- Hvað eru gróðurhúsaáhrif og hvernig virka þau?
- Af hverju eru loftslagsbreytingar nefndar gróðurhúsaáhrif ef þær eru ekki af völdum gróðurhúsa?
Geislar sólar sem ná yfirborði jarðar eru ljós og önnur rafsegulgeislun með stuttri bylgjulengd. Orka þeirra vermir jörðina og sendir þá jörðin frá sér sem varmageislun með talsvert meiri bylgjulengd en upphaflega ljósið. Aðeins brot af síðarnefndu geislunum berst þó út fyrir lofthjúpinn; meirihluti þeirra er fangaður af sameindum í andrúmsloftinu sem við nefnum í daglegu tali gróðurhúsalofttegundir. Geislunin frá yfirborði jarðar hitar sameindir þessara efna í lofthjúpnum og þær endurkasta hitageislum í allar áttir. Allt að 90% þessara geisla berast aftur til jarðar, hita hana og kastast svo aftur út í loftið. Þannig gengur þetta fyrir sig aftur og aftur. Því má segja að lofttegundirnar virki eins og gróðurhús þar sem þær halda varmanum innan lofthjúpsins svipað og loft og gler í gróðurhúsi heldur varmanum inni þó að húsið sé ef til vill ekki hitað upp sérstaklega.
Aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti hækkar hita lofthjúpsins þar sem fleiri agnir eru til þess að gleypa í sig geislana og endurkasta þeim. Þetta getur haft slæmar afleiðingar fyrir lífríki jarðar. Þó má ekki gleyma því að gróðurhúsaáhrif eru náttúrulegt fyrirbæri í lofthjúpi jarðar og ef þeirra nyti ekki við væri allt að 33 °C kaldara á jörðinni. Meðalhiti jarðar væri þá allt að -18 °C en ekki +15 °C eins og nú er. Því leika gróðurhúsalofttegundir lykilhlutverk í því hversu lífvænlegt er á jörðinni.
Efni | 1750 | Í dag | Hlutfallsleg auking |
---|---|---|---|
Koltvíoxíð | 280 ppm | 360 ppm | 29% |
Metan | 0,70 ppm | 1,70 ppm | 143% |
Nituroxíð | 280 ppt | 310 ppt | 11% |
Halógen-kolefnasambönd | 0 ppt | 900 ppt | - |
Óson | Óþekkt | Breytilegt eftir hæð og breiddar- gráðum | Óson hefur minnkað í efstu lögum andrúmsloftsins en aukist nær jörðu |
- Hvaða áhrif hefur hnattræn hlýnun á lífríki sjávar? eftir Óskar Sindra Gíslason og Halldór Pálmar Halldórsson
- Hocking, C., Sneider, C., Erickson, J. og Golden, R. 1992. Global Warming and the Greenhouse Effect. Great Explorations in Math and Science (GEMS) series. Berkeley, California: Lawrence Hall of Science.
- Living Landscapes
- Solar Energy Atmospheric Cascade á Living Landscapes
- Greenhouse Effect á Living Landscapes