Meginsporðar hveljöklanna gætu styst um 2-4 km, sporðar á hálendinu minnst, en mest skriðjöklar sem falla niður á láglendi sunnan úr Vatnajökli og Mýrdalsjökli. Þó ræðst hop sporðanna af því hverjir þeirra hlaupa fram á þessu tímabili. Þannig hljóp Brúarjökull fram um 10 km árið 1890 og 8 km 1963-64 og má búast við því að hann taki aftur á rás fyrir miðja öldina, en nái þó skemmra fram en við fyrri hlaupin. Vatnajökull gæti hafað rýrnað um 10% (300 km3) um miðja öldina, sem er nokkru meira en það rúmmál sem hann missti á allri 20. öldinni. Að flatarmáli gæti hann skroppið saman sem nemur helmingi af núverandi flatarmáli Langjökuls.
Hinir stóru hveljöklarnir gætu misst hlutfallslega meira af rúmmáli sínu (15-20%). Haldist loftslag óbreytt gæti því rýrnun allra jöklanna næstu hálfa öld jafngilt 5 m þykku vatnslagi jafndreifðu yfir allt Ísland. Hér er um gróft mat að ræða en von er á ítarlegri svörum sem jöklafræðingar vinna nú að. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni? eftir Freystein Sigmundsson og Helga Björnsson