Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hnattræn hlýnun er sú hækkun á meðalhitastigi sem mæld hefur verið á jörðinni síðan mælingar hófust. Frá iðnvæðingunni sem hófst um 1750 hefur magn gróðurhúsalofttegunda (koltvíildis, einnig nefnt koltvísýringur og koldíoxíð, metans, ósons, kolflúorkolefna) aukist gríðarlega í andrúmsloftinu. Sameindir þeirra drekka í sig innrauða geislun frá jörðu og ná þannig að hita upp lofthjúpinn. Hækkandi lofthiti hefur áhrif á eðliseiginleika sjávar. Þegar lofthiti hækkar minnkar þéttni vatns og það skilst frá næringarríkum botnlögum. Þetta er grundvöllur fyrir keðjuverkun sem hefur áhrif á allar sjávarlífverur sem treysta á þessi næringarefni til að lifa af.
Tveir eðliseiginleikar hnattrænnar hlýnunar sem hafa ætti í huga og hafa grundvallaráhrif á stofna sjávarlífvera eru:
Breytingar á náttúrulegum búsvæðum og fæðu
Breytingar á efnafræðilegum eiginleikum sjávar
Breytingar á náttúrulegum búsvæðum og fæðu:Plöntusvif kallast einfruma svifþörungar sem finnast aðallega í efstu lögum sjávar þar sem sólarljóss gætir. Svifþörungar eru frumbjarga lífverur sem nýta sér sólarorku og ólífræn efni til vaxtar og viðgangs. Ljóstillífun er ferli sem fjarlægir koltvíildi úr andrúmsloftinu og breytir því í lífrænt kolefni og súrefni. Samkvæmt nýlegri rannsókn NASA er plöntusvif líklegra til að þrífast á kaldari hafsvæðum. Hlýnunin hefur það í för með sér að næringarefnaríkur djúpsjór nær ekki að blandast í yfirborðslögin sem verður til þess að framleiðni sjávar minnkar.
Plöntusvif kallast einfruma svifþörungar sem finnast aðallega í efstu lögum sjávar þar sem sólarljóss gætir.
Jafnvægi ljóss og hitastigs er mikilvægt fyrir fjölda plantna og dýra í sjónum. Hitastigsháðar lífverur eins og svifþörungar hefja sína árstíðabundnu vaxtarferla fyrr en áður vegna hækkaðs hitastigs. Ljósháðar lífverur hefja sinn feril á svipuðum tíma. Þar sem svifþörungablóminn verður snemma hefur það áhrif á alla fæðukeðjuna. Dýr sem áður leituðu til yfirborðs í fæðuleit grípa í tómt og ljósháðar lífverur eru nú farnar að hefja sinn vaxtarferil á öðrum tímum. Þetta skapar ójafnvægi í náttúrulegum ferlum.
Hlýnun sjávar getur líka leitt til fars lífvera. Hitaþolnar lífverur eins og ýmis krabbadýr munu breiðast út norðar á meðan tegundir sem ekki eru eins hitaþolnar, svo sem samlokur og ýmsar fisktegundir munu hörfa norðar. Þetta mun leiða til nýrra samfélagsmynda og breytinga á afráni og lífverur sem ekki aðlagast nýjum aðstæðum munu deyja út. Sjávarvistkerfi við Ísland virðast til dæmis vera mjög viðkvæm fyrir haffræðilegum breytingum. Frá árinu 1996 hefur orðið vart við hlýnun og aukna seltu sjávar hér við land og hafa þessar breytingar haft áhrif á lífverur við landið, sem sést til dæmis á breyttri útbreiðslu ýmissa fisktegunda. Hánorrænar tegundir eins og loðna hafa leitað norðar auk þess sem suðrænar tegundir eins og ýsa, kolmunni, ufsi, síld og skötuselur, sem bundnar hafa verið við suður- og suðvesturströndina, hafa fundist í auknum mæli við norðan- og norðaustanvert landið.
Hnattræn hlýnun er nú þegar farin að hafa áhrif á stofnstærðir mörgæsa á Suðurskautslandinu.
Það verður þó trúlega á heimskautunum sem áþreifanlegustu áhrifin á lífríkið verða sökum hnattrænnar hlýnunar. Á heimskautunum er ísinn hið eiginlega búsvæði sjávarspendýra og fugla. Eftir því sem ísbreiðan minnkar verður erfiðara fyrir lífverur að afla sér fæðu og nú þegar eru stofnar mörgæsa og átusela á Suðurskautslandinu farnir að minnka á sumum svæðum.
Breytingar á efnafræðilegum eiginleikum sjávar:
Áhrif upptöku sjávar á koltvíildi úr andrúmslofti hefur miklar efnafræðilegar breytingar í för með sér. Aukinn styrkur koltvíildis í sjónum veldur súrnun hans sem getur haft ýmis áhrif á lífeðlisfræðileg ferli lífvera. Dýr og þörungar sem mynda kalk eru í mestri hættu vegna þess hve kalkmettun sjávar er nátengd sýrustigi. Mikill fjöldi tegunda í hafinu myndar kalk og koma kalkframleiðandi lífverur við sögu í flestum fæðukeðjum ásamt því að byggja upp búsvæði fyrir fjölda annarra lífvera. Má þar helst nefna kóralrif og rauðþörungabreiður. Súrnun mun hægja á vexti kóralla og valda því að stoðgrind þeirra veikist til muna. Hækkandi sjávarhiti er einnig talinn ein helsta ástæða fyrir bleikingu kóralla (e. coral bleaching). Bleiking kóralla orsakast af streituástandi, til dæmis af völdum hitastigsbreytinga, og leiðir til þess að sambýli (e. symbiotic) kórals og ljóstillífandi þörunga (Zooxanthellae), sem sjá honum fyrir orku til vaxtar og viðheldur lit hans, rofnar. Þegar þetta samband rofnar og kórallarnir deyja hefur það gríðarmikil áhrif á aðrar lífverur því kóralrifin eru búsvæði og uppeldisstöðvar fjölda tegunda.
Heimildir:
Ólafur S. Ástþórsson (2008). Þættir úr vistfræði sjávar 2007 - Veðurfar og lífríki sjávar á Íslandsmiðum. Hafrannsóknastofnun: Fjölrit nr. 139, bls. 29-35.
Ólafur S. Ástþórsson, Ástþór Gíslason & Steingrímur Jónsson (2007). Climate variability and the Icelandic marine ecosystem. Deep Sea Research Part II: Topical Studies in Oceanography, 54, 2456-2477.
Ólafur S. Ástþórsson & Jónbjörn Pálsson (2006). New fish records and records of rare southern fish species in Icelandic waters in the warm period 1996-2005. ICES C.M. 2006/C20.
Lilja Stefánsdóttir (2008). Groundfish species diversity and assemblage structure in Icelandic waters during a period of rapid warming (1996-2007). Research project for the degree of MSc. University of Iceland.
Óskar Sindri Gíslason og Halldór Pálmar Halldórsson. „Hvaða áhrif hefur hnattræn hlýnun á lífríki sjávar?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2011, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=49221.
Óskar Sindri Gíslason og Halldór Pálmar Halldórsson. (2011, 6. júní). Hvaða áhrif hefur hnattræn hlýnun á lífríki sjávar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=49221
Óskar Sindri Gíslason og Halldór Pálmar Halldórsson. „Hvaða áhrif hefur hnattræn hlýnun á lífríki sjávar?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2011. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=49221>.