Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hversu mikið vissu Íslendingar um eldgos og eldfjöll á árum áður? Höfðu þeir skilning á því hvað væri að eiga sér stað? Þá á ég til dæmis um næstu árhundruð eftir landnám.
Í Landnámabók, sem tekin var saman af fróðum mönnum upp úr 1100, má finna 14 atriði sem fjalla um náttúruviðburði tengda landnáminu og landnámsmönnum.[1] Meðal þessara atburða eru jökulhlaup og tvö eldgos, og því eru atburðirnir nefndir í ritinu að þeir snerta landnámið beint – hvorki hér né annars staðar í fornum ritum Íslendinga er náttúran annað en umgjörð mannlegra örlaga. Jökulhlaupið braust fram undan Sólheimajökli einhvern tíma á landnámsöld en Þrasi í Skógum og Loðmundur á Sólheimum veittu því hvor á annan með fjölkynngi – „í þeim vatnagangi varð Sólheimasandur.“ Eldgosin tvö, sem vísað er til, mynduðu Rauðhálsahraun í Hítardal snemma á landnámsöld[2] og Eldgjárhraunið mikla í Vestur-Skaftafellssýslu árið 939.[3] Lýsingin á hinu fyrrnefnda er þjóðsagnakennd: maður, mikill og illilegur, sást róa í járnnökkva utan í Kaldárós, ganga upp að bænum Hripi og grafa í stöðulshliði; „en um nóttina kom þar upp jarðeldur, og brann þá Borgarhraun.“
Þessar sögur gerast þegar Íslendingar voru flestir heiðnir, Loðmundur hafði fylgt öndvegissúlum sínum, og þar með ráði einhvers goðanna, að landnámi við Fúlalæk (nú Jökulsá), Þrasi og Loðmundur voru báðir ramm-göldróttir, og einhvers konar fordæðuskapur kveikti jarðeldinn í Hítardal. Af goðafræðinni mætti ætla að nánast hvað eina í náttúrunni yrði rakið til atburða í goðheimum – fyrst þegar náttúruvísindum óx fiskur um hrygg fengu menn hugmynd um náttúrulögmálin, það að náttúra og mannlíf fylgja vissum lögum.[4] Í norrænni goðafræði eru sjávarföllin (flóð og fjara) til dæmis skýrð með kappdrykkju Þórs hjá Ásgarða-Loka, og jarðskjálftar með kippum Loka Laufeyjarsonar sem hlaut það straff fyrir að valda bana Baldurs að liggja til eilífðar bundinn undir eiturdropandi snáki.
Eldvirkni var gjarnan tengd goðum, hjá Grikkjum var Hefaistos guð elds og eldfjalla, hjá Rómverjum gegndi goðið Vúlkan verkefnum Hefaistosar en í norrænni goðafræði var það jötunninn Surtur sem réð yfir eldi jarðar. Mynd frá eldgosinu í Holuhrauni.
Sennilega veit enginn hvort heiðnir menn tóku þessa heimsmynd goðafræðinnar bókstaflega – enn trúir fólk á meyjarfæðingu, áheit og persónulegan mátt bænarinnar – eða hvort litið var á goðafræðina sem táknsögu (allegóríu) frá huldum heimi. Snorri Sturluson, kristinn og hámenntaður, segir þessar sögur í gamansömum stíl í Gylfaginningu Snorra-Eddu snemma á 13. öld og jafnvel er umdeilt hvort hann hafði þær eftir eldri mönnum eða samdi þær að einhverju leyti sjálfur af lærdómi sínum. Til hins síðarnefnda gæti bent dæmið um Loka sem á sér samstæðu í grískri goðafræði: Grísku goðin áttu í erjum við jötuninn Tífon sem endaði með því að Seifi tókst að grafa hann um alla tíð undir fjallinu Etnu á Sikiley þar sem umbrot Tífons við að losa sig valda jarðskjálftum og eldgosum. Með Grikkjum var Hefaistos guð elds og eldfjalla, málmbræðsluofna og málsmíða — meginsmiðja hans var á eða undir Ólympstindi en kýklópar á hans vegum höfðu smiðju undir sérhverju eldfjalli. Póseidon sá hins vegar um jarðskjálfta og um hafið — þegar hann reiddist og rak niður þrífork sinn skalf jörðin. Með Rómverjum gegndi goðið Vúlkan verkefnum Hefaistosar en í norrænni goðafræði var það jötunninn Surtur sem réð yfir eldi jarðar — hans er getið í ýmsum íslenskum ritum, ekki síst í Völuspá þar sem hann fer eldi um jörðina í Ragnarökum. Fræðimenn greinir á um það hvort Surtur sé sam-germanskur eða að Íslendingar hafi skapað hann eftir að hafa kynnst eldgosum.
Til forna þekktu menn varla annan eldsmat en trjávið og skyld efni, og hafi eldgos leitt huga manna umfram kenjar guðanna og galdra, hlaut sú spurning að vakna hver eldsmatur jarðeldsins væri. Þeirri spurningu varð raunar ekki svarað – né þeirri hvernig sólin getur geislað ljósi og hita um eilífð – fyrr en með uppgötvun kjarnorku kringum 1900. Athyglisvert í því viðfangi er orðalagið „brann þá Borgarhraun“ í Hítardal því lengi eymdi eftir af þeirri trú að jarðeldar brenni bergið sem fyrir var en ekki að hraunkvika komi upp úr jörðinni og storkni síðan. Þessu valdi grunnstæðir hitagjafar undir yfirborðinu, auk þess sem eldingar geti kveikt í grjóti og komið jarðeldi af stað. Í bók frá efri hluta 12. aldar segir Gerald de Barry (f. 1146), og hefur sennilega eftir einhverjum Íslendingum sem á þessum tíma sóttu nám í Bretlandi og Frakklandi, að á hverju ári eða annað hvert ár brjótist upp eldur einhvers staðar á eynni; gjósi þá upp ofsastormur, eins og hvirfilvindur, og brenni til grunna hvað sem fyrir verði. „Eigi vita menn með vissu hvort uppruni eða orsök þessa elds kemur að ofan eða neðan.“ Eldingar segir hann þó sjaldgæfar á Íslandi, og aldrei slái þeim niður.[5]
Tæpum sex öldum síðar, sumrin 1752-57, fóru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson í rannsóknaferðir um Ísland á vegum danska Vísindafélagsins. Áður (1749) hafði Eggert birt skólaritgerð við Hafnarháskóla um myndun Íslands; þar lýsir hann þeirri hugmynd sinni að landið hafi hlaðist upp af eldi á hafsbotni, fyrst sem dreifðar eyjar, sem síðan hafi sameinast í eitt land í frekari eldgosum[6] – mynd sem segja má að hafi verið við lýði nánast fram á miðja 20. öld. Í víðfrægri Ferðabók Eggerts og Bjarna[7] 1772 lætur Eggert hins vegar sinnar tíðar bókvit ráða hugmyndum sínum um eldgos: að jarðeldur bræði berg sem fyrir var. Hann gerði sér grein fyrir því fyrstur manna að grágrýtið kringum Reykjavík og blágrýtið til dæmis í Skarðsheiði sé storkuberg en kallar það brunninn sandstein. Hraunreipi og aðrar slíkar óreglur á yfirborði hrauna segir hann stafa af stormum sem gárað hafi yfirborðið meðan bergið var bráðið, og að mismunandi litur hrauna, til dæmis í Borgarfirði og Mýrasýslu sé afleiðing af ólíkri efnasamsetningu bergsins sem bráðnaði í eldinum. Við boranir í Krýsuvík og víðar sannfærðust þeir félagar um það að jarðeldur stafi af efnahvörfum ofarlega í jarðveginum. Í 32 feta djúpri borholu í Krýsuvík var hitinn hæstur í blágráu leirlagi á 13 feta dýpi en lækkaði þegar neðar dró.
Lengi eymdi eftir af þeirri trú að jarðeldar brenni bergið sem fyrir var en ekki að hraunkvika komi upp úr jörðinni og storkni síðan. Mynd frá eldgosinu í Fagradalsfjalli.
Skaftáreldar brutust út 1783. Í Eldriti sínu[8] segir prófasturinn sr. Jón Steingrímsson að Guð hafi beinlínis komið jarðeldunum af stað til að refsa Skaftfellingum fyrir syndsamlegt athæfi sitt. En seinna varð Guð vel við þegar Jón bað hann í frægri „eldmessu“ sinni að stöðva framrás hraunsins við Kirkjubæjarklaustur. Og sama reyndu geistlegir í Heimaey 1973 þegar leitað var, án árangurs, til sama aðila um að stöðva eldgosið. En trúmaðurinn Jón var líka raunhyggjumaður með afbrigðum, sem meðal annars kom fram í sýnitilraun sem hann gerði: Þegar upp kom í sókninni ótti um það að hraunelfan myndi bræða sig gegnum móbergsfjöllin ofan við byggðina og steypast yfir hana, fleygði sr. Jón móbergssteini í glóandi hraunið að mörgu fólki aðsjáandi – og sjá, steinninn bráðnaði ekki!
Á 4. öld f.Kr. var uppi í Grikklandi Aristóteles sá sem nefndur hefur verið „fyrsti vísindamaðurinn“, enda sætti hann sig ekki við goðfræðilegar skýringar á náttúrufyrirbærum. Hann var afkastamikill rithöfundur sem skoðaði, lýsti og túlkaði hin margvíslegustu fyrirbæri náttúrunnar – illu heilli reyndust túlkanir hans iðulega litlu betri en þær goðfræðilegu. Rit Aristótelesar bárust loks með Márum til Spánar á 8. öld og áfram þaðan til lærdómssetra í nálægum löndum. Með tímanum tók kaþólska kirkjan kenningar hans upp á sína arma og gerði að stórasannleik. Þótt „upplýsingin“ í Evrópu kvæði niður ýmsar hugmyndir Aristótelesar eymdi þó af þeim lengi – meðal annars skýrði hann jarðskjálfta með vindstormum í holrýmum neðanjarðar. Þaðan eru vafalaust komnar hugmyndir Eggerts Ólafssonar um neðanjarðargöng milli eldfjalla, og milli jökla og sjávar, sem ganga aftur í sögu Jules Verne (1864) Voyage au centre de la Terre (Ferðin að miðju jarðar) þar sem prófessor Lidenbrock fer við þriðja mann niður um gíg Snæfellsjökuls og kemur aftur upp eftir langa ferð um gíg Strombólí á Ítalíu.
Í stuttu máli: Sennilega vissu Íslendingar lítið sem ekkert um eldgos frekar en um aðrar kenjar náttúrunnar svo sem skriðuföll, óviðri eða þokur – hvaðan eða af hvers konar völdum fyrirbærin urðu. Sumt mátti kannski rekja til goðheima og sumt mátti vekja eða hafa áhrif á með göldrum. Fyrstu tvær aldirnar eftir kristnitöku sóttu biskups- og prestsefni, sem flestir voru höfðingjasynir, menntun til lærdómssetra í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi auk þess sem Íslendingar voru mjög á ferðum erlendis. Þessir skólar kenndu hefðarspeki þeirra tíma en jafnframt hafa Íslendingar flutt sögur frá furðum heimalandsins sem svo rötuðu inn í ýmis rit. Fljótlega voru stofnaðir skólar á Íslandi, í Skálholti, Odda, Haukadal og á Hólum, þar sem fræði voru stunduð – þó ekki náttúruvísindi – sem og í sumum klaustrum. Snorri Sturluson sjálfur ólst upp í Odda til tvítugt og varð meðal lærðustu manna. Kannski fyrir áhrif Aristótelesar, og síðar gagnrýnan hugsunarhátt „upplýsingarinnar“ tóku náttúruvísindin að þróast. Þar rak jarðfræðin lestina að ýmsu leyti og þrátt fyrir sérstakan áhuga Eggerts Ólafssonar á jarðfræði er hún veikasti hluti Ferðabókarinnar.
Tilvísanir:
^ Sigurður Þórarinsson 1977. Jarðvísindi og Landnáma, bls. 665–675. Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni 20. júlí 1977. Ritstj. Einar G. Pétursson og Jónas Kristjánsson. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 1977.
^ Þorvaldur Thoroddsen 1892-96. Landfræðissaga Íslands I, bls. 35.
^ Þorvaldur Thoroddsen 1892-96. Landfræðissaga Íslands I, bls. 64.
^ Steindór Steindórsson 1974. Formáli. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757, Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík, 1978:xiii–xxxii.
^ Eggert Ólafsson 1772. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi 1752–1757. Steindór Steindórsson íslenskaði 1942. 3. útg. 1978. Bókaútg. Örn og Örlygur, Reykjavík 1978.
^ Jón Steingrímsson. „Fullkomið skrif um Síðueld“. Handrit 1788, prentað í Safni til sögu Íslands 1907; Ævisagan og önnur rit, Helgafell 1973.
Sigurður Steinþórsson. „Hvaða þekkingu höfðu íslenskir miðaldamenn á eldgosum og eldfjöllum?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2022, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77581.
Sigurður Steinþórsson. (2022, 22. júní). Hvaða þekkingu höfðu íslenskir miðaldamenn á eldgosum og eldfjöllum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77581
Sigurður Steinþórsson. „Hvaða þekkingu höfðu íslenskir miðaldamenn á eldgosum og eldfjöllum?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2022. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77581>.