Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Aristóteles?

Ólafur Páll Jónsson

Aristóteles (384–322 f.Kr) var einn mesti heimspekingur og vísindamaður fornaldar. Hann var vel að sér í öllum greinum heimspekinnar, en auk þess var hann einn fremsti náttúruvísindamaður síns tíma, afkastamikill höfundur og, að því er sagan segir, framúrskarandi rithöfundur. Cíceró sagði að orð Aristótelesar streymdu fram eins og gullinn straumur og taldi hann fremri rithöfund en Platon, sem þó er óumdeilanlega einhver besti rithöfundur Vesturlanda. Því miður er megnið af þeim verkum sem Aristóteles bjó til útgáfu glatað, flest þau verk sem hafa varðveist eru líkast til kennsluglósur eða handrit sem hann studdist við í kennslu eða skrifaði fyrir nemendur sína. Þessi rit bera lítinn vott um ritsnilld Aristótelesar.

Ævi

Aristóteles fæddist árið 384 f.Kr. í borginni Stagíru, grískri borg á austurströnd Makedoníu. Hann var grískur að uppruna, sonur efnaðra foreldra sem hann missti ungur, en faðir hans hafði verið líflæknir Amyntasar II. konungs af Makedoníu. Sautján ára gamall hélt Aristóteles til Aþenu og hóf nám í Akademíunni, en það var skóli sem Platon (~429–347 f.Kr) hafði stofnað. Aristóteles var 20 ár í Akademíunni, fyrst sem nemandi en síðar sem kennari eða samstarfsmaður Platons. Þegar Platon lést flutti Aristóteles frá Aþenu og næstu 13 árin bjó hann ýmist í bæjunum Atarnevs og Assos á strönd Litlu-Asíu (þar sem nú er Tyrkland) í boði einvaldsins Hermeiasar, á eyjunni Lesbey þar sem hann kynntist Þeófrastosi, sem átti eftir að verða hans nánasti samstarfsmaður og vinur, eða í Stagíru. Á þessum tíma kvæntist hann Pyþíu, frænku Hermeiasar.

Í kringum árið 343 f.Kr., segir sagan, bauð Filippos II. konungur af Makedoníu Aristótelesi að gerast kennari sonar síns, Alexanders, sem síðar varð þekktur sem Alexander mikli. Filippos náði yfirráðum yfir Grikklandi árið 338 f.Kr. en var myrtur tveim árum síðar. Þá tók Alexander við, aðeins tvítugur að aldri. Árið 332 f.Kr. sneri Aristóteles aftur til Aþenu og setti á fót sinn eigin skóla, Lykeion, þar sem hann starfaði næstu 15 árin. Árið 323 f.Kr. fór Alexander í herför til Mið-Austurlanda, sem reyndist hans hinsta för. Þegar fréttir bárust af andláti Alexanders mikla hófu Aþenubúar að rísa upp gegn yfirráðum Makedóníu. Og í þessari uppreisn var Aristóteles ákærður fyrir guðlast vegna ljóðs sem hann hafði skrifað til minningar um Hermeias. Sókrates hafði verið borinn samskonar sökum 76 árum áður og dæmdur til dauða, eins og lesa má í samræðunum Málsvörnin og Kríton (Síðustu dagar Sókratesar, Lærdómsrit hins íslenzka bókmenntafélags, 4. útgáfa 1996). Aristóteles ákvað að mæta ekki sömu örlögum og Sókrates og flúði frá Aþenu með þeim orðum að hann ætlaði ekki að láta Aþenubúa syndga aftur gegn heimspekinni. Hann flutti til Kalkis á eyjunni Evboju þar sem hann settist að í húsi sem móðir hans hafði átt. Ári síðar lést hann.

Eftirlátin rit

Aristóteles var afkastamikill höfundur, ef öll þau rit sem hann er talinn hafa skrifað væru komin á prent tækju þau um 6.000 blaðsíður. En magnið er þó ekki það sem er eftirtektarverðast við rit Aristótelesar, fjölbreytileikinn er ótrúlegur og gæðin ekki síður. Þau rit Aristótelesar sem hafa varðveist (tæpar 2.000 blaðsíður) taka yfir öll svið heimspekinnar, siðfræði, stjórnmálaheimspeki, þekkingarfræði, frumspeki og rökfræði, en síðastnefndu greinina bjó Aristóteles til frá grunni (sjá svar við spurningunni Hvers vegna er rökfræðin svona flókin og hver er tilgangurinn með henni?). En að auki hafa varðveist rit þar sem Aristóteles fjallar um eðlisfræði, stjörnufræði, sálfræði, líffræði, veðurfræði og skáldskaparfræði, rit um ævilengd dýra og rit um svefn og drauma. Og er þá ekki allt talið.

Að auki eru rit Aristótelesar ein helsta heimildin um frumherja grískrar heimspeki, hugsuði eins og Þales frá Míletos (f. um 625 f.Kr.), Anaxímandros (f. 610 f.Kr.), Herakleitos (um 500 f.Kr.), Parmenídes (um 475 f.Kr.) og fleiri sem voru uppi um eða fyrir tíma Sókratesar (469–399 f.Kr.). Ástæðan fyrir þessu er sú að Aristóteles var fyrstur heimspekinga til að líta svo á að hann tilheyrði ákveðinni hefð – heimspekihefð. Fyrir tíma Platons, sem var kennari Aristótelesar eins og áður segir, var heimspekin sundurlaus og sumpart tilviljunarkennd iðja. Það höfðu að vísu komið upp ákveðnir skólar – þannig tilheyrðu Parmenídes og Zenón Eleuskólanum sem kenndi meðal annars að hreyfing væri óhugsandi (sjá svar við spurningunni Hver setti fram þá tilgátu að hreyfing væri ekki til? Er hún sönn?) – en Aristóteles er fyrstur manna til að nálgast heimspekileg vandamál, eins og til dæmis spurninguna um hreyfingu og breytingu, með því að skoða með kerfisbundnum hætti hvað fyrirrennarar hans hafa sagt, hvaða rök þeir hafa sett fram fyrir eigin hugmyndum og setja fram sínar eigin hugmyndir með því að taka um leið afstöðu til fyrirrennaranna.

En jafnvel þótt verk Aristótelesar spanni vítt svið og séu af ólíkum toga þá er áberandi samhljómur í þeim, bæði hvað innihald varðar og yfirbragð. Aristóteles er alltaf meðvitaður um þá hefð sem hann er hluti af, hann sýnir fyrirrennurum sínum einlæga virðingu og hann styður röksemdafærslur sínar, sem oft eru mjög tæknilegar, með hversdagslegum dæmum. Þetta er ekki síst einkenni á Frumspekinni, en ásamt Siðfræði Nikómakkosar og Umsögnum er hún það verk Aristótelesar sem hlotið hefur hvað mesta athygli í gegnum aldirnar. Heimspekingar samtímans sækja reyndar enn hugmyndir og innblástur í Frumspekina og Siðfræðina. Þessi rit, eins og raunar fleiri rit Aristótelesar, eru því sígild í bestu merkingu þess orðs; þau eru ekki einungis lesin sem söguleg heimild heldur sem nútímaleg heimspeki.

Frumspekin

Orðið ‘metaphysica’ sem heiti á einni af höfuðgreinum heimspekinnar, og sem þýtt er með íslenska orðinu ‘frumspeki’, á rætur að rekja til rita Aristótelesar. Orðið ‘metaphysica’ er sett saman úr tveimur orðum ‘meta’, sem þýðir ‘á eftir’ og ‘physica’ sem þýðir einfaldlega ‘eðlisfræði’. Orðið þýðir því í raun ‘á eftir eðlisfræðinni’. Oft er sú saga sögð um uppruna orðsins að það vísi einfaldlega til þess hvernig ritum Aristótelesar var steypt saman í eitt safn þegar maður að nafni Androníkos gaf þau út í kringum árið 40 f.Kr. Samkvæmt þessu vísar orðið einfaldlega til þess að þær 14 bækur sem mynda Frumspekina lentu á eftir Eðlisfræðinni. Það er þó ekki víst að orðið ‘metaphysica’ vísi einfaldlega til þess hvar Frumspekin lenti í þessari útgáfu, heldur kann það að hafa kennslufræðilega þýðingu og vísar til þess að áður en maður leggur stund á frumspeki verði maður fyrst að vera vel að sér í eðlisfræði.

Grundvallarspurningin í frumspeki Aristótelesar er einfaldlega þessi: Hvað er hlutur? Þetta er spurning sem er svo einföld að mörgum kann að virðast næsta hæpið að nokkuð áhugavert megi segja um hana. Er hlutur ekki bara hlutur? En þegar betur er að gáð kemur í ljós að einfaldleikinn er einungis á yfirborðinu. Undir leynast miklar gátur. Hvað er það fyrir tiltekinn hlut, skóflu eða mann, að vera sami hlutur í dag og í gær? (sjá til dæmis svör við spurningunum Ef ég skipti tvisvar um skaft og einu sinni um haus á hamri, verður útkoman þá sami hamar og ég byrjaði með?, Er hugsanlegt að hægt verði að stöðva öldrun algjörlega eða er það óraunsætt? og Ef heili væri tekinn úr einni manneskju og settur í aðra, væri það þá eins og að færa harðan disk úr einni tölvu í aðra?). Í glímu sinni við þessa spurningu bjó Aristóteles til hugtökin ‘form’ og ‘efni’ sem hafa gengið aftur í allri heimspeki Vesturlanda og eru orðin svo sjálfsagður hlutur af menningu okkar að enginn getur lengur hugsað sér að vera án þeirra.

Siðfræðin

Grundvallarspurningin í siðfræði Aristótelesar, eins og í siðfræði Platons og fleiri forngrískra hugsuða, er spurningin um það hvernig unnt sé að lifa góðu eða farsælu lífi. Útgangspunkturinn í þessari siðfræði er því nokkuð annar en við eigum að venjast þar sem okkur er gjarnara á að svara spurningum um réttmæti athafna með tilvísun til reglna sem athöfnin miðast við eða þeirra afleiðinga sem athöfnin hefur í för með sér. Áherslan á reglur eða afleiðingar sem kjarna allrar siðfræði á rætur að rekja til 18. og 19. aldar, sér í lagi til verka eftir Immanuel Kant og John Stuart Mill. Þær stefnur sem eiga rætur að rekja til Kants og Mills eru gjarnan kallaðar skyldusiðfræði og nytjastefna (sjá svar við spurningunum Hvað getiði sagt mér um samanburð á siðfræði Kants og Mills? / Hver er munurinn á skyldusiðfræði og afleiðingasiðfræði?). Kjarninn í siðfræði Aristótelesar er allt annar en hjá þeim Kant og Mill. Skylda er grundvallarhugtak í siðfræði Kants, nytsemd í siðfræði Mills, en hjá Aristótelesi skiptir hugtakið dygð höfuðmáli.

Aristóteles er í öllum meginatriðum sammála Platoni um inntak siðferðilegs lífs, en hafnar þó þeirri kenningu Platons að siðferðileg dómgreind krefjist þekkingar á hinu Góða, sem sé óháð reynslu, skapgerð og aðstæðum einstaklingsins. Hér kemur skýrt fram hversu jarðbundinn Aristóteles er, því hann segir að jafnvel þótt hið Góða væri til (sem hann hafnar) þá „er ljóst að slíkt væri manninum hvorki gerlegt né tiltækt“ (1096b). Það sem máli skiptir, samkvæmt Aristótelesi, eru þau gæði sem menn geta nálgast í lífinu sjálfu. Aristóteles leggur einnig ríka áherslu á að markmið siðferðilegrar rannsóknar sé ekki siðferðileg þekking, til dæmis þekking á siðareglum eða lögmálum mannlegrar breytni, heldur siðferðileg breytni.

Líkt og hjá Platoni gegnir kenning Aristótelesar um sálina lykilhlutverki í kenningu hans um farsæld sem æðsta takmark mannlegs lífs. Aristóteles skiptir sálinni í tvennt í grófum dráttum, annars vegar í skynsemishluta, sem aftur skiptist í fræðilega og verklega skynsemi, og hins vegar í skynleysishluta, sem skiptist í næringarhluta og hvatahluta. Þeir hlutar sálarinnar sem skipta máli fyrir siðferðilegt líf eru fyrst og fremst verkleg skynsemi og hvatahlutinn – fræðileg skynsemi skiptir hér litlu sem engu máli þótt Aristóteles telji hana annars til æðsta hluta sálarinnar. Ástæðan er sú að fræðileg skynsemi er ekki hvati til athafna. Þessir ólíku eðlisþættir sálarinnar skipta síðar höfuðmáli fyrir ólíkar tegundir dygða. Í greininni „Forngrísk siðfræði“ segir Vilhjálmur Árnason:
Í samræmi við þessa skiptingu sálarinnar greinir Aristóteles á milli vitrænna dygða annars vegar og siðrænna dygða hins vegar. Vitrænar eru dygðir skynsemishluta sálarinnar, svo sem vizka, skilningur og hyggindi. Sumar þeirra lúta einkum að yfirvegun óbreytanlegra sanninda, en siðvit og hyggindi varða hæfni manna til þess að ná markmiðum mannlegs lífs. Siðrænar dygðir snúast aftur á móti um ánægju og sársauka sem menn hafa af athöfnum og þær eru sprottnar af ögun hvatahlutans í sálinni. (bls. 91)
Á síðustu misserum hefur mikið verið gert úr þeirri hugmynd að engin skýr skil séu á milli skynsemi og tilfinninga, skynsemin sé þrungin tilfinningum og tilfinningarnar skynsamar. Tískuhugtak í þessari umræðu hefur verið hugtakið ‘tilfinningagreind’ en öll þessi umræða hefur verið sett fram sem uppreisn gegn ríkjandi hugmyndum. Það dylst þó engum sem les siðfræði Aristótelesar að hugmyndin um náin tengsl skynsemi og tilfinninga er síður en svo ný af nálinni. Hún er að minnsta kosti jafn gömul siðfræði Aristótelesar, þar sem nákvæm greining á því hvernig tilfinningar og skynsemi leiða til athafna var uppistaðan í einni fáguðustu siðfræðikenningu allra tíma.

Heimildir og frekara lesefni

  • Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar, íslensk þýðing og inngangur eftir Svavar Hrafn Svavarsson, Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags 1995. Í inngangi Svavars er nokkuð ítarleg umfjöllun um ævi Aristótelesar og verk hans.

  • Aristóteles, Frumspekin I, íslensk þýðing og inngangur eftir Svavar Hrafn Svavarsson, Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags 1999.

  • Aristóteles, Um skáldskaparlistina, íslensk þýðing og inngangur eftir Kristján Árnason, Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags, 2. útg. 1997.

  • Aristóteles, Um sálina, íslensk þýðing og inngangur eftir Sigurjón Björnsson, Hið íslenzka bókmenntafélag 1984. Í inngangi Sigurjóns er umfjöllun um ævi og verk Aristótelesar auk þess sem kenning hans um sálina er sett í samhengi við seinni tíma kenningar í sálfræði.

  • Mikael M. Karlsson, „Þungir þankar: Um aflfræði Aristótelesar“, Hugur 1988.

  • Vilhjálmur Árnason, „Forngrísk siðfræði“, Grikkland ár og síð, Hið íslenzka bókmenntafélag 1991.

  • Þorsteinn Gylfason, „Aristóteles og við“, Réttlæti og ranglæti, Heimskringla 1998.

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

21.6.2004

Spyrjandi

Páll Þór Sigurjónsson, Snorri Gunnarsson

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Hver var Aristóteles?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2004, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4361.

Ólafur Páll Jónsson. (2004, 21. júní). Hver var Aristóteles? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4361

Ólafur Páll Jónsson. „Hver var Aristóteles?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2004. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4361>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Aristóteles?
Aristóteles (384–322 f.Kr) var einn mesti heimspekingur og vísindamaður fornaldar. Hann var vel að sér í öllum greinum heimspekinnar, en auk þess var hann einn fremsti náttúruvísindamaður síns tíma, afkastamikill höfundur og, að því er sagan segir, framúrskarandi rithöfundur. Cíceró sagði að orð Aristótelesar streymdu fram eins og gullinn straumur og taldi hann fremri rithöfund en Platon, sem þó er óumdeilanlega einhver besti rithöfundur Vesturlanda. Því miður er megnið af þeim verkum sem Aristóteles bjó til útgáfu glatað, flest þau verk sem hafa varðveist eru líkast til kennsluglósur eða handrit sem hann studdist við í kennslu eða skrifaði fyrir nemendur sína. Þessi rit bera lítinn vott um ritsnilld Aristótelesar.

Ævi

Aristóteles fæddist árið 384 f.Kr. í borginni Stagíru, grískri borg á austurströnd Makedoníu. Hann var grískur að uppruna, sonur efnaðra foreldra sem hann missti ungur, en faðir hans hafði verið líflæknir Amyntasar II. konungs af Makedoníu. Sautján ára gamall hélt Aristóteles til Aþenu og hóf nám í Akademíunni, en það var skóli sem Platon (~429–347 f.Kr) hafði stofnað. Aristóteles var 20 ár í Akademíunni, fyrst sem nemandi en síðar sem kennari eða samstarfsmaður Platons. Þegar Platon lést flutti Aristóteles frá Aþenu og næstu 13 árin bjó hann ýmist í bæjunum Atarnevs og Assos á strönd Litlu-Asíu (þar sem nú er Tyrkland) í boði einvaldsins Hermeiasar, á eyjunni Lesbey þar sem hann kynntist Þeófrastosi, sem átti eftir að verða hans nánasti samstarfsmaður og vinur, eða í Stagíru. Á þessum tíma kvæntist hann Pyþíu, frænku Hermeiasar.

Í kringum árið 343 f.Kr., segir sagan, bauð Filippos II. konungur af Makedoníu Aristótelesi að gerast kennari sonar síns, Alexanders, sem síðar varð þekktur sem Alexander mikli. Filippos náði yfirráðum yfir Grikklandi árið 338 f.Kr. en var myrtur tveim árum síðar. Þá tók Alexander við, aðeins tvítugur að aldri. Árið 332 f.Kr. sneri Aristóteles aftur til Aþenu og setti á fót sinn eigin skóla, Lykeion, þar sem hann starfaði næstu 15 árin. Árið 323 f.Kr. fór Alexander í herför til Mið-Austurlanda, sem reyndist hans hinsta för. Þegar fréttir bárust af andláti Alexanders mikla hófu Aþenubúar að rísa upp gegn yfirráðum Makedóníu. Og í þessari uppreisn var Aristóteles ákærður fyrir guðlast vegna ljóðs sem hann hafði skrifað til minningar um Hermeias. Sókrates hafði verið borinn samskonar sökum 76 árum áður og dæmdur til dauða, eins og lesa má í samræðunum Málsvörnin og Kríton (Síðustu dagar Sókratesar, Lærdómsrit hins íslenzka bókmenntafélags, 4. útgáfa 1996). Aristóteles ákvað að mæta ekki sömu örlögum og Sókrates og flúði frá Aþenu með þeim orðum að hann ætlaði ekki að láta Aþenubúa syndga aftur gegn heimspekinni. Hann flutti til Kalkis á eyjunni Evboju þar sem hann settist að í húsi sem móðir hans hafði átt. Ári síðar lést hann.

Eftirlátin rit

Aristóteles var afkastamikill höfundur, ef öll þau rit sem hann er talinn hafa skrifað væru komin á prent tækju þau um 6.000 blaðsíður. En magnið er þó ekki það sem er eftirtektarverðast við rit Aristótelesar, fjölbreytileikinn er ótrúlegur og gæðin ekki síður. Þau rit Aristótelesar sem hafa varðveist (tæpar 2.000 blaðsíður) taka yfir öll svið heimspekinnar, siðfræði, stjórnmálaheimspeki, þekkingarfræði, frumspeki og rökfræði, en síðastnefndu greinina bjó Aristóteles til frá grunni (sjá svar við spurningunni Hvers vegna er rökfræðin svona flókin og hver er tilgangurinn með henni?). En að auki hafa varðveist rit þar sem Aristóteles fjallar um eðlisfræði, stjörnufræði, sálfræði, líffræði, veðurfræði og skáldskaparfræði, rit um ævilengd dýra og rit um svefn og drauma. Og er þá ekki allt talið.

Að auki eru rit Aristótelesar ein helsta heimildin um frumherja grískrar heimspeki, hugsuði eins og Þales frá Míletos (f. um 625 f.Kr.), Anaxímandros (f. 610 f.Kr.), Herakleitos (um 500 f.Kr.), Parmenídes (um 475 f.Kr.) og fleiri sem voru uppi um eða fyrir tíma Sókratesar (469–399 f.Kr.). Ástæðan fyrir þessu er sú að Aristóteles var fyrstur heimspekinga til að líta svo á að hann tilheyrði ákveðinni hefð – heimspekihefð. Fyrir tíma Platons, sem var kennari Aristótelesar eins og áður segir, var heimspekin sundurlaus og sumpart tilviljunarkennd iðja. Það höfðu að vísu komið upp ákveðnir skólar – þannig tilheyrðu Parmenídes og Zenón Eleuskólanum sem kenndi meðal annars að hreyfing væri óhugsandi (sjá svar við spurningunni Hver setti fram þá tilgátu að hreyfing væri ekki til? Er hún sönn?) – en Aristóteles er fyrstur manna til að nálgast heimspekileg vandamál, eins og til dæmis spurninguna um hreyfingu og breytingu, með því að skoða með kerfisbundnum hætti hvað fyrirrennarar hans hafa sagt, hvaða rök þeir hafa sett fram fyrir eigin hugmyndum og setja fram sínar eigin hugmyndir með því að taka um leið afstöðu til fyrirrennaranna.

En jafnvel þótt verk Aristótelesar spanni vítt svið og séu af ólíkum toga þá er áberandi samhljómur í þeim, bæði hvað innihald varðar og yfirbragð. Aristóteles er alltaf meðvitaður um þá hefð sem hann er hluti af, hann sýnir fyrirrennurum sínum einlæga virðingu og hann styður röksemdafærslur sínar, sem oft eru mjög tæknilegar, með hversdagslegum dæmum. Þetta er ekki síst einkenni á Frumspekinni, en ásamt Siðfræði Nikómakkosar og Umsögnum er hún það verk Aristótelesar sem hlotið hefur hvað mesta athygli í gegnum aldirnar. Heimspekingar samtímans sækja reyndar enn hugmyndir og innblástur í Frumspekina og Siðfræðina. Þessi rit, eins og raunar fleiri rit Aristótelesar, eru því sígild í bestu merkingu þess orðs; þau eru ekki einungis lesin sem söguleg heimild heldur sem nútímaleg heimspeki.

Frumspekin

Orðið ‘metaphysica’ sem heiti á einni af höfuðgreinum heimspekinnar, og sem þýtt er með íslenska orðinu ‘frumspeki’, á rætur að rekja til rita Aristótelesar. Orðið ‘metaphysica’ er sett saman úr tveimur orðum ‘meta’, sem þýðir ‘á eftir’ og ‘physica’ sem þýðir einfaldlega ‘eðlisfræði’. Orðið þýðir því í raun ‘á eftir eðlisfræðinni’. Oft er sú saga sögð um uppruna orðsins að það vísi einfaldlega til þess hvernig ritum Aristótelesar var steypt saman í eitt safn þegar maður að nafni Androníkos gaf þau út í kringum árið 40 f.Kr. Samkvæmt þessu vísar orðið einfaldlega til þess að þær 14 bækur sem mynda Frumspekina lentu á eftir Eðlisfræðinni. Það er þó ekki víst að orðið ‘metaphysica’ vísi einfaldlega til þess hvar Frumspekin lenti í þessari útgáfu, heldur kann það að hafa kennslufræðilega þýðingu og vísar til þess að áður en maður leggur stund á frumspeki verði maður fyrst að vera vel að sér í eðlisfræði.

Grundvallarspurningin í frumspeki Aristótelesar er einfaldlega þessi: Hvað er hlutur? Þetta er spurning sem er svo einföld að mörgum kann að virðast næsta hæpið að nokkuð áhugavert megi segja um hana. Er hlutur ekki bara hlutur? En þegar betur er að gáð kemur í ljós að einfaldleikinn er einungis á yfirborðinu. Undir leynast miklar gátur. Hvað er það fyrir tiltekinn hlut, skóflu eða mann, að vera sami hlutur í dag og í gær? (sjá til dæmis svör við spurningunum Ef ég skipti tvisvar um skaft og einu sinni um haus á hamri, verður útkoman þá sami hamar og ég byrjaði með?, Er hugsanlegt að hægt verði að stöðva öldrun algjörlega eða er það óraunsætt? og Ef heili væri tekinn úr einni manneskju og settur í aðra, væri það þá eins og að færa harðan disk úr einni tölvu í aðra?). Í glímu sinni við þessa spurningu bjó Aristóteles til hugtökin ‘form’ og ‘efni’ sem hafa gengið aftur í allri heimspeki Vesturlanda og eru orðin svo sjálfsagður hlutur af menningu okkar að enginn getur lengur hugsað sér að vera án þeirra.

Siðfræðin

Grundvallarspurningin í siðfræði Aristótelesar, eins og í siðfræði Platons og fleiri forngrískra hugsuða, er spurningin um það hvernig unnt sé að lifa góðu eða farsælu lífi. Útgangspunkturinn í þessari siðfræði er því nokkuð annar en við eigum að venjast þar sem okkur er gjarnara á að svara spurningum um réttmæti athafna með tilvísun til reglna sem athöfnin miðast við eða þeirra afleiðinga sem athöfnin hefur í för með sér. Áherslan á reglur eða afleiðingar sem kjarna allrar siðfræði á rætur að rekja til 18. og 19. aldar, sér í lagi til verka eftir Immanuel Kant og John Stuart Mill. Þær stefnur sem eiga rætur að rekja til Kants og Mills eru gjarnan kallaðar skyldusiðfræði og nytjastefna (sjá svar við spurningunum Hvað getiði sagt mér um samanburð á siðfræði Kants og Mills? / Hver er munurinn á skyldusiðfræði og afleiðingasiðfræði?). Kjarninn í siðfræði Aristótelesar er allt annar en hjá þeim Kant og Mill. Skylda er grundvallarhugtak í siðfræði Kants, nytsemd í siðfræði Mills, en hjá Aristótelesi skiptir hugtakið dygð höfuðmáli.

Aristóteles er í öllum meginatriðum sammála Platoni um inntak siðferðilegs lífs, en hafnar þó þeirri kenningu Platons að siðferðileg dómgreind krefjist þekkingar á hinu Góða, sem sé óháð reynslu, skapgerð og aðstæðum einstaklingsins. Hér kemur skýrt fram hversu jarðbundinn Aristóteles er, því hann segir að jafnvel þótt hið Góða væri til (sem hann hafnar) þá „er ljóst að slíkt væri manninum hvorki gerlegt né tiltækt“ (1096b). Það sem máli skiptir, samkvæmt Aristótelesi, eru þau gæði sem menn geta nálgast í lífinu sjálfu. Aristóteles leggur einnig ríka áherslu á að markmið siðferðilegrar rannsóknar sé ekki siðferðileg þekking, til dæmis þekking á siðareglum eða lögmálum mannlegrar breytni, heldur siðferðileg breytni.

Líkt og hjá Platoni gegnir kenning Aristótelesar um sálina lykilhlutverki í kenningu hans um farsæld sem æðsta takmark mannlegs lífs. Aristóteles skiptir sálinni í tvennt í grófum dráttum, annars vegar í skynsemishluta, sem aftur skiptist í fræðilega og verklega skynsemi, og hins vegar í skynleysishluta, sem skiptist í næringarhluta og hvatahluta. Þeir hlutar sálarinnar sem skipta máli fyrir siðferðilegt líf eru fyrst og fremst verkleg skynsemi og hvatahlutinn – fræðileg skynsemi skiptir hér litlu sem engu máli þótt Aristóteles telji hana annars til æðsta hluta sálarinnar. Ástæðan er sú að fræðileg skynsemi er ekki hvati til athafna. Þessir ólíku eðlisþættir sálarinnar skipta síðar höfuðmáli fyrir ólíkar tegundir dygða. Í greininni „Forngrísk siðfræði“ segir Vilhjálmur Árnason:
Í samræmi við þessa skiptingu sálarinnar greinir Aristóteles á milli vitrænna dygða annars vegar og siðrænna dygða hins vegar. Vitrænar eru dygðir skynsemishluta sálarinnar, svo sem vizka, skilningur og hyggindi. Sumar þeirra lúta einkum að yfirvegun óbreytanlegra sanninda, en siðvit og hyggindi varða hæfni manna til þess að ná markmiðum mannlegs lífs. Siðrænar dygðir snúast aftur á móti um ánægju og sársauka sem menn hafa af athöfnum og þær eru sprottnar af ögun hvatahlutans í sálinni. (bls. 91)
Á síðustu misserum hefur mikið verið gert úr þeirri hugmynd að engin skýr skil séu á milli skynsemi og tilfinninga, skynsemin sé þrungin tilfinningum og tilfinningarnar skynsamar. Tískuhugtak í þessari umræðu hefur verið hugtakið ‘tilfinningagreind’ en öll þessi umræða hefur verið sett fram sem uppreisn gegn ríkjandi hugmyndum. Það dylst þó engum sem les siðfræði Aristótelesar að hugmyndin um náin tengsl skynsemi og tilfinninga er síður en svo ný af nálinni. Hún er að minnsta kosti jafn gömul siðfræði Aristótelesar, þar sem nákvæm greining á því hvernig tilfinningar og skynsemi leiða til athafna var uppistaðan í einni fáguðustu siðfræðikenningu allra tíma.

Heimildir og frekara lesefni

  • Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar, íslensk þýðing og inngangur eftir Svavar Hrafn Svavarsson, Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags 1995. Í inngangi Svavars er nokkuð ítarleg umfjöllun um ævi Aristótelesar og verk hans.

  • Aristóteles, Frumspekin I, íslensk þýðing og inngangur eftir Svavar Hrafn Svavarsson, Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags 1999.

  • Aristóteles, Um skáldskaparlistina, íslensk þýðing og inngangur eftir Kristján Árnason, Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags, 2. útg. 1997.

  • Aristóteles, Um sálina, íslensk þýðing og inngangur eftir Sigurjón Björnsson, Hið íslenzka bókmenntafélag 1984. Í inngangi Sigurjóns er umfjöllun um ævi og verk Aristótelesar auk þess sem kenning hans um sálina er sett í samhengi við seinni tíma kenningar í sálfræði.

  • Mikael M. Karlsson, „Þungir þankar: Um aflfræði Aristótelesar“, Hugur 1988.

  • Vilhjálmur Árnason, „Forngrísk siðfræði“, Grikkland ár og síð, Hið íslenzka bókmenntafélag 1991.

  • Þorsteinn Gylfason, „Aristóteles og við“, Réttlæti og ranglæti, Heimskringla 1998....