Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Megineldstöðvar má skilgreina með eftirfarandi eiginleikum: Þar gýs aftur og aftur, í rótum þeirra er kvikuhólf, þar myndast margvíslegar bergtegundir - basískar, ísúrar og súrar - og þar eru iðulega háhitasvæði.
Krafla.
Þorleifur Einarsson lýsir svo myndun og þróun megineldstöðva í bók sinni Myndun og mótun lands (bls. 119):
Í hinum eiginlegu rekbeltum, frá Reykjanestá til Langjökuls, og frá Veiðivötnum norður í Axarfjörð, einkennist gosbeltið af svonefndum gangasveimum sem koma fram á yfirborði sem sprungusveimar, oft yfir 40 km langir og 10 km breiðir. Form og stefna sveimanna stafar af svörun efsta hluta jarðskorpunnar við hreyfingum í möttlinum. Í rótum hvers sveims er aflangur kvikugeymir sem bergkvika bætist í neðan frá og blandast þeirri sem fyrir er. Í eldgosum rís kvika úr kvikugeymum. Þegar ofar dregur í skorpuna fer súr kvika að verða meira áberandi og megineldstöð myndast í miðju sveimsins. Súra kvikan myndast við eðlisþyngdaraðgreiningu kviku og bráðnun bergsins ofan við kvikuþróna eða grannbergs í hliðum hennar. Þegar kvikuhólfið hefur risið nægilega hátt í skorpunni fer stundum svo við eldgos að þakið yfir hrynur og askja myndast, oft með miklu líparít-öskugosi. Dæmi um slíkt er gosið 1875 í Dyngjufjöllum. Þegar gliðnunarhreyfingar verða um megineldstöðvar af þessu tagi streymir kvika úr kvikuhólfinu undir eldstöðinni oft lárétt út í gangasveima (kvikuhlaup), og kemur þá oft upp sem sprungugos (sbr. Kröfluelda 1975-84).
Dæmigerðar megineldstöðvar utan rekbeltanna eru Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull og Öræfajökull, en í rekbeltunum Askja og Krafla, sem áður voru nefndar. Háhitasvæðin á Reykjanesskaga eru dæmi um megineldstöðvar á frumstigi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll, en Hengill er þróaðri því þar finnast mismunandi bergtegundir.
Mynd: