Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað hefur Katla gosið oft og hvað er langt á milli gosa?

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Olgeir Sigmarsson

Kötlugos á sögulegum tíma eru um 20 talsins að frátöldu Eldgjárgosinu á tíundu öld. Miðað er við gos sem brutust upp úr jöklinum og skildu eftir sig gjóskulag í jarðvegi í nágrenni Mýrdalsjökuls. Hugsanlegt er að lítil gos sem ekki náðu að brjótast upp úr jökli hafi orðið öðru hverju milli stærri gosanna, síðast í júní 1955, júlí 1999 og júlí 2011. Í öllum gosum á sögulegum tíma var kvikan sem upp kom basalt, en smávægilegt magn af súrri kviku kemur stundum upp með því, til dæmis í Eldgjárgosinu.[1] Lega gosstöðva í Kötlugosum síðustu alda er þekkt af miðum og lýsingum.[2] Ekki er vitað um lengd gossprungna, en hún gæti verið fáeinir kílómetrar.

Magn gjósku í Kötlugosum er mjög breytilegt. Stærstu gjóskulög á sögulegum tíma eru af stærðarþrepi einn rúmkílómetri (nýfallin gjóska), en smæstu gjóskulög eru hundraðfalt minni eða um 0,01 rúmkílómetri. Gjóskufallssvæði á landi fer að hluta eftir stærð gosanna, en vindáttir og lengd gosa ráða einnig miklu um dreifingu. Hluti gosefna í Kötlugosum flyst með bræðsluvatni. Magn loftborinnar gjósku segir því aðeins til um lágmarksstærð gosanna.

Katla.

Lengd Kötlugosa hefur verið frá tveimur vikum í meira en fimm mánuði. Meðallengd goshléa frá 1500 til 1918 er 47 ár og mestu frávik 33 og 34 ár. Hléið frá 1918 er orðið 95 ára langt, þegar þetta er ritað. Frá því um 1500 hafa öll Kötlugos hafist á tímabilinu maí-nóvember. Skýring á þessum „árstíðabundna“ gostíma liggur ekki fyrir. Þó má hugsa sér að bræðsluvatn auki þrýsting vatns í holrúmum í bergi undir jöklinum að vori, sumri og hausti og minnki þar með brotþol bergsins, en það gæti skipt sköpum þegar kvika reynir að brjóta sér leið til yfirborðs.[3]

Þegar gossaga Kötlu undanfarin 1200 ár er skoðuð, kemur í ljós að goshlé í kjölfar stórra gosa hafa tilhneigingu til að vera löng í samanburði við hlé eftir lítil eða meðalstór gos.[4] Goshléið eftir 1918 er því ekki óvanalegt, þar eð gosið var með þeim stærri undanfarin þúsund ár. Jafnframt eru vísbendingar um að lega gosstöðva hverju sinni hafi áhrif á hvar næst gýs. Af því leiðir að ef eldvirkni flyst á annað svæði, gos yrði til dæmis við vatnasvið Sólheimajökuls en ekki austan til í öskjunni eins og algengast er, aukast mjög líkur á að næsta gos þar á eftir verði líka ofan Sólheimajökuls. Af þessari hegðun má jafnframt draga þá ályktun að það séu að minnsta kosti 90% líkur á að næsta gos verði í austurhluta Kötluöskjunnar.

Tilvísanir:
  1. ^ Guðrún Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland: Characteristics and environmental impact. Jökull, 49, 1-28.
  2. ^ Magnús Tumi Guðmundsson og Þórdís Högnadóttir, 2001. Gögn um Kötlugosið 1918: Ljósmyndir Kjartans Guðmundssonar úr ferðum á Mýrdalsjökul í júní og september 1919. RH-08 2001. Raunvísindastofnun Háskólans, Reykjavík.
  3. ^ Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2000. Earthquakers in the Mýrdalsjökull area, Iceland, 1978-1985. Jökull,49, 59-73.
  4. ^ Jónas Elíasson og fleiri, 2006. Probabilistic model for eruptions and associated flood events in the Katla caldera, Iceland. Computational Geosciences, 10, 179-200.

Mynd:

Höfundar

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

jarðfræðingur á Raunvísindastofnun Háskólans

Útgáfudagur

2.10.2013

Síðast uppfært

20.4.2020

Spyrjandi

Jóhanna Líf Sigurþórsdóttir, Anna Ólafsdóttir, Helga Thorlacius Finnsdóttir

Tilvísun

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Olgeir Sigmarsson. „Hvað hefur Katla gosið oft og hvað er langt á milli gosa?“ Vísindavefurinn, 2. október 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65703.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Olgeir Sigmarsson. (2013, 2. október). Hvað hefur Katla gosið oft og hvað er langt á milli gosa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65703

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Olgeir Sigmarsson. „Hvað hefur Katla gosið oft og hvað er langt á milli gosa?“ Vísindavefurinn. 2. okt. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65703>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað hefur Katla gosið oft og hvað er langt á milli gosa?
Kötlugos á sögulegum tíma eru um 20 talsins að frátöldu Eldgjárgosinu á tíundu öld. Miðað er við gos sem brutust upp úr jöklinum og skildu eftir sig gjóskulag í jarðvegi í nágrenni Mýrdalsjökuls. Hugsanlegt er að lítil gos sem ekki náðu að brjótast upp úr jökli hafi orðið öðru hverju milli stærri gosanna, síðast í júní 1955, júlí 1999 og júlí 2011. Í öllum gosum á sögulegum tíma var kvikan sem upp kom basalt, en smávægilegt magn af súrri kviku kemur stundum upp með því, til dæmis í Eldgjárgosinu.[1] Lega gosstöðva í Kötlugosum síðustu alda er þekkt af miðum og lýsingum.[2] Ekki er vitað um lengd gossprungna, en hún gæti verið fáeinir kílómetrar.

Magn gjósku í Kötlugosum er mjög breytilegt. Stærstu gjóskulög á sögulegum tíma eru af stærðarþrepi einn rúmkílómetri (nýfallin gjóska), en smæstu gjóskulög eru hundraðfalt minni eða um 0,01 rúmkílómetri. Gjóskufallssvæði á landi fer að hluta eftir stærð gosanna, en vindáttir og lengd gosa ráða einnig miklu um dreifingu. Hluti gosefna í Kötlugosum flyst með bræðsluvatni. Magn loftborinnar gjósku segir því aðeins til um lágmarksstærð gosanna.

Katla.

Lengd Kötlugosa hefur verið frá tveimur vikum í meira en fimm mánuði. Meðallengd goshléa frá 1500 til 1918 er 47 ár og mestu frávik 33 og 34 ár. Hléið frá 1918 er orðið 95 ára langt, þegar þetta er ritað. Frá því um 1500 hafa öll Kötlugos hafist á tímabilinu maí-nóvember. Skýring á þessum „árstíðabundna“ gostíma liggur ekki fyrir. Þó má hugsa sér að bræðsluvatn auki þrýsting vatns í holrúmum í bergi undir jöklinum að vori, sumri og hausti og minnki þar með brotþol bergsins, en það gæti skipt sköpum þegar kvika reynir að brjóta sér leið til yfirborðs.[3]

Þegar gossaga Kötlu undanfarin 1200 ár er skoðuð, kemur í ljós að goshlé í kjölfar stórra gosa hafa tilhneigingu til að vera löng í samanburði við hlé eftir lítil eða meðalstór gos.[4] Goshléið eftir 1918 er því ekki óvanalegt, þar eð gosið var með þeim stærri undanfarin þúsund ár. Jafnframt eru vísbendingar um að lega gosstöðva hverju sinni hafi áhrif á hvar næst gýs. Af því leiðir að ef eldvirkni flyst á annað svæði, gos yrði til dæmis við vatnasvið Sólheimajökuls en ekki austan til í öskjunni eins og algengast er, aukast mjög líkur á að næsta gos þar á eftir verði líka ofan Sólheimajökuls. Af þessari hegðun má jafnframt draga þá ályktun að það séu að minnsta kosti 90% líkur á að næsta gos verði í austurhluta Kötluöskjunnar.

Tilvísanir:
  1. ^ Guðrún Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland: Characteristics and environmental impact. Jökull, 49, 1-28.
  2. ^ Magnús Tumi Guðmundsson og Þórdís Högnadóttir, 2001. Gögn um Kötlugosið 1918: Ljósmyndir Kjartans Guðmundssonar úr ferðum á Mýrdalsjökul í júní og september 1919. RH-08 2001. Raunvísindastofnun Háskólans, Reykjavík.
  3. ^ Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2000. Earthquakers in the Mýrdalsjökull area, Iceland, 1978-1985. Jökull,49, 59-73.
  4. ^ Jónas Elíasson og fleiri, 2006. Probabilistic model for eruptions and associated flood events in the Katla caldera, Iceland. Computational Geosciences, 10, 179-200.

Mynd:

...