Eins og fyrr sagði er öskumyndun í eldgosum einkum af völdum vatns. Niðri í jörðinni inniheldur öll hraunbráð mismikið vatn, basalt um hálft prósent en súr bráð jafnvel yfir 5%. Ef ekki kemur annað til, myndast lítil aska í basaltgosum vegna þess hve lítið vatn var í bráðinni. Hins vegar tekur bráðin iðulega upp í sig grunnvatn á leiðinni upp í gíginn sem veldur sprengingum og öskumyndun. Dæmi um þetta eru mýmörg á Íslandi – neðansjávargos (til dæmis Surtsey), gos í jökli (Katla, Grímsvötn) og bein áhrif grunnvatns (Vatnaöldur, Lakagígir). Gervigígar, eins og Rauðhólar og Skútustaðagígir við Mývatn, myndast einnig fyrir áhrif vatns á bráðna kviku. Niðurstaða er sem sagt að gosaska verður til þegar bergbráð freyðir og sundrast fyrir tilstilli vatns. Hún er glerjuð bergbráð og óskyld þeirri ösku sem myndast við bruna. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvert berst gosaska? eftir Trausta Jónsson
- Hvað er átt við með súrum, ísúrum og basískum eldgosum? eftir Ármann Höskuldsson
- Ef það kemur kvika upp úr jörðinni við eldgos myndast þá ekki tómarúm annars staðar eða er kvikuframleiðsla endalaus? eftir Sigurð Steinþórsson
- Veðurstofa Íslands. Ljósmyndari: Sigurlaug Hjaltadóttir. Sótt 8. 11. 2010.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Af hverju gýs aska upp úr eldfjöllum á meðan á eldsumbrotum stendur, það er hvað brennur til að askan myndist?