Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fornleifar sýna að Ísland var fyrst byggt fólki á síðari hluta 9. aldar og á 10. öld. Víðs vegar um nánast alla þá hluta landsins sem töldust byggilegir á síðari öldum skildi fólk eftir sig byggingar og annað jarðrask á þessu tímabili. Nokkur ólík ráð eru til að tímasetja fornleifarnar, en nýtilegast til þess er svokallað landnámslag, öskulag sem hefur komið úr eldgosi á miðhálendi landsins og lagst yfir mikinn hluta þess. Það hefur verið tímasett nákvæmlega í árlögum Grænlandsjökuls og reynist vera frá því mjög nálægt 870, líklega frá 869-73. Aðeins á einum stað eða tveimur, í Reykjavík og Vestmannaeyjum, hafa fundist mannvistarleifar fyrir neðan þetta lag, en víðs vegar um landið hefur fólk tekið að byggja, rækta land og brenna skóg á áratugunum á eftir.
Helgi magri og Þórunn hyrna. Helgi magri er einn þeirra fimm landnámsmanna sem Ari fróði nafngreinir í Íslendingabók.
Því er þetta tekið fram hér að ekki er vitað til að fólk hafi farið að skrifa frásagnir af landnáminu fyrr en um það bil tveimur öldum eftir að landnámstímanum lauk, á fyrri hluta 12. aldar. Margt af elsta fólkinu sem þá var til frásagnar hefur átt afa og ömmur sem sjálf höfðu landnámskynslóðina af öfum og ömmum. Ekki fer hjá því að hugsanlega hafi slíkar sögur verið spunnar upp eftir þörfum þegar menn tóku að skrá samfelldar frásagnir af landnámi. Hugsum okkur til dæmis að safnandi landnámsfróðleiks hafi hitt mann úr Dýrafirði á Alþingi og spurt hann hver hafi verið landnámsmaður í firði hans. Ef Dýrfirðingurinn vissi ekkert um það en fannst leiðinlegt að standa á gati var einfaldast fyrir hann að segja: „Hann hér Dýri.“ Í Landnámabók hefur svo verið spunnið svolítið utan um þennan fróðleik:
Dýri hét maðr ágætr; hann fór af Sunnmæri til Íslands at ráði Rögnvalds jarls, en fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Dýri nam Dýrafjörð ok bjó at Hálsum. Hans son var Hrafn á Ketilseyri …
Þess hefur verið getið til að nafnið Dýrafjörður hafi upphaflega verið Durafjörður, kenndur við dyr sem myndast á milli fjalla á báðar hliðar þegar siglt er inn fjörðinn. En auðvitað er ekki útilokað heldur að fólk hafi varðveitt mann fram af manni sannar sögur af landnámsfólki. Landnámssögur eru misjafnlega trúlegar, en sjaldan er nokkur örugg leið til að greina í sundur sannleik og skáldskap í þeim. Allt sem hér er sagt um landnámsmenn er því sagt með fyrirvara um sannleiksgildi.
Tvö ritverk birta einkum markverðan fróðleik um landnám Íslands. Annað er Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, örstutt yfirlit yfir sögu landsmanna fram á daga hans sjálfs, skrifað um 1130. Hitt er Landnámabók sem mun upphaflega hafa verið skrifuð um svipað leyti og Íslendingabók en er nú aðeins varðveitt í yngri gerðum og víða mjög auknum af yngri og líklega enn ótraustari fróðleik.
Ari fróði nafngreinir fimm landnámsmenn. Þar sem hann segir frá upphafi landnáms segir hann:
Ingolfr hér maðr nórrænn, es sannliga es sagt at færi fyrst þaðan [þ.e. frá Noregi] til Íslands … hann byggði suðr í Reykjarvík. Þar er Ingólfshöfði kallaðr fyr austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingolfsfell fyr vestan Ölfossá, es hann lagði sína eigu á síðan.
Svo nefnir Ari einn landnámsmann í hverjum landsfjórðungi: Hrollaug Rögnvaldsson Mærajarls austur á Síðu, Ketilbjörn Ketilsson gamla á Mosfelli í Grímsnesi, Auði Ketilsdóttur flatnefs í Breiðafirði og Helga magra Eyvindarson í Eyjafirði. Allt kemur þetta heim við Landnámabók. Þar eru auk þess nefnd landnámsmörk þessara manna og reynast þeir allir hafa numið stór landsvæði en síðan gefið öðrum af þeim. Ingólfur nam allt suðvesturhorn landsins frá Brynjudal í Hvalfirði til Ölfusár. Hrollaugur nam Hornafjörð og Suðursveit. Ketilbjörn nam efri hluta Grímsness, Laugardal og Ytri tungu Biskupstungna upp undir Haukadal. Auður djúpúðga nam Dali sunnanverða og Fellsströnd. Helgi magri nam Eyjafjörð milli ystu útnesja.
Ingólfur Arnarson tekur sér búsetu á Íslandi. Málverk eftir Johan Peter Raadsig (1806-1882) frá 1850.
Í Landnámabók eru landnám rakin umhverfis landið frá bústað Ingólfs í Reykjavík, vestur, norður, austur, suður og vestur uns kemur að Reykjavík aftur. Ef taldir eru með þeir sem þágu land af upphaflegum landnámsmönnum munu þar nafngreindir um 430 landnámsmenn, þar af 14 konur. Auk þess eru eiginkonur landnámskarlmanna stundum nafngreindar, en þá getur verið vafamál hvort þær námu land með körlum sínum eða giftust þeim síðar. Svo er til dæmis um fyrstu húsfreyju í Reykjavík, Hallveigu Fróðadóttur.
Sagt er frá nokkrum stórum landnámum í Landnámabók, öðrum en þeim sem Ari nefnir í Íslendingabók. Skalla-Grímur Kveldúlfsson á Borg nam mestan hluta Borgarfjarðarhéraðs. Ketill hængur Þorkelsson nam Rangárþing milli Þjórsár og Markarfljóts. Báðir skiptu þeir landnámum sínum síðan upp á milli fylgdarmanna sinna og annarra.
„Ísland byggðisk fyrst ýr Norvegi …“ segir Ari fróði, og Landnámabók staðfestir að þaðan hafi flestir landnámsmenn komið, flestir af vesturströndinni en aðeins örfáir úr héruðunum austanfjalls. Sex landnámsmenn eru taldir sænskir eða gauskir og einn danskur. Tungumál landsmanna ber líka vitni um að þeir séu af norskum uppruna. En um marga landnámsmenn segir í Landnámabók að þeir hafi komið frá Bretlandseyjum, frá Suðureyjum, Skotlandi, Írlandi og víðar að. Sumir þessara manna voru af breskum, keltneskum uppruna, en þarna höfðu líka sprottið upp norrænar byggðir á víkingaöld sem heimamenn lögðu stundum undir sig, og gat þá verið hentugt fyrir víkinga að hafa lítt eða óbyggt land að flýja til.
Mikið hefur verið reynt að finna út með mannfræðilegum rannsóknum hverjum Íslendingar séu skyldastir, og benda nýjustu erfðafræðirannsóknir til þess að yfirgnæfandi meirihluti íslenskra karla sé skyldastur Norðurlandabúum en færri Bretum, nokkur meirihluti kvenna sé hins vegar af sama uppruna og konur á Bretlandseyjum. Það kemur allvel heim við sögur sem segja að ungir karlmenn hafi farið í víking frá Noregi, sest að um tíma á Bretlandseyjum og tekið með sér þarlendar konur til Íslands, nauðugar eða viljugar.
Heimildir og myndir:
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hverjir voru helstu landnámsmenn Íslands og hvaðan komu þeir?“ Vísindavefurinn, 16. október 2012, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61015.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2012, 16. október). Hverjir voru helstu landnámsmenn Íslands og hvaðan komu þeir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61015
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hverjir voru helstu landnámsmenn Íslands og hvaðan komu þeir?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2012. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61015>.