Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á 16.-18. öld voru ýmis samfélög á stigi foriðnvæðingar (e. proto-industrialization) sem einkenndist af fólksfjölgun og aukinni handverksgerð í sveitum. Þar sem markaðsviðskipti bænda fóru vaxandi án þess að tekjur þeirra ykjust á sama tíma er einnig stundum rætt um iðjusemisbyltingu (e. industrious revolution). Þessi þróun átti sér stað víða í Vestur-Evrópu en einnig í Austur-Asíu í ýmsum héruðum Kína og Japan.
Umdeilt er hvort þessi þensla hafi beinlínis orsakað iðnbyltinguna sem hófst í lok 18. aldar. Á sínum tíma höfðu hagfræðingar, svo sem Adam Smith (1723-1790) og Thomas Malthus (1766-1834), áhyggjur af fólksfjölgun sem þeir töldu að leiddi til minnkandi tekna. Einnig töldu sumir, til dæmis David Ricardo (1772-1823), að náttúruauðlindir stæðu ekki undir aukinni fólksfjölgun. Þessar hugmyndir voru hreint ekki svo fráleitar. Á sumum stöðum, til að mynda í Kína, Japan og hluta Evrópu, fylgdi ekki iðnbylting þessari þróun heldur fremur efnahags- og vistkreppa. Eldsneyti varð stöðugt dýrara, skógum fækkaði og framleiðni í landbúnaði stóð ekki undir örri fólksfjölgun. Annars staðar bjargaði iðnbyltingin samfélögum úr yfirvofandi vistkreppu, ekki síst á Englandi.
Helsta einkenni iðnbyltingarinnar var vélvæðing sem gerði mönnum kleift að stækka framleiðslueiningar og stunda verksmiðjurekstur. Verksmiðjureksturinn bauð svo upp á þéttbýlismyndun sem skapaði bæði ný tækifæri og ný vandamál fyrir næstu kynslóðir. Sum vélvæðing, til dæmis járnbrautakerfið, varð þó ekki fyrr en iðnbyltingin var vel á veg komin.
Sú uppfinning sem nýttist einna best á fyrstu stigum iðnvæðingar var gufuvélin. Gufuvélar höfðu verið alllangan tíma í þróun en tóku stakkaskiptum eftir að Skotinn James Watt (1736-1819) fann upp gufuþéttinn. Með honum var unnt að smíða hagkvæmari og öflugri gufuvélar og var fyrsta verksmiðjan sem framleiddi þær stofnuð 1774.
Ástæðan fyrir því að iðnbyltingin varð í Englandi, en ekki í Frakklandi eða Niðurlöndum, Japan eða Kína, var að hluta til sú að náttúrulegar aðstæður voru hagstæðar. Til voru miklar birgðir af kolum sem hægt var að nota til að knýja hinar nýju gufuvélar. Án aðgangs að kolanámum hefði sú uppfinning ekki skilað jafnmiklum og hröðum efnahagslegum ávinningi eða náð jafnhraðri útbreiðslu. Eitt af fyrstu verkunum sem gufuvélar voru notaðar til að vinna var einmitt að dæla vatni úr kolanámum og var það meðal annars mikilvægi gufuvélarinnar á því sviði sem kallaði á endurbætur á vélinni. Á sumum öðrum svæðum sem höfðu þróast í sömu átt, til dæmis Norður-Kína, voru einnig til miklar kolanámur en þær voru fjarri þeim héruðum sem voru lengst komin á sviði iðnaðar- og markaðsviðskipta.
Evrópumenn nutu einnig góðs af því að þeir réðu yfir nýlendum í Ameríku. Frá Ameríku mátti fá ódýr hráefni og landbúnaðarvörur og þar var bæði nægt framboð af landi og ódýru eða beinlínis þrælkuðu vinnuafli. Með auknum innflutningi frá Ameríku gat vinnuafl sem áður hafði sinnt frumframleiðslu ýmiss konar vara nú snúið sér að hinum nýja atvinnuvegi, verksmiðjuiðnaðinum.
Heimildir og mynd
Fernand Braudel, Civilisation matérielle et capitalisme: XVe-XVIIIe siècle, París, 1967.
Eric Hobsbawm, The age of revolution: Europe 1789-1848, London, 1962.
Franklin Mendels, „Proto-industrialization: The first phase of the industrialization process“, Journal of Economic History, 32:1 (1972), 241-61.
Kenneth Pomeranz, The great divergence: China, Europe, and the making of the modern world economy, Princeton, New Jersey, 2000.
Jan de Vries, „The industrial revolution and the industrious revolution“, Journal of Economic History, 54:2 (1994), 249-70.
R. Bin Wong, China transformed: Historical change and the limits of European experience, Ithaca & London, 1997.
E. A. Wrigley, Continuity, chance and change: The character of the industrial revolution in England, Cambridge, 1988.
Sverrir Jakobsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um iðnbyltinguna?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5385.
Sverrir Jakobsson. (2005, 7. nóvember). Getið þið sagt mér eitthvað um iðnbyltinguna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5385
Sverrir Jakobsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um iðnbyltinguna?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5385>.