Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Landnámslagið finnst um allt land, misþykkt, en þó ansi þykkt. Hversu mikið af gjósku hefur þurft til að búa til þetta lag, hversu langt gos þarf til að spúa þessu út og hvaða áhrif myndi þannig gos hafa á daglegt líf á Íslandi á 21. öld?
Á meðfylgjandi korti[1] sést útbreiðsla „landnámslagsins“ innan ½ cm þykktarlínu og þekur það um helming flatarmáls landsins. Í upphafi hefur gosið verið nægilega öflugt til þess að korn gátu borist með háloftastraumum til Grænlands, og vafalaust hefur fíngert ryk fallið víða um land. Á Vesturlandi er lagið tvískipt, ljóst neðst en dökkt ofar. Ljósa gjóskan er rakin til eldstöðvar sem í sama gosi myndaði Hrafntinnuhraun, en dökki hlutinn til goss sem myndaði Vatnaöldur.
Þykktarkort af gjóskulagi úr Vatnaöldugosi á 9. öld, Landnámslagi, þykktardreifing innan 0,5 cm þykktarlínu. Jafnþykktarlínur eru í cm. Ljósi neðri hluti lagsins (gula svæðið á myndinni) kom úr gossprungu Hrafntinnuhrauns (H), dökki hlutinn úr gossprungu Vatnaalda (VÖ). Gossprungurnar eru merktar með rauðu.
Sigurður Þórarinsson[2] lýsti laginu fyrstur manna úr Þjórsárdal þar sem það liggur rétt undir mannvistarleifum á Stöng og fleiri bæjarrústum í dalnum. Sigurður taldi lagið vera frá því fyrir 900, og samkvæmt nýjustu niðurstöðum féll það árið 877 ± 1[3] en ekki 871 ± 2 eins og fyrr var talið[4]. Rúmmál gjóskunnar nýfallinnar hefur verið metið 5 km3 og lengd gossins 5 dagar[5].
Í daglegu lífi Íslendinga á 21. öld yrðu áhrifin einkum af völdum öskufalls, háð árstíma en einkum eftir vindi - meðan á öskufallinu stóð snerist vindur frá norð-austlægri átt til suðausturs meðan ljósa askan féll og áfram til suðvesturs þannig að þykktarás dökka vikurins liggur yfir norðanverðan Vatnajökul. Í byggð var þykkt öskunnar hvergi yfir 2 cm nema í Skaftártungum. Áhrif á flugsamgöngur yrðu sennilega bæði lítil og skammvinn og í engri líkingu við áhrif gossins í Eyjafjallajökli árið 2010 sem spjó sérlega fíngerðri ösku. Vafalítið ylli slíkt gos nýju flóði ferðamanna.
Snið í Þjórsárdal. Þykki ljósi vikurinn efst er Hekla 1104, svarta þunna lagið Eldgjá 939 (var 934), og þar fyrir neðan landnámslagið 877 tvískipt, úr gosi í Vatnaöldum (dökki hluti) og Hrafntinnuhrauni (ljósi hluti), gossprungan tilheyrir Veiðivatnaeldstöðvakerfi.
Í Kröflueldum 1975-84 vitnaðist mönnum sá sannleikur að berggangar eru ekki síður myndaðir við lárétt streymi bergkviku um sprungur frá megineldstöð en við lóðrétt streymi að neðan (úr möttli). Þannig er Eldgjárgosið mikla 939 (áður 934[6]) nú rakið til Kötlu og Skaftáreldahraun („Lakagígagos“) 1783 til Grímsvatna. Gjóskulagið 877 er að því leyti sérstætt að það er rakið til tveggja megineldstöðva, dökki hlutinn til Bárðarbungu og ljósi hlutinn til eldstöðvar kenndrar við Torfajökul. Sýnt hefur verið fram á að í Skaftáreldum opnaðist vestasti hluti gossprungunnar fyrst[7], nefnilega sá hluti sem fjarlægastur er Grímsvötnum, og sama virðist hafa gerst í Vatnaöldugosinu, því ljósi hluti landnámslagsins, sem myndar neðri hluta þess, kom upp ásamt Hrafntinnuhrauni SV við Landmannalaugar. Samkvæmt því hefur basaltbráð streymt neðanjarðar 90 km leið úr kvikuþró Bárðarbungu inn í ríólít-kvikuþró Torfajökuls og valdið þar fyrst sprengigosi[8] og síðan hraunrennsli, sennilega ásamt hrinu af basískum vikri úr vestasta hluta Vatnaaldna; í framhaldinu myndaðist svo gígaröðin Vatnaöldur milli Landmannalauga og Vatnajökuls. Svipuð atburðarás varð um 1477 þegar basaltbráð úr Bárðarbungu skóp gígaröð Veiðivatna og ríólít-hraunin Laugahraun og Námshraun.
Tilvísanir:
^ Guðrún Larsen, 1984: Recent volcanic history of the Veidivötn fissure swarm, Southern Iceland. An approach to volcanic risk assessment. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 22, 33-58. Guðrún Larsen, 1996: Gjóskutímatal og gjóskulög frá tíma norræns landnáms á Íslandi. Í: Guðrún Ása Grímsdóttir (ritstj.): Um landnám á Íslandi. Vísindafélag Íslendinga (Societas Scientarum Islandica), Reykjavík. 81-106.
^ Sigurður Þórarinsson, 1944. Tefrokronologiska studier på Island, Þjórsárdalur och dess förödelse. Ejnar Munksgaaard, Kaupmannahöfn.
^ G.A. Zielenski og fleiri, 1998. Volcanic aerosol records and tephrochronology of the Summit, Greenland, ice cores. Journal of Geophysical Research, 102 (C12), 26625-26640. M.M.E. Schmid og fleiri, 2017. Tephra isochrons and chronologies of colonisation. Quaternary Geochronology, í prentun.
^ Karl Grönvold og fleiri, 1995. Ash layers from Iceland in the Greenland GRIP ice core correlated with oceanic and land based sediments. Earth and Planetary Science Letters, 135, 149-155.
^ Guðrún Larsen, 2013. Náttúruvá á Íslandi (ritstj. Júlíus Sólnes), rammagrein bls. 257.
^ G.A. Zielenski og fleiri, 1998. Volcanic aerosol records and tephrochronology of the Summit, Greenland, ice cores. Journal of Geophysical Research, 102 (C12), 26625-26640. M.M.E. Schmid og fleiri, 2017. Tephra isochrons and chronologies of colonisation. Quaternary Geochronology, í prentun.
^ Þorvaldur Þórðarson, 1990. Skaftáreldar 1783-1785. Gjóskan og framvinda gossins. Háskólaútgáfan og Raunvísindadeild. 187 bls.
^ Um skýringu á þessu fyrirbæri, sjá: Náttúruvá á Íslandi (ritstj. Júlíus Sólnes), bls. 84 (mynd 3.1.15).
Sigurður Steinþórsson. „Hversu mikil gjóska myndaði landnámslagið og hve lengi stóð gosið yfir?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72649.
Sigurður Steinþórsson. (2017, 22. maí). Hversu mikil gjóska myndaði landnámslagið og hve lengi stóð gosið yfir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72649
Sigurður Steinþórsson. „Hversu mikil gjóska myndaði landnámslagið og hve lengi stóð gosið yfir?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72649>.