Elstu steingerðu leifar af fugli sem heyrir til Strigiformes, eru frá eósentímabilinu (55-38 milljón ár) og hefur þessi hugsanlegi forfaðir ugla nútímans verið nefndur Protostrix. Margar tegundir ugla sem nú eru útdauðar, náðu mun meiri stærð en stærstu núlifandi uglur. Tegundin Ornimegalonyx oteroi var tvöfalt stærri en stærstu uglur nútímans, hún var ófleyg og uppi á plíósentímabilinu (10- 1,8 milljón ár). Þar sem langflestar uglutegundir í heiminum eru næturdýr, eru ýmsir þættir í líffræði þeirra ekki vel þekktir. Þar með talið er hversu gamlar þær geta orðið en vitað er að uglur, líkt og flestir aðrir ránfuglar, geta náð háum aldri. Eins og sameiginlegt er öllum villtum dýrum ná uglur ekki hárri elli í blóðugri lífsbaráttunni. Því er haldið fram að uglur sem hafa verið hafðar í haldi, hafi náð rúmlega 30 ára aldri, en það hefur ekki verið staðfest. Vitað er að fuglafræðingar sem rannsakað hafa uglur í náttúrunni, svo sem stóru eyrugluna (Bubo virginianus) sem lifir í Ameríku, hafa staðfest að elstu fuglarnir nái rúmlega 12 ára aldri. Ekki fann ég meiri upplýsingar um um „elli“ annarra uglutegunda en stóra eyruglan hefur verið talsvert rannsökuð. Heimildir og mynd:
Fleiri svör um uglur á Vísindavefnum: