Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ofsagt er að sérlega mikil aska (gjóska) hafi myndast í Eyjafjallagosinu 2010 miðað við það sem gerist við gos undir jökli – um 80% af þyngd gosefna var gjóska, 20% hraun og vatnsborin mylsna.1 Hins vegar var askan sérlega fíngerð, með stórt hlutfall örsmárra korna — fimmtungur (20%) af þunga fíngerðu öskunnar voru korn smærri en 1/100 mm í þvermál, en í „venjulegri ösku“ er þetta hlutfall undir 2%.
Sprengigosið í Eyjafjallajökli hófst morguninn 14. apríl 2010 í gíg innan í topp-öskju fjallsins, undir 200-300 metra þykkum ís. Kvikan bræddi ísinn og bræðsluvatn steyptist í jökulhlaupum niður hlíðar fjallsins. Gosstrókurinn, hlaðinn fíngerðri ösku, reis í tæpra 10 km hæð, gegnum veðrahvörfin upp í heiðhvolfið fyrir ofan. Þar ríkja háloftavindar (e. jet-stream) sem báru hina fíngerðu ösku hraðfari langar leiðir.
Eyjafjallajökull 10. maí 2010.
Kvikustreymið var ákafast fyrstu þrjá dagana og á þeim tíma myndaðist fíngerða askan, grá að lit og duftkennd eins og hveiti. Á fjórða degi hafði hægt mjög á gosinu, kvikustreymi minnkaði meira en tífalt jafnframt því sem mestallt bræðsluvatnið hafði runnið burt. Því fylgdi að gerð öskunnar varð „venjuleg“: kornin grófari (0,5 – 5 mm í þvermál), svört og glergljáandi. Efnasamsetning kvikunnar sem myndaði fíngerðu og grófari öskuna var samt nánast hin sama, ísúr (traký-andesít, 57-58% SiO2) og seigfljótandi.
Það voru sprengingar í eldstöðinni á fyrstu dögum gossins sem sköpuðu hina óvenjulega fíngerðu ösku. Ísúr, seigfljótandi kvikan hraðfraus í bræðsluvatni og glerið sem myndaðist sundraðist vegna spennu í efninu. Höggbylgjur frá gufusprengingum ollu því að glerið molnaði enn smærra.2 Svo smágerð mylsna sem berst upp í heiðhvolfið getur svifið í loftinu svo dögum skiptir, enda barst askan frá Eyjafjallajökli alla leið austur til Rússlands og suður til Miðjarðarhafs.
Guðrún Larsen3 hefur lýst því sama í gjóskulögum frá Kötlu: Í mörgum Kötlugjóskulögum er fíngerð aska í neðsta hluta þeirra en þar fyrir ofan er meginlagið úr grófari gjósku. Þetta var túlkað þannig að fíngerða askan hafi myndast í upphafi gossins áður en Kötluhlaup hafði veitt bræðsluvatninu burt að mestu.
Tilvísanir: 1 Magnús Tumi Guðmundsson og 12 aðrir (2012): Ash generation and distribution from the April-May 2010 eruption of Eyjafjallajökull, Iceland. Scientific Reports 2: 572. DOI: 10.1038/srep00572. 2 Sigurður R. Gíslason og 12 aðrir (2011): Characterization of Eyjafjallajökull volcanic ash particles and a protocol for rapid risk assessment. Proceedings of the National Academy of Sciences, 108. árg. nr. 18, bls. 7307-7312. 3 Guðrún Larsen (2000): Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland. Jökull 49, 1–28.
Sjá einnig bókina Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og vef Jarðvísindastofnunar.
Mynd:
Sigurður Steinþórsson. „Af hverju myndaðist svona mikil aska í Eyjafjallagosinu 2010?“ Vísindavefurinn, 13. febrúar 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66477.
Sigurður Steinþórsson. (2014, 13. febrúar). Af hverju myndaðist svona mikil aska í Eyjafjallagosinu 2010? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66477
Sigurður Steinþórsson. „Af hverju myndaðist svona mikil aska í Eyjafjallagosinu 2010?“ Vísindavefurinn. 13. feb. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66477>.