Veðrahvolf (e. troposphere) Innsta lag lofthjúpsins byrjar við yfirborð jarðar og nær 9 km hæð við pólsvæði jarðar en 12 km hæð við miðbauginn. Innan þessa hvolfs dregur jafnt og þétt úr hitastigi með aukinni hæð, frá 18°C meðaltali við yfirborðið niður í -55°C við veðrahvörfin (e. tropopause), efri mörk þess. Hitinn frá sólinni hitar yfirborðið sem geislar hitanum aftur frá sér. Hlýnun loftmassans dregur úr þéttleikanum svo loftið rís. Þegar loftmassi rís, minnkar þrýstingurinn svo loftið þenst út og kólnar. Á sama tíma og hlýja loftið rís sekkur kaldara loft og tekur stað þess. Þetta ferli veldur flestum veðrafyrirbrigðum jarðar og dregur hvolfið nafn sitt af því. Heiðhvolf (e. stratosphere) Heiðhvolfið tekur við af veðrahvolfinu við veðrahvörfin og teygir sig úr um 10 km hæð upp í tæplega 50 km hæð. Í þessu hvolfi helst hitastigið um það bil jafnt um tíu km vegalengd en hækkar svo hægt og rólega og nær mest um 0°C við heiðhvörfin (e. stratopause), efri mörk heiðhvolfsins. Heiðhvolfið er svo nefnt vegna þess að í því eru engir iðustraumar og það er frekar stöðugt. Heiðhvolfið blandast ekki við veðrahvolfið undir vegna þess að það liggur ofan á kaldara og þéttara lofti. Mestur hluti ósonsins í lofthjúpnum er að finna í 15 til 30 km hæð innan heiðhvolfsins. Hækkandi hitastig heiðhvolfsins má rekja til þess að óson gleypir í sig geislun sólar. Miðhvolf (e. mesosphere) Miðhvolfið tekur við af heiðhvolfinu við heiðhvörfin og teygir sig úr 50 km hæð upp í 85 km hæð. Í þessu hvolfi dregur úr hitastigi með aukinni hæð, það er við frostmark við heiðhvörfin en hefur fallið niður í -85 við miðhvörfin (e. mesopause), efri mörk miðhvolfsins. Miðhvolfið gleypir ekki mikið af sólargeisluninni í sig og kólnar þar af leiðandi. Flestir loftsteinar brenna upp í miðhvolfinu. Hitahvolf (e. thermosphere) Hitahvolfið tekur við að miðhvolfinu við miðhvörfin og teygir sig úr 85 km hæð upp í yfir 640 km hæð við hitahvörfin (e. thermopause). Í þessu hvolfi hækkar hitastigið aftur með aukinni hæð vegna þess að gastegundir innan þess gleypa í sig sólarorku. Í hitahvolfinu er hins vegar svo lítið af lofti að jafnvel þótt þar sé nokkuð hár hiti inniheldur loftið mjög lítinn varma (hitastig ræðst af hreyfiorku sameinda og er ekki það sama og varmi; hreyfiorka sameinda í hitahvolfinu er mikil og hitastigið því hátt en þar sem loftið er svo þunnt myndi til dæmis geimfari í geimgöngu í 300 km hæð ekki finna fyrir neinum hita). Efnasamsetning lofthjúpsins breytist einnig með hæð. Mest er um þyngstu sameindirnar neðst í lofthjúpnum en mest um léttustu sameindirnar í efstu lögunum. Þannig er nitur mest við yfirborðið, þá súrefni, svo helín og efst er mest um vetni, léttasta atómið. Enn eru ónefnd tvö hvolf, jónahvolfið og úthvolfið: Jónahvolfið (e. ionosphere) Innri mörk jónahvolfsins hefjast í 60 km hæð og nær það 400 km hæð og inniheldur þar með stærstan hluta miðhvolfsins og lægri hluta hitahvolfsins. Nafn jónahvolfsins er dregið af því að í þessu hvolfi slítur sólarorkan rafeindirnar af nitur- og súrefnisatómum og breytir þeim í jákvætt hlaðnar jónir. Jónahvolfið leikur afar mikilvægt hlutverk í samskiptum jarðarbúa þar sem það verkar eins og spegill sem endurvarpar útvarpssendingum og gerir okkur kleift að tala saman yfir langar vegalengdir. Í jónahvolfinu myndast einnig eitt stórkostlegasta fyrirbæri lofthjúpsins, norðurljósin. Norðurljósin verða til þegar hlaðnar agnir (róteindir og rafeindir) frá sólinni ná til jarðar og rekast á jónir jónahvolfsins. Við árekstrana losnar orka sem við sjáum sem stórglæsilega ljósasýningu. Úthvolfið (e. exosphere) Úthvolfið teygir sig úr 500 km hæð upp í 10.000 km hæð. Í úthvolfinu eru mestmegnis vetnisatóm en einnig helín, koltívoxíð og súrefnisatóm við neðri mörk þess. Í úthvolfinu losna atóm frá lofthjúpi jarðar og streyma út í geiminn. Úthvolfið er seinasta lag lofthjúpsins áður en milligeimurinn tekur við. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju er ekki lofthjúpur utan um allar plánetur? eftir ÞV
- Er loftslag á jörðinni að breytast og af hverju? eftir Halldór Björnsson
- Af hverju er himinninn blár? eftir Ara Ólafsson
- Hvað veldur gróðurhúsaáhrifum? eftir Jón Má Halldórsson
- Af hverju er ekki lofthjúpur á Merkúríusi? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Ögmund Jónsson
- Hvernig er lofthjúpur Mars? Er veður þar? eftir Ögmund Jónsson
- Hvað gerir lofthjúpurinn eða til hvers er hann?
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um lofthjúpinn á Stjörnufræðivefnum og birt hér með góðfúslegu leyfi.