Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Virku gosbeltin, sem liggja yfir Ísland, eru samsett af eldstöðvakerfum, það er löngum sprungusveimum með stóru eldfjalli nálægt miðju. Eldfjöll þessi eru misjöfn að útliti og gerð en hafa þó ýmis sameiginleg einkenni. Um 1970 var farið að kalla þau megineldstöðvar með hliðsjón af því að þar er eldvirknin mest og nokkur fjölbreytni í gerð gosstöðva. Súrt og ísúrt berg finnst aðeins í tengslum við megineldstöðvar og háhitasvæði er í þeim flestum.
Gosbeltið á Norðurlandi er samsett af nokkrum eldstöðvakerfum sem kennd eru hvert við sína megineldstöð, talið frá norðri: Þeistareykir, Krafla, Fremrinámar, Askja og Kverkfjöll. Kröflukerfið er um 90 km langt, frá botni Axarfjarðar suður til móts við Bláfjall. Á myndinni sést að megineldstöðvarnar liggja þar sem sprungusveimur og flekamót skerast.
Norðurgosbeltið með fimm eldstöðvakerfum. Feitdreginn ferill sýnir skil Norður-Ameríku- og Evrasíuflekanna.
Megineldstöðin Krafla og Kröflukerfið allt draga nafn sitt af samnefndu móbergsfjalli (raunar stapa) í hálendinu skammt frá gígnum Víti, norðaustan við Mývatn. Fjallið myndaðist við gos undir jökli fyrir um 60-70.000 árum.
Ísöld hófst hér á landi fyrir um 3 milljónum ára, og síðan hafa skipst á 90 þúsund ára löng jökul- eða kuldaskeið og 10 þúsund ára löng hlýskeið. Á jökulskeiðunum hlaðast upp móbergsfjöll en á hlýskeiðunum renna hraun. Jarðfræðirannsóknir benda til þess að tvö kuldaskeið séu frá upphafi Kröflukerfis þannig að það sé um 200 þúsund ára gamalt, en elstu hraun þess runnu á hlýskeiði. Síðan tók við 90 þúsund ára langt kuldaskeið með gosum undir jökli sem mynduðu móberg. Við lok þess, fyrir um 120 þúsund árum, gaus fyrst líparíti í kerfinu (í Hágöngum), sem er til marks um að kvikuhólf hafi myndast í rótum megineldeldsstöðvarinnar. Því kuldaskeiði fylgdi 10 þúsund ára langt hlýskeið sem kallast eem, og síðan tók við annað kuldaskeið sem lauk fyrir rúmum 10 þúsund árum. Snemma á síðasta jökulskeiði, fyrir um 100 þúsund árum, myndaðist Kröflu-askjan, sem er 10 km í þvermál. Hún hefur að verulegu leyti fyllst af móbergi í gosum undir ísaldarjöklinum; meðal þeirra móbergsmyndana er fjallið Krafla, sem fyrr sagði, og um svipað leyti hlóðust upp ýmis líparítfjöll yfir hringsprungu öskjunnar.
Eldvirkni í Kröflukerfinu frá ísaldarlokum hefur verið skipt í þrjú skeið sem kennd eru við Lúdent (frá því fyrir 12.000 árum til 8500 ára), Hvannstóð (fyrir um 5500 árum) og Hverfjall (hófst fyrir um 3000 árum). Á síðastnefnda skeiðinu hafa orðið fimm goshrinur, Hverfjallseldar, Hólseldar, Daleldar, Mývatnseldar og Kröflueldar. Daleldar brunnu fyrir um 1100 árum, sennilega skömmu fyrir landnám. Þá runnu hraun annars vegar kringum Hverfjall, hins vegar í Hlíðardal og norður í átt til Kröflu.
Mývatnseldar hófust 1724 með sprengigosi sem myndaði gíginn Víti. Veruleg hraungos byrjuðu í ágúst 1727 og héldu áfram í fjórum hrinum til júníloka 1729. Löngu síðar, árið 1746, varð smágos sem talið er til Mývatnselda. Lengd gossprungunnar er um 13 km, flatarmál hraunanna 33 ferkílómetrar og rúmmál þeirra 0,25 km3.
Kröflueldar stóðu frá 1975-1984.
Kröflueldar stóðu frá desember 1975 til september 1984. Fram til 1979 einkenndist virknin af kvikuhlaupum, þar sem bergkvika streymdi að mestu neðanjarðar frá megineldstöðinni inn í sprungukerfið til norðurs og suðurs. Kvikuhlaupin tengdust gliðnun á sprungusveiminum, en er fullgliðnað var 1980 tóku við goshrinur, sex að tölu, sem mynduðu hraunbreiðu 35 ferkílómetra að flatarmáli og 0,25 rúmkílómetra að magni. Lengd gossprungu var um 11 kílómetrar.
Meðal margra merkra lærdóma sem Kröflueldar opinberuðu er sá, að enda þótt rek skorpuflekanna sé stöðugt – Bjargtangar fjarlægjast Gerpi um 2 sentimetra á ári – þá er gliðnunin um hvert eldstöðvakerfi lotukennd. Þannig má ætla að lítil eða engin hreyfing hafi orðið í Kröflukerfinu þau 250 ár sem liðu milli Mývatns- og Kröfuelda, en síðan gliðnað um að minnsta kosti 5 metra í Kröflueldum.
Til að svara spurningunni beint, þá hefur sennilega gosið tvisvar í Kröflu síðan land byggðist. Sé litið á hvorn „eldanna“ tveggja sem eitt gos, þá voru þeir mjög jafnstórir. Hins vegar kann að vera að síðasta hrinan í Mývatnseldum (1729) hafi verið stærst, en hún sendi hraun alla leið niður í Mývatn.
Heimild og mynd:
Kristján Sæmundsson (1991). Jarðfræði Kröflukerfisins. Bls. 25-95 í Náttúra Mývatns, ritstj. Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson. Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík 1991.
Sigurður Steinþórsson. „Hversu oft hefur Krafla gosið síðan land byggðist og hvenær varð stærsta gosið í henni?“ Vísindavefurinn, 26. janúar 2012, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56022.
Sigurður Steinþórsson. (2012, 26. janúar). Hversu oft hefur Krafla gosið síðan land byggðist og hvenær varð stærsta gosið í henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56022
Sigurður Steinþórsson. „Hversu oft hefur Krafla gosið síðan land byggðist og hvenær varð stærsta gosið í henni?“ Vísindavefurinn. 26. jan. 2012. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56022>.