- Hversu lengi stóð gosið í Lakagígum yfir?
- Hvert fór askan sem kom upp í Skaftáreldum?
Skaftáreldar hófust 8. júní 1783 og stóðu yfir í átta mánuði eða til 7. febrúar 1784. Þeir eru annað stærsta flæðibasaltgos Íslandssögunnar á eftir Eldgjárgosinu 934-940.[1] Meira er vitað um Skaftárelda en nokkurt annað sambærilegt gos, og þá einkum vegna ítarlegra samtímaheimilda sem lýsa því á margvíslegan hátt,[2] en enginn þó betur en Jón Steingrímsson eldklerkur (1728-1791) sem rekur framvindu gossins og áhrif þess á samfélagið í Vestur-Skaftafellsýslu nánast frá degi til dags.[3] Þetta er, að öðrum sambærilegum lýsingum ólöstuðum, ein merkasta goslýsing mannkynssögunnar. Eftirfarandi lýsing á gosinu er byggð á samantekt Þorvalds Þórðarsonar og Stephens Self[4] og Þorvalds Þórðarsonar og fleiri.[5] Vorið 1783 var tíð góð á Suðurlandi, og íbúar hlökkuðu til sumarsins. En náttúruöflin áttu eftir að grípa í taumana á örlagaríkan hátt. Upp úr miðjum maí varð vart við veika jarðskjálfta í Skaftártungu, en styrkur þeirra og tíðni jókst næstu tvær vikurnar. Þann fyrsta júní varð harður skjálfti sem fannst greinilega vestur í Vík í Mýrdal og austur í Öræfi. Í kjölfarið fylgdi samfelld og stöðugt vaxandi skjálftahrina sem náði hámarki 8. júní, þegar gos hófst og kolsvartur mökkur breiddi úr sér suður eftir Síðumannaafrétti og út yfir láglendið. Skaftáreldagosið, sem markar upphaf móðuharðinda – mestu náttúruhamfara Íslandssögunnar, var hafið. Sama dag sáust meira en 1000 metra háir kvikustrókar rísa upp af gossprungunni, sem var rétt austan við mynni Úlfarsdals og teygði sig tvo kílómetra í norðaustur frá Hnútu, lágu felli sem stendur við barma Skaftárgljúfurs, ofarlega á Síðumannaafrétti. Gasútstreymið frá gígnum var slíkt að það dró úr útgeislun sólar og ásýnd hennar varð rauð sem blóð. Úr gosmekkinum ýrði súrt regn sem olli sviða í augum og brenndi skinn manna og dýra. Þann 11. júní hafði svo mikið hraun flætt í Skaftárgljúfur að farvegur Skaftár þornaði upp. Daginn eftir hljóp hraunið svo fram úr gljúfrinu með miklum dynkjum og brestum. Gjóskufall frá gosstöðvunum varð í fjórum hrinum í júní og júlí og jafn oft komu eldhlaup fram úr gljúfrinu. Í lok júlí hægði á hraunrennslinu út úr Skaftárgljúfri, sem þá var orðið barmafullt, en hraunbreiðan teygði sig nú niður í Meðalland og langleiðina austur að Kirkjubæjarklaustri, þakti um 350 ferkílómetra af landi og hafði eytt 17 bæjum. En Lakagígar voru ekki þagnaðir. Þann 29. júlí sáu byggðarmenn mikinn og dimman mökk leggja frá eldstöðvunum, sem olli miklu gjóskufalli á eystri hluta Síðu. Í kjölfarið neyddust margir í Fljótshverfi til að flýja jarðir sínar. Fimm dögum síðar, þann 3. ágúst, þornaði Hverfisfljót, og skömmu seinna braust hraunrennslið fram úr Hverfisfljótsgljúfri og stefndi vestur með Þverárfjalli, rétt eins og markmiðið væri að afgirða Síðu. Gjóska féll nokkrum sinnum yfir eldsveitirnar fram á haust, og hraun rann fram úr Hverfisfljótsgljúfri til októberloka 1783. Austurtunga Skaftáreldahrauns bætti 250 ferkílómetrum við hraunbreiðuna og eyddi fjórum bæjum. Gosinu lauk sjöunda febrúar 1784.
- ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
^Guðrúnu Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland. Journal of Quaternary Science, 16, 199-132.
^Thordarson, T. og fleiri, 2001. New estimates of sulfur degassing and atmospheric massloading by the 934 Eldgjá eruption, Iceland. Journal of Volanology and Geothermal Research, 108(1-4), 33-54.
^Thordarson, T. og fleiri, 2003. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121. - ^ Guðmundur Á Gunnlaugsson og fleiri, 1984. Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir. Mál og menning, Reykjavík. 442 bls.
^Thordarson, T. 2003. 1783-85 Laki-Grímsvötn eruptions I: A critical look at the contemporary chronicles. Jökull, 51, 1-10. - ^ Jón Steingrímsson, 1907-1915 (1788). Um Kötlugjá. Safn til sögu Íslands IV (Þorvaldur Thoroddsen ritstjóri). Hið íslenzka bókmenntafélag, Kaupmannahöf og Reykjavík, 216-219.
- ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
^Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042. - ^ Thordarson, T. og fleiri, 2003. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121.
- ^ Sigurður Þórarinsson, 1964. Surtsey. Eyjan nýja í Atlantshafi. Almenna bókafélagið. Reykjavík.
^Sveinn P. Jakobsson 1974. Eldgos á Eldeyjarboða. Náttúrufræðingurinn, 44, 22-40. - ^ Thordarson, T. og fleiri, 2003b. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121.
- ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
- Ljósmynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund.
- Kort: Náttúruvá, bls 458.
Þetta svar og kortið sem því fylgir er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.