Flinders Petrie er einnig minnst fyrir tækni sem hann þróaði við afstæða aldursgreiningu forngripa. Í Diospolis Parva í Efra-Egyptalandi stóð hann frammi fyrir því að aldursgreina gripi úr gröfum þó að engin jarðlagatengsl væru á milli þeirra og þó þeir væru eldri en hið sögulega tímatal sem egypsk fornfræði byggir annars á. Hann tók það til bragðs að setja gripategundirnar úr hverri gröf á blaðræmur sem hann bar síðan saman við hinar grafirnar og raðaði í afstæða tímaröð eftir því hvar líkindi voru mest á milli grafa. Meginniðurstöðurnar sem Flinders Petrie komst að með þessu hafa staðist tímans tönn og verið staðfestar með yngri rannsóknum. Þessi aðferð (e. seriation) var mikilvægur áfangi í þróun gerðfræðinnar og jók mjög á möguleika fornleifafræðinga á að nota gerð gripa til tímasetningar. Hún var mikið notuð á fyrri hluta 20. aldar áður en algildar tímasetningaraðferðir á borð við geislakolsaldursgreiningu komu til sögunnar og heldur enn gildi sínu þó hún þurfi ekki lengur ein að standa undir hugmyndum um aldur hluta. Arfleifð Flinders Petrie er því fyrst og fremst aðferðafræðileg nákvæmni en rannsóknir hans í Egyptalandi halda einnig gildi sínu, ekki síst vegna þess að margir fornleifastaðanna sem hann mældi upp og gróf í hafa síðan látið mjög á sjá, bæði vegna ágangs ferðamanna og rána, og eru rannsóknargögn hans því mikilvægar heimildir um þá. Hugmyndir Flinders Petrie um söguleg ferli úreltust hins vegar fljótt. Hann var strangtrúaður, alinn upp í mótmælendasöfnuðinum Plymouth Brethren (Bræðrasamkoman) og rannsóknarspurningar hans mótuðust mjög af áhuga á að varpa ljósi á frásagnir Gamla testamentisins og setja egypska fornöld í samhengi við þær. Flinders Petrie varð umdeildur fyrir hugmyndir sínar um mannkynbætur og kynþáttahyggja hans, sem birtist meðal annars í því að hann taldi að fornegypsk menning hefði náð að blómstra vegna innrásar kákasískrar herraþjóðar, þykir nú ógeðfelld og fáránleg. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað eru fornleifar? eftir Orra Vésteinsson
- Hvað er það merkilegasta sem fornleifafræðingar hafa fundið? eftir Orra Vésteinsson
- Hvar finn ég upplýsingar á netinu um forngripi eða forngripasöfn? eftir Dagnýju Arnarsdóttur
- Hver var Christian Jürgensen Thomsen og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar? eftir Orra Vésteinsson
- Hver var Kristján Eldjárn og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar? eftir Adolf Friðriksson
- Margaret S. Drower. 1995. Flinders Petrie: A Life in Archaeology, 2. útg. Madison: University of Wisconsin Press.
- Gavin M. Lucas. 2001. Critical Approaches to Fieldwork. Contemporary and Historical Archaeological Practice. London: Routledge, einkum s. 26-32, 78-79.
- Wikipedia.com - Flinders Petrie. Sótt 29.3.2011.
- Mynd af leirkerum er úr safni höfundar.