Hvernig er eldvirknin á Snæfellsjökli?sem Sunna Rós bar upp og spurningu Þorgeirs:
Hvað getur þú sagt mér um Snæfellsjökul og eldvirkni á Snæfellsnesi?Árið 1864 skaut Snæfellsjökli upp á stjörnuhimininn þegar hinn frægi vísindaskáldsagnahöfundur Jules Verne gaf út bók sína Ferð að miðju jarðar (fr. Voyage au centre de la Terre). Í þeirri bók siglir aðalsöguhetjan, prófessor Otto Lidenbrock, til Íslands þar sem hann ferðast ofan í eldgíg Snæfellsjökuls ásamt förunautum sínum á vit hinna furðulegustu ævintýra. Skáldsagan kom fyrst út í íslenskri þýðingu árið 1944 og útlagðist titill þýðingarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls: för í iður jarðar. Skáldsaga Jules Verne hefur því oft verið einfaldlega nefnd Leyndardómar Snæfellsjökuls á íslensku, þótt það sé ekki alveg í samræmi við titilinn á frummálinu. Hið skemmtilega við íslenska titilinn er þó að þetta gæti eins verið heiti á jarðfræðigrein um Snæfellsjökul. Þótt það sé nokkuð öruggt að hvorki megi finna umfangsmikil neðanjarðarhöf né risaeðlur í iðrum Snæfellsjökuls er heilmargt sem vísindamenn vita ekki um jarðfræði hans, þrátt fyrir umtalsverðar jarðfræðirannsóknir á síðustu áratugum. Þar sem Snæfellsjökull er stórt og virkt eldfjall ætti það að vera brýnt viðfangsefni næstu ára að ráða bragarbót á þessu. Snæfellsjökull er formfögur eldkeila og blasir hann við víða frá vesturhluta landsins. Jökullinn er megineldstöð sem gosið hefur reglulega í gegnum jarðsöguna og er hann langumfangsmesta virka megineldstöðin á Snæfellsnesgosbeltinu. Allt utanvert Snæfellsnes vestan Búða tilheyrir eldstöðvakerfi Snæfellsjökuls sem er það virkasta á Snæfellsnesi. Björn Harðarson aldursgreindi elstu hraunlögin í rótum Snæfellsjökuls og taldi þau vera um 840 þúsund ára gömul. Fjallið hefur því hlaðist upp á löngum tíma og er fjölbreytni í berggerðum og gosmyndunum mikil í og við jökulinn.

Snæfellsjökull er formfögur eldkeila og blasir hann við víða frá vesturhluta landsins. Jökullinn er megineldstöð sem gosið hefur reglulega í gegnum jarðsöguna. Frá því ísaldarjökullinn hvarf af landinu fyrir um tíu þúsund árum eru þrjú stórgos þekkt í Snæfellsjökli.

Síðasta gos í toppgíg Snæfellsjökuls varð fyrir um 1800 árum og er það líklegast það stærsta frá lokum ísaldar. Eftir upphafsfasa gossins hafa hraun tekið að renna niður hlíðar jökulsins til norðurs og suðurs. Þessi hraun eru áberandi þar sem þau fléttast niður hlíðar jökulsins, einkum að sunnanverðu, eins og sjá má á myndinni.
- Björn Sverrir Harðarson. 1993. Alkalic rocks in Iceland with special reference to the Snæfellsjökull volcanic system. Doktorsritgerð, University of Edinburgh, Edinborg.
- Haukur Jóhannesson. 1982. Yfirlit um jarðfræði Snæfellsness. Í Snæfellsnes frá Löngufjörum að Ólafsvíkurenni. Ferðafélag Íslands, Reykjavík, bls. 151-172.
- Haukur Jóhannesson, Flores, R.M. og Jón Jónsson. 1981. A short account of the Holocene tephrochronology of the Snæfellsjökull central volcano, W-Iceland. Jökull 31, 23-30.
- Sigurður Steinþórsson. 1968. Tvær nýjar C14-aldursákvarðanir á öskulögum úr Snæfellsjökli. Náttúrufræðingurinn 37 (3-4), 236-238.
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sóttar 30.07.2015).
Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.