héra og kanína í villtri náttúru er mjög ólíkt. Kanínur halda sig oft í hópum og grafa göng eða holur neðanjarðar sem þær leita skjóls í þegar óvinur nálgast. Kvendýrin gjóta í þessum holum og halda ungviðinu þar, þangað til það er orðið nægjanlega þroskað til að takast á við hætturnar sem bíða úti í náttúrunni. Fullorðnir hérar eru aftur á móti einfarar nema á mökunartíma. Þeir halda oft til á graslendi og svæðum þar sem fá tré eru. Hérar eru hlaupadýr og reyna að stinga óvini af á hlaupum í stað þess að skríða í holur eins og kanínur. Munurinn á þroskun ungviðanna sem nefndur var hér að ofan tengist að öllum líkindum þessu mismunandi atferli, það er að kanínur gera sér hreiður í holum og göngum en got héra fer fram á jafnsléttu eða í skógarrjóðri þar sem ungviðið þarf að vera tilbúið að takast á við hættur umhverfisins strax eftir got. Þess má að lokum geta að almennt er lundarfar héra nokkuð villtara en kanína. Margir halda kanínur sem gæludýr en ómögulegt virðist að halda héra í sama tilgangi. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað geta kanínur orðið gamlar?
- Eru kanínur orðnar villt tegund á Íslandi, og sér maður þær í íslenskum dýrabókum í framtíðinni?