Skötuselur (Lophus piscatorius) er beinfiskur og hefur fundist á um 1.800 metra dýpi. Hann heldur sig á sendnum eða grýttum botni þar sem hann felur sig í þaragróðri eða í botninum sjálfum og lúrir þar eftir bráð. Hann notar einskonar fálmara ofan á höfðinu sem veiðistöng og lokkar til sín bráðina. Á matseðli skötusels eru flestar gerðir botn- og flatfiska, krabbadýr og stærri hryggleysingjar. Einnig er þekkt að kafandi fuglar lendi stundum í kjafti hans. Skötuselur getur orðið allt að 200 cm langur en stærsti skötuselurinn, sem vitað er til að veiðst hafi við Ísland, var 134 cm og veiddist hann á Öræfagrunni 1996. Skötuselur er mjög hausstór og kjaftvíður og nær neðri kjálkinn fram fyrir þann efri. Kjafturinn er alsettur þéttstæðum og afar hvössum tönnum sem vísa allar aftur. Skoltarnir hafa tvær raðir af tönnum en gómbein og plógbein hafa eina. Þessi ógnvekjandi skoltur og frábær felulitur skötuselsins, sem tekur breytingum eftir botnlagi, gera hann að miklu vígatóli og engin bráð sleppur frá honum, nái hann á annað borð að læsa skoltunum um hana.
Um stærð tanna skötuselsins er það að segja að þær eru stórar og margar, egghvassar og ógnvekjandi og fara stækkandi með stærð fisksins. En kannski segja góðar myndir meira en þúsund orð. Heimildir og myndir:
- Karl Gunnarsson og fleiri. 1998. Sjávarnytjar við Ísland. Reykjavík, Mál og menning
- Fish-view.imr.no
- Björns Havsfiskesida