Nú getum við spurt hvort heilinn sé eðlislægur hluti hverrar manneskju eða hvort hann sé einungis tilfallandi hluti sem megi hugsa sér að skipta um á sambærilegan hátt og skipt er um hjarta og lungu. Setjum sem svo að heili hverrar manneskju sé eðlislægur hluti hennar. Í dæmisögunni að ofan af Jóni og Pétri þýddi það að Jón lifði ekki af heilaígræðsluna. Annað hvort fengi Pétur nýjan líkama eða það yrði til nýr einstaklingur. Ef heilinn er eini eðlislægi hluti hverrar manneskju þá lifði Pétur af heilaígræðsluna, en ef fleiri hlutar manneskjunnar eru eðlislægir þá yrði til nýr einstaklingur við það að græða heila Péturs í líkama Jóns. Gefum okkur nú að einungis heilinn sé eðlislægur hluti hverrar manneskju. Þá vaknar spurningin hvers vegna heilinn sé svo mikilvægur en til dæmis hjartað ekki. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að heilinn sé líffæri hugarstarfseminnar og að það sé sú starfsemi annarri fremur sem geri okkur að þeim einstaklingum sem við erum. En ef hugarstarfsemin er það sem máli skiptir og heilinn er líffæri hennar, er heilinn þá eðlislægur eftir allt saman? Kannski mætti hugsa sér að flytja hugarstarfsemina úr einni manneskju í aðra án þess að flytja heilann, með einhverskonar afritun eða heilaþvotti. Slíkur flutningur væri þá kannski sambærilegur við að harður diskur í einni tölvu væri afritaður á harðan disk í annarri tölvu. En ef það er hugarstarfsemin sem máli skiptir og ef það má hugsa sér að afrita hana, í einhverjum skilningi þess orðs, þá virðist líka mögulegt að hafa tvö eintök af sömu manneskjunni, til dæmis annað á Ísafirði en hitt í Vestmannaeyjum. En það getur ekki verið mögulegt til dæmis vegna þess að fljótlega myndi hugarstarfsemi þess á Ísafirði verða öðruvísi en hins í Vestmannaeyjum. Heimspekingar hafa velt spurningum eins og þessum fyrir sér í að minnsta kosti rúm 2000 ár. Sumir hafa hallast að þeirri niðurstöðu að hugmyndin um venjulega efnislega hluti sé hillingar einar en aðrir vilja hafa þessar spurningar til marks um takmarkanir mannlegrar hugsunar. En þótt spurningar um samsemd efnislegra hluta verði kannski fyrst knýjandi þegar við hugsum okkur kringumstæður eins og í dæmisögunni af Jóni og Pétri hér að ofan, þá má ekki gleyma því að þessar spurningar vakna einnig í hversdagslegu samhengi. Á Húsavík gekk eitt sinn sú saga að ein forláta stunguskófla þar í bæ væri að minnsta kosti 150 ára gömul, en það fylgdi sögunni að þrisvar sinnum hafði verið skipt um skaft á henni og tvisvar um blað.
- Er hægt að sanna það vísindalega að maðurinn hafi vitund og að hann hugsi?
- „Ef A = B og B = C þá er A = C.“ Hvernig má það vera? Ef um sama hlutinn er að ræða, af hverju skyldum við skipta honum í A, B og C?
- Er sálin til?
- Hvað segir eðlisfræðin um vitundina út frá skammtafræðinni?
- Hvers eðlis er sálin?
Mynd 1: Lifandi heili á segulhermumynd (MRI, Magnetic Resonance Imaging) á vefsetrinu ShuffleBrain Mynd 2: Úr kvikmyndinni Men in Black (HB) Mynd 3: HB