Spurningin í heild sinni hljóðaði svona: Hver er munurinn á grágrýti og blágrýti? Hvers vegna er grágrýti mismunandi á milli myndunarstaða?Storkuberg er annars vegar flokkað eftir efnasamsetningu og hins vegar eftir myndunarháttum. Þannig getur bergkvika sömu samsetningar myndað basaltgler (sem oft ummyndast í móberg), blágrýti, grágrýti og gabbró eftir því hve hröð kólnunin er. Hraðari kólnun þýðir að kristallar í berginu verða minni. Basaltgler myndast við hraðasta kælingu, oftast í vatni, þannig að engin kristöllun getur átt sér stað. Þeir kristallar, eða dílar, sem þar finnast voru fyrir í bráðinni þegar hún storknaði. Gabbró er hins vegar grófkristallað vegna þess að það storknar djúpt í jörðinni og kristallarnir hafa nægan tíma til að vaxa. Þarna á milli koma blágrýti og grágrýti. Blágrýti er dulkornótt basalt en storkuberg er dulkornótt ef kristalkornin eru svo smá að þau eru ekki sjáanleg með berum augum. Grágrýti er aftur á móti smákornótt basalt sem þýðir að kristalkornin eru það stór að þau eru greinanleg með berum augum.

Grágrýti (dolerite).
- Dolerite ventifact (Antarctica) 3 - Flickr.com. Höfundur myndar: James St. John. Birt undir Attribution 2.0 Generic (CC BY 2.0) leyfi. (Sótt 28.4.2022).