Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?

Orri Vésteinsson

Aðeins er hægt að tímasetja hluti sem bera læsilegar áletranir, nema eitthvað annað sé vitað um þá. Fyrir iðnbyltingu eru það einkum legsteinar og mynt sem bera áletranir. Tímasetningar slíkra áletrana eru sjaldnast ákveðin ártöl heldur til dæmis veldistími konunga eða annars konar tilvísanir í fólk eða atburði sem ritheimildir eru til um.

Áletranir eru mikilvægar en þær finnast aðeins á örlitlu brotabroti allra fornleifa og því hefur þurft að þróa sérstakar aðferðir til að aldursgreina fornleifar. Engin ein aðferð er til sem hægt er að beita á öll efni eða hluti undir öllum kringumstæðum heldur nota fornleifafræðingar yfirleitt margar aðferðir saman til að komast að niðurstöðu um aldur minjanna sem þeir rannsaka.

Þessar aðferðir má flokka í tvennt: annars vegar eru afstæðar tímasetningaraðferðir sem geta greint hvort tilteknar fornleifar eru eldri eða yngri en aðrar en ekki endilega hversu gamlar, og hins vegar algildar aðferðir sem gefa raunaldur hlutanna. Í fljótu bragði mætti ætla að síðarnefndu aðferðirnar væru augljóslega betri en þær eru ýmsum takmörkunum háðar og því liggja afstæðu aðferðirnar að mörgu leyti til grundvallar.

Afstæðar tímasetningaraðferðir

Það var danski fornleifafræðingurinn Christian Thomsen (1788-1865) sem lagði grundvöllinn að flokkun fornleifa eftir aldri á fyrri hluta 19. aldar. Þá setti hann fram svokallaða þriggja alda kenningu. Hann hafði tekið eftir því að úr elstu jarðlögum komu eingöngu áhöld og gripir úr steini, en úr yngri lögum kæmu líka hlutir úr bronsi og úr enn yngri lögum gripir úr steini, bronsi og járni. Kenning hans var því sú að fyrst hefði verið steinöld, síðan bronsöld og síðast járnöld.



Bronsílát frá seinni hluta bronsaldar.

Þessi kenning liggur enn til grundvallar tímabilaskiptingu forsögunnar í Evrópu og Vestur Asíu en hún er fyrst og fremst mikilvæg fyrir það að með henni er hægt að raða hlutum í aldursröð eftir efni þeirra og fundarsamhengi. Elstu leirker finnast til dæmis iðulega í sömu lögum og pússuð steináhöld sem eru ólík slegnum steináhöldum í enn eldri lögum. Á þessari athugun byggir skipting steinaldarinnar í fornsteinöld og nýsteinöld og frá dögum Thomsens hafa fornleifafræðingar unnið sleitulaust að því að greina slík samhengi og skipta “öldunum” niður í æ styttri tímabil.

Þó að grófa flokkunin haldi fyrir heilar heimsálfur geta styttri tímabilin verið ólík frá einu landi eða svæði til annars en það helgast af því að skilgreining þeirra byggir á atriðum eins og tísku sem er oft staðbundin. Því má segja að efnin (steinn, kopar, brons, járn, en líka gler, stál, silki og gúmmí) gefi grófa rammann en tæknin (bæði aðferðir við að búa til hluti, til dæmis málmsteypa og postulínsgerð, og við að nýta þá, til dæmis plæging og tedrykkja) og tískan hjálpa til við að tímasetja með meiri nákvæmni. Tíska er lykilatriði í þessu, því að margir hlutir (einkum skartgripir og allskonar skreyti og munstur) geta breyst hratt og því meiri sem breytileikinn er þeim mun styttri eru tímabilin og þeim mun nákvæmar hægt að tímasetja. Það eru ekki bara manngerðir gripir sem fornleifafræðingar líta til í þessu samhengi heldur líka atriði eins og villt dýr í umhverfi bólstaða, hvaða jurtir eru ræktaðar, húsdýrahald og margskonar aðrar vísbendingar um líf og störf mannanna sem taka breytingum með tímanum.

Allt þetta byggir á því einfalda en mikilvæga lögmáli að afstaða jarðlaga og mannvistarlaga segir til um aldur þeirra: lagið sem er undir er eldra en það sem er ofan á. Ef gripasafn úr eldra lagi er til dæmis með ákveðna tegund af leirkerjum en það yngra ekki þá getur verið að sú tegund hafi fallið úr tísku, og ef sú breyting sést á mörgum stöðum má hafa þá breytingu sem aldursviðmiðun. Hún segir okkur hinsvegar ekki hvenær þessi leirker hættu að vera í tísku.

Fram um miðja 20. öld áttu fornleifafræðingar í erfiðleikum með að tengja tímabilin sín við rauntíma. Eina aðferðin var að nota gripi með áletrunum sem hægt var að tengja við sögulega atburði og einstaklinga en sú aðferð kemur aðeins að gagni eftir að ritmál var fundið upp, fyrir um 5000 árum síðan í gamla heiminum, en allt sem var eldra en það var erfitt eða ómögulegt að tengja við rauntíma. Þetta breyttist eftir 1950 með tilkomu aldursgreiningar með geislakoli en hún hefur valdið byltingu í tímasetningum í fornleifafræði.

Algildar tímasetningaraðferðir

Áletrun getur gefið algilda tímasetningu, til dæmis má yfirleitt treysta því að mynt með nafni kalífa eða konungs sé frá veldistíma hans, en sú tímasetning segir bara til um aldur myntarinnar. Aðrir gripir sem finnast í sama lagi geta ekki hafa lent þar fyrr en eftir að myntin var slegin, en þeir geta annaðhvort verið eldri en hún (það er þeir voru gamlir þegar þeir lentu í laginu) eða miklu yngri (myntin var gömul þegar hún lenti í laginu).



Rómversk mynt.

Sú algilda tímasetningaraðferð sem mest áhrif hefur haft og mestu máli skiptir í fornleifafræði nútímans er hins vegar geislakolsaldursgreining, líka þekkt sem kolefnisaldursgreining eða C14. Þessi aðferð byggist á því að þrjár samsætur kolefnis (C) eru í andrúmsloftinu og hlutfallið á milli þeirra er stöðugt. Sama hlutfall er svo í öllum lífverum. Ein af þessum samsætum, C14, er geislavirk sem þýðir að hún er óstöðug og breytist í stöðugu samsætuna N14. Það sem skiptir máli fyrir tímasetningar er að geislavirk efni eyðast með stöðugum og ákveðnum helmingunartíma sem er hægt að ákvarða með mælingum í rannsóknastofu.

Helmingunartími C14 er 5730 ár og með þessu má aldursgreina allar lífrænar leifar aftur til um 40.000 ára. Fara má nærri um raunaldur jarðlags með því að tímasetja hluti eins og fræ og dýrabein sem sjaldnast eru meira en nokkurra ára þegar þau lenda undir torfu, en aðalkosturinn við þessa aðferð er að hún er sjálfstæð, óháð bæði ritheimildum og flokkunarkerfum forngripa; og að henni má beita á öll lífræn efni, meðal annars þau sem lent hafa í eldi og kolast en kolaðar leifar geta varðveist þar sem varðveisluskilyrði eru að öðru leyti slæm fyrir lífrænar leifar.

Með þessu er ekki allur vandi leystur; ýmis vandamál eru við meðferð og túlkun geislakolsaldursgreininga, og aðferðin nær ekki til eldra skeiðs fornsteinaldar, langlengsta tímabils mannkynssögunnar (nærri 2 milljónir ára). Aðrar aðferðir sem einnig byggjast á stöðugri eyðingu geislavirkra efna (til dæmis úrans og kalín-argons) eru þó til og má nota þær á eldri hluti, fyrst og fremst berg.

Margar aðrar aðferðir eru til en þær eiga allar sammerkt að vera annað hvort staðbundnar (eins og gjóskulagatímatalið sem íslenskir fornleifafræðingar styðjast mikið við) eða að aðeins er hægt að beita þeim á sérstök efni. Þar á meðal er trjáhringaaldursgreining sem er nákvæmasta tímasetningaraðferð sem til er en henni er aðeins hægt að beita á sæmilega stóra búta úr tilteknum trjátegundum (til dæmis eik en ekki birki, enn sem komið er að minnsta kosti).

Þegar fornleifafræðingur stendur frammi fyrir því að tímasetja fornleifar byrjar hann yfirleitt á því að reyna að staðsetja sig gróflega í tíma út frá efnum og gerð gripanna. Hér á Íslandi myndum við til dæmis næsta hiklaust telja að safn sem innihéldi svínabein, glerperlur og kléberg væri frá víkingaöld en að safn með leirkerjum og glerbrotum væri frá 17. öld eða yngra, og það þó að söfnin væru að uppistöðu hlutir úr járni og steini sem væru í aðalatriðum eins í báðum. Til þess að fá nákvæmari tímasetningu myndum við svo líta til gjóskulaga, en það getur verið háð aðstæðum hvort til staðar eru gjóskulög sem hægt er að nota sem tímatalsviðmið. Jafnframt myndum við láta gera geislakolsaldursgreiningar á völdum hlutum. Í öðrum löndum er samsetning aðferðanna oftast önnur en alls staðar á það við að efni og gerð hlutanna gefa rammann, en síðan beita menn öðrum aðferðum eftir efnum og aðstæðum, og oftast er geislakolsaldursgreining þar á meðal.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Colin Renfrew & Paul Bahn 2004, Archaeology. Theories, Method and Practice, 4. útg, London: Thams&Hudson, einkum bls. 121-74.
  • Um aldursgreiningaraðferðir sem notaðar eru í íslenskri fornleifafræði má lesa í: Guðrún Ása Grímsdóttir ritstj. 1997, Um landnám á Íslandi. Fjórtán erindi. Ráðstefnurit, Reykjavík.
  • Mynd af bronsíláti: Bronze Age á Wikipedia. Höfundur myndar: Kozuch. Birt undir Creative Commons Attribution ShareAlike 3.0 leyfi. Sótt 23. 12. 2009.
  • Mynd af mynt: Interactive Ancient History. Sótt 23. 12. 2009.

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

4.1.2010

Spyrjandi

Úlfhildur Örnólfsdóttir, Guðrún Lilja Sigurðardóttir, Lárus Jóhannesson

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?“ Vísindavefurinn, 4. janúar 2010, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=50983.

Orri Vésteinsson. (2010, 4. janúar). Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=50983

Orri Vésteinsson. „Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?“ Vísindavefurinn. 4. jan. 2010. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=50983>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?
Aðeins er hægt að tímasetja hluti sem bera læsilegar áletranir, nema eitthvað annað sé vitað um þá. Fyrir iðnbyltingu eru það einkum legsteinar og mynt sem bera áletranir. Tímasetningar slíkra áletrana eru sjaldnast ákveðin ártöl heldur til dæmis veldistími konunga eða annars konar tilvísanir í fólk eða atburði sem ritheimildir eru til um.

Áletranir eru mikilvægar en þær finnast aðeins á örlitlu brotabroti allra fornleifa og því hefur þurft að þróa sérstakar aðferðir til að aldursgreina fornleifar. Engin ein aðferð er til sem hægt er að beita á öll efni eða hluti undir öllum kringumstæðum heldur nota fornleifafræðingar yfirleitt margar aðferðir saman til að komast að niðurstöðu um aldur minjanna sem þeir rannsaka.

Þessar aðferðir má flokka í tvennt: annars vegar eru afstæðar tímasetningaraðferðir sem geta greint hvort tilteknar fornleifar eru eldri eða yngri en aðrar en ekki endilega hversu gamlar, og hins vegar algildar aðferðir sem gefa raunaldur hlutanna. Í fljótu bragði mætti ætla að síðarnefndu aðferðirnar væru augljóslega betri en þær eru ýmsum takmörkunum háðar og því liggja afstæðu aðferðirnar að mörgu leyti til grundvallar.

Afstæðar tímasetningaraðferðir

Það var danski fornleifafræðingurinn Christian Thomsen (1788-1865) sem lagði grundvöllinn að flokkun fornleifa eftir aldri á fyrri hluta 19. aldar. Þá setti hann fram svokallaða þriggja alda kenningu. Hann hafði tekið eftir því að úr elstu jarðlögum komu eingöngu áhöld og gripir úr steini, en úr yngri lögum kæmu líka hlutir úr bronsi og úr enn yngri lögum gripir úr steini, bronsi og járni. Kenning hans var því sú að fyrst hefði verið steinöld, síðan bronsöld og síðast járnöld.



Bronsílát frá seinni hluta bronsaldar.

Þessi kenning liggur enn til grundvallar tímabilaskiptingu forsögunnar í Evrópu og Vestur Asíu en hún er fyrst og fremst mikilvæg fyrir það að með henni er hægt að raða hlutum í aldursröð eftir efni þeirra og fundarsamhengi. Elstu leirker finnast til dæmis iðulega í sömu lögum og pússuð steináhöld sem eru ólík slegnum steináhöldum í enn eldri lögum. Á þessari athugun byggir skipting steinaldarinnar í fornsteinöld og nýsteinöld og frá dögum Thomsens hafa fornleifafræðingar unnið sleitulaust að því að greina slík samhengi og skipta “öldunum” niður í æ styttri tímabil.

Þó að grófa flokkunin haldi fyrir heilar heimsálfur geta styttri tímabilin verið ólík frá einu landi eða svæði til annars en það helgast af því að skilgreining þeirra byggir á atriðum eins og tísku sem er oft staðbundin. Því má segja að efnin (steinn, kopar, brons, járn, en líka gler, stál, silki og gúmmí) gefi grófa rammann en tæknin (bæði aðferðir við að búa til hluti, til dæmis málmsteypa og postulínsgerð, og við að nýta þá, til dæmis plæging og tedrykkja) og tískan hjálpa til við að tímasetja með meiri nákvæmni. Tíska er lykilatriði í þessu, því að margir hlutir (einkum skartgripir og allskonar skreyti og munstur) geta breyst hratt og því meiri sem breytileikinn er þeim mun styttri eru tímabilin og þeim mun nákvæmar hægt að tímasetja. Það eru ekki bara manngerðir gripir sem fornleifafræðingar líta til í þessu samhengi heldur líka atriði eins og villt dýr í umhverfi bólstaða, hvaða jurtir eru ræktaðar, húsdýrahald og margskonar aðrar vísbendingar um líf og störf mannanna sem taka breytingum með tímanum.

Allt þetta byggir á því einfalda en mikilvæga lögmáli að afstaða jarðlaga og mannvistarlaga segir til um aldur þeirra: lagið sem er undir er eldra en það sem er ofan á. Ef gripasafn úr eldra lagi er til dæmis með ákveðna tegund af leirkerjum en það yngra ekki þá getur verið að sú tegund hafi fallið úr tísku, og ef sú breyting sést á mörgum stöðum má hafa þá breytingu sem aldursviðmiðun. Hún segir okkur hinsvegar ekki hvenær þessi leirker hættu að vera í tísku.

Fram um miðja 20. öld áttu fornleifafræðingar í erfiðleikum með að tengja tímabilin sín við rauntíma. Eina aðferðin var að nota gripi með áletrunum sem hægt var að tengja við sögulega atburði og einstaklinga en sú aðferð kemur aðeins að gagni eftir að ritmál var fundið upp, fyrir um 5000 árum síðan í gamla heiminum, en allt sem var eldra en það var erfitt eða ómögulegt að tengja við rauntíma. Þetta breyttist eftir 1950 með tilkomu aldursgreiningar með geislakoli en hún hefur valdið byltingu í tímasetningum í fornleifafræði.

Algildar tímasetningaraðferðir

Áletrun getur gefið algilda tímasetningu, til dæmis má yfirleitt treysta því að mynt með nafni kalífa eða konungs sé frá veldistíma hans, en sú tímasetning segir bara til um aldur myntarinnar. Aðrir gripir sem finnast í sama lagi geta ekki hafa lent þar fyrr en eftir að myntin var slegin, en þeir geta annaðhvort verið eldri en hún (það er þeir voru gamlir þegar þeir lentu í laginu) eða miklu yngri (myntin var gömul þegar hún lenti í laginu).



Rómversk mynt.

Sú algilda tímasetningaraðferð sem mest áhrif hefur haft og mestu máli skiptir í fornleifafræði nútímans er hins vegar geislakolsaldursgreining, líka þekkt sem kolefnisaldursgreining eða C14. Þessi aðferð byggist á því að þrjár samsætur kolefnis (C) eru í andrúmsloftinu og hlutfallið á milli þeirra er stöðugt. Sama hlutfall er svo í öllum lífverum. Ein af þessum samsætum, C14, er geislavirk sem þýðir að hún er óstöðug og breytist í stöðugu samsætuna N14. Það sem skiptir máli fyrir tímasetningar er að geislavirk efni eyðast með stöðugum og ákveðnum helmingunartíma sem er hægt að ákvarða með mælingum í rannsóknastofu.

Helmingunartími C14 er 5730 ár og með þessu má aldursgreina allar lífrænar leifar aftur til um 40.000 ára. Fara má nærri um raunaldur jarðlags með því að tímasetja hluti eins og fræ og dýrabein sem sjaldnast eru meira en nokkurra ára þegar þau lenda undir torfu, en aðalkosturinn við þessa aðferð er að hún er sjálfstæð, óháð bæði ritheimildum og flokkunarkerfum forngripa; og að henni má beita á öll lífræn efni, meðal annars þau sem lent hafa í eldi og kolast en kolaðar leifar geta varðveist þar sem varðveisluskilyrði eru að öðru leyti slæm fyrir lífrænar leifar.

Með þessu er ekki allur vandi leystur; ýmis vandamál eru við meðferð og túlkun geislakolsaldursgreininga, og aðferðin nær ekki til eldra skeiðs fornsteinaldar, langlengsta tímabils mannkynssögunnar (nærri 2 milljónir ára). Aðrar aðferðir sem einnig byggjast á stöðugri eyðingu geislavirkra efna (til dæmis úrans og kalín-argons) eru þó til og má nota þær á eldri hluti, fyrst og fremst berg.

Margar aðrar aðferðir eru til en þær eiga allar sammerkt að vera annað hvort staðbundnar (eins og gjóskulagatímatalið sem íslenskir fornleifafræðingar styðjast mikið við) eða að aðeins er hægt að beita þeim á sérstök efni. Þar á meðal er trjáhringaaldursgreining sem er nákvæmasta tímasetningaraðferð sem til er en henni er aðeins hægt að beita á sæmilega stóra búta úr tilteknum trjátegundum (til dæmis eik en ekki birki, enn sem komið er að minnsta kosti).

Þegar fornleifafræðingur stendur frammi fyrir því að tímasetja fornleifar byrjar hann yfirleitt á því að reyna að staðsetja sig gróflega í tíma út frá efnum og gerð gripanna. Hér á Íslandi myndum við til dæmis næsta hiklaust telja að safn sem innihéldi svínabein, glerperlur og kléberg væri frá víkingaöld en að safn með leirkerjum og glerbrotum væri frá 17. öld eða yngra, og það þó að söfnin væru að uppistöðu hlutir úr járni og steini sem væru í aðalatriðum eins í báðum. Til þess að fá nákvæmari tímasetningu myndum við svo líta til gjóskulaga, en það getur verið háð aðstæðum hvort til staðar eru gjóskulög sem hægt er að nota sem tímatalsviðmið. Jafnframt myndum við láta gera geislakolsaldursgreiningar á völdum hlutum. Í öðrum löndum er samsetning aðferðanna oftast önnur en alls staðar á það við að efni og gerð hlutanna gefa rammann, en síðan beita menn öðrum aðferðum eftir efnum og aðstæðum, og oftast er geislakolsaldursgreining þar á meðal.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Colin Renfrew & Paul Bahn 2004, Archaeology. Theories, Method and Practice, 4. útg, London: Thams&Hudson, einkum bls. 121-74.
  • Um aldursgreiningaraðferðir sem notaðar eru í íslenskri fornleifafræði má lesa í: Guðrún Ása Grímsdóttir ritstj. 1997, Um landnám á Íslandi. Fjórtán erindi. Ráðstefnurit, Reykjavík.
  • Mynd af bronsíláti: Bronze Age á Wikipedia. Höfundur myndar: Kozuch. Birt undir Creative Commons Attribution ShareAlike 3.0 leyfi. Sótt 23. 12. 2009.
  • Mynd af mynt: Interactive Ancient History. Sótt 23. 12. 2009.
...