Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað gerðist í Tunguska í Síberíu?

Ulrika Andersson

Snemma morguns þann 30. júní árið 1908 heyrðist gríðarleg sprenging nálægt ánum Tunguska í Mið-Síberíu. Svæðið er frekar strjálbýlt, eiginlega eyðimörk að mestu, en þó var þar statt fólk sem varð vitni að atburðinum. Vitnin sögðu að þeim sýndist sem stór eldbolti flygi yfir himininn sem var albjartur og húsin byrjuðu að skjálfa líkt og kominn væri jarðskjálfti. Í kjölfarið fylgdi heitur vindsveipur sem var svo öflugur að fólk kastaðist til jarðar. Fólkið sagði að ljósið hefði verið sterkari en sólin og víst var það sterkt því að það sást alla leiðina til Vestur-Evrópu. Mörg þúsund dýr dóu við sprenginguna en óvíst er hversu margir menn létu lífið.

Lengi vel var óljóst hvað olli sprengingunni en kenningar um það voru margar. Sumir töldu að hér hefði fljúgandi furðuhlutur verið á ferð og brotlent eða að geimverur hefðu varpað öflugri sprengju á jörðina. Flestir voru þó jarðbundnari og töldu að loftsteinn hefði rekist á jörðina með þessum afleiðingum.

Vísindamenn fóru ekki að rannsaka staðinn fyrr en 20 árum síðar. Þá sáu þeir að barrskógur á um 2000 ferkílómetra svæði (tvisvar sinnum stærra en Langjökull!) hafði eyðilagst í sprenging-unni. Sérfræðingarnir voru nokkuð vissir um að hér hafði lofsteinn verið á ferðinni en það truflaði þá að þeir fundu hvergi neina gíga. Loftsteinar skilja yfirleitt eftir sig gíga ef þeir rekast á plánetur eins og sjá má tunglinu sem er alsett holum ("gígum") eftir að loftsteinar hafa rekist á það. Atburðirnir í Tunguska eru því enn nokkuð dularfullir.

Sérfræðingar geta því aðeins getið sér til um það hvers konar sprenging hér hafi verið á ferðinni. Líklegast er talið að loftsteinn eða hluti af halastjörnu hafi komist inn í gufuhvolf jarðar. Á leið sinni til jarðar hefur loftsteinninn hitnað mikið eins og aðrir loftsteinar vegna núningsins sem myndast þegar hann kemur inn í gufuhvolfið. Þessi ógnarhiti varð til þess að loftsteinninn hefur brotnað eða sprungið í bita. Í sprengingunni hafa myndast þrýstibylgjur á yfirborði jarðar en loftsteinninn hefur orðið að möl sem rigndi yfir svæðið og dreifðist með vindum. Af þessum ástæðum mynduðust ekki gígar og gasið sem myndaðist við sprenginguna lýsti upp himininn lengi á eftir.



Ólíklegra er talið að um halastjörnu hafi verið að ræða því þær eru yfirleitt úr ís og hitinn sem myndast þegar halastjarna kemur inn gufuhvolfið hefði sennilegast brætt hana og hún hreinlega gufað upp.

Talið er að loftsteinninn hafi verið á bilinu 100.000 til 1.000.000 tonna þungur og að hann hafi ferðast um gufuhvolfið á um 100.000 kílómetra hraða á klukkustund. Reiknað hefur verið út að 60 metra breiður loftsteinn sem fellur að jörðu með 45° aðfallshorni mundi springa um 6,5 kílómetra frá yfirborði jarðar.

Sérfræðingar halda að sprengingin hafi jafnast á við 15 megatonna kjarnorkusprengingu en það er þúsund sinnum öflugri sprenging en þegar Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á Hiroshima í Japan árið 1945.

Stjörnufræðingar hafa fundið fleiri hundruð loftsteina og halastjörnur sem eru á braut nálægt jörðu. Í versta falli myndi stór hluti af lífinu á jörðinni þurrkast út ef þeir rækjust á jörðina. Talið er að risaeðlur hafi horfið fyrir 65 milljónum ára, meðal annars vegna þess að loftsteinn hafi rekist á jörðina. Við sprenginguna sem verður við áreksturinn þyrlast ryk og gas upp í gufuhvolf jarðar og getur skyggt á sólina í fleiri mánuði og jafnvel ár. Þá verður dimmt og kalt á jörðinni og plöntur og dýr deyja. Að meðaltali rekst loftsteinn á jörðina á 300.000 ára fresti.

Heimild

Britannica Online

Myndin úr skóginum fengum við af vefsetrinu Tunguska homepage. Skýringamyndina fundum við á sama vefsetri enn á eftirfarandi slóð.

Höfundur

Ulrika Andersson

vísindablaðamaður

Útgáfudagur

21.3.2002

Spyrjandi

Pétur Már Sigurjónsson, f. 1989
Þorleifur Gíslason

Tilvísun

Ulrika Andersson. „Hvað gerðist í Tunguska í Síberíu?“ Vísindavefurinn, 21. mars 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2221.

Ulrika Andersson. (2002, 21. mars). Hvað gerðist í Tunguska í Síberíu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2221

Ulrika Andersson. „Hvað gerðist í Tunguska í Síberíu?“ Vísindavefurinn. 21. mar. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2221>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað gerðist í Tunguska í Síberíu?
Snemma morguns þann 30. júní árið 1908 heyrðist gríðarleg sprenging nálægt ánum Tunguska í Mið-Síberíu. Svæðið er frekar strjálbýlt, eiginlega eyðimörk að mestu, en þó var þar statt fólk sem varð vitni að atburðinum. Vitnin sögðu að þeim sýndist sem stór eldbolti flygi yfir himininn sem var albjartur og húsin byrjuðu að skjálfa líkt og kominn væri jarðskjálfti. Í kjölfarið fylgdi heitur vindsveipur sem var svo öflugur að fólk kastaðist til jarðar. Fólkið sagði að ljósið hefði verið sterkari en sólin og víst var það sterkt því að það sást alla leiðina til Vestur-Evrópu. Mörg þúsund dýr dóu við sprenginguna en óvíst er hversu margir menn létu lífið.

Lengi vel var óljóst hvað olli sprengingunni en kenningar um það voru margar. Sumir töldu að hér hefði fljúgandi furðuhlutur verið á ferð og brotlent eða að geimverur hefðu varpað öflugri sprengju á jörðina. Flestir voru þó jarðbundnari og töldu að loftsteinn hefði rekist á jörðina með þessum afleiðingum.

Vísindamenn fóru ekki að rannsaka staðinn fyrr en 20 árum síðar. Þá sáu þeir að barrskógur á um 2000 ferkílómetra svæði (tvisvar sinnum stærra en Langjökull!) hafði eyðilagst í sprenging-unni. Sérfræðingarnir voru nokkuð vissir um að hér hafði lofsteinn verið á ferðinni en það truflaði þá að þeir fundu hvergi neina gíga. Loftsteinar skilja yfirleitt eftir sig gíga ef þeir rekast á plánetur eins og sjá má tunglinu sem er alsett holum ("gígum") eftir að loftsteinar hafa rekist á það. Atburðirnir í Tunguska eru því enn nokkuð dularfullir.

Sérfræðingar geta því aðeins getið sér til um það hvers konar sprenging hér hafi verið á ferðinni. Líklegast er talið að loftsteinn eða hluti af halastjörnu hafi komist inn í gufuhvolf jarðar. Á leið sinni til jarðar hefur loftsteinninn hitnað mikið eins og aðrir loftsteinar vegna núningsins sem myndast þegar hann kemur inn í gufuhvolfið. Þessi ógnarhiti varð til þess að loftsteinninn hefur brotnað eða sprungið í bita. Í sprengingunni hafa myndast þrýstibylgjur á yfirborði jarðar en loftsteinninn hefur orðið að möl sem rigndi yfir svæðið og dreifðist með vindum. Af þessum ástæðum mynduðust ekki gígar og gasið sem myndaðist við sprenginguna lýsti upp himininn lengi á eftir.



Ólíklegra er talið að um halastjörnu hafi verið að ræða því þær eru yfirleitt úr ís og hitinn sem myndast þegar halastjarna kemur inn gufuhvolfið hefði sennilegast brætt hana og hún hreinlega gufað upp.

Talið er að loftsteinninn hafi verið á bilinu 100.000 til 1.000.000 tonna þungur og að hann hafi ferðast um gufuhvolfið á um 100.000 kílómetra hraða á klukkustund. Reiknað hefur verið út að 60 metra breiður loftsteinn sem fellur að jörðu með 45° aðfallshorni mundi springa um 6,5 kílómetra frá yfirborði jarðar.

Sérfræðingar halda að sprengingin hafi jafnast á við 15 megatonna kjarnorkusprengingu en það er þúsund sinnum öflugri sprenging en þegar Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á Hiroshima í Japan árið 1945.

Stjörnufræðingar hafa fundið fleiri hundruð loftsteina og halastjörnur sem eru á braut nálægt jörðu. Í versta falli myndi stór hluti af lífinu á jörðinni þurrkast út ef þeir rækjust á jörðina. Talið er að risaeðlur hafi horfið fyrir 65 milljónum ára, meðal annars vegna þess að loftsteinn hafi rekist á jörðina. Við sprenginguna sem verður við áreksturinn þyrlast ryk og gas upp í gufuhvolf jarðar og getur skyggt á sólina í fleiri mánuði og jafnvel ár. Þá verður dimmt og kalt á jörðinni og plöntur og dýr deyja. Að meðaltali rekst loftsteinn á jörðina á 300.000 ára fresti.

Heimild

Britannica Online

Myndin úr skóginum fengum við af vefsetrinu Tunguska homepage. Skýringamyndina fundum við á sama vefsetri enn á eftirfarandi slóð.

...