Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Gullörninn (Aquila chrysaetos) er meðal kunnustu stórarna heimsins enda er hann mjög útbreiddur. Heimkynni hans ná yfir stóran hluta Evrasíu en gullernir finnast einnig í Norður-Afríku og í Norður-Ameríku, aðallega í vesturhluta álfunnar, frá Alaska suður til miðhluta Mexíkó. Lítill varpstofn er einnig í Austur-Kanada og stöku pör verpa í austurríkjum Bandaríkjanna.
Gullörninn er meðal stærstu arna í heimi. Líkamslengd hans er á bilinu 70-84 cm og vænghafið á bilinu 185-220 cm. Kvenfuglinn vegur á bilinu 4-6 kg en karlinn er talsvert minni eða 3-4,5 kg.
Gullörn á hreiðri.
Fjölmargar hættur steðja að gullerninum. Má þar nefna búsvæðaröskun, ofveiði á veiðidýrum hans og ýmiskonar truflun, en gullernir eru afar viðkvæmir fyrir truflun á varptíma og hætta er á að þeir yfirgefi hreiður sitt.
Gullörninn var fyrst friðaður í Bandaríkjunum með verndarlögum frá árinu 1962. Þá hafði verið gengið nærri stofninum, aðallega vegna þess að bændur kenndu erninum um stórfellt lambadráp. Talið var að áður en gripið var til þessara verndaraðgerða hafi rúmlega tuttugu þúsund ernir verið skotnir.
Fuglafræðingar telja að gullörninn sé ekki í útrýmingarhættu, enda hefur stofninn verið í lítilsháttar sókn á nokkrum svæðum. Heildarstofnstærð hans á heimsvísu er nú talin vera um 250 þúsund einstaklingar. Evrópski varpstofninn er talinn vera um 8.400 pör en langflestir gullernir eiga að öllum líkindum heimkynni í Mið-Asíu.
Heimild og mynd:
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru margir gullernir eftir í heiminum?“ Vísindavefurinn, 4. ágúst 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5175.
Jón Már Halldórsson. (2005, 4. ágúst). Hvað eru margir gullernir eftir í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5175
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru margir gullernir eftir í heiminum?“ Vísindavefurinn. 4. ágú. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5175>.