Þetta kom í ljós í rannsókn sem gerð var á vegum Hafrannsóknastofnunar á fyrri hluta 9. áratugar síðustu aldar. Rannsökuð var fæða ýsu og annarra botnfiska og reyndust ýmis botndýr vera undirstaðan í fæðu ýsunnar: burstaormar (Polychaeta) og skrápdýr (Echinodermata), þá aðallega slöngustjörnur (Ophiuroidea). Hlutur skrápdýra vex jafnt og þétt eftir því sem ýsan verður stærri og meðal stærstu fiskanna er hlutfall skrápdýra um 40% af lífþyngd. Önnur botndýr sem ýsan sækir í, eru meðal annars pungrækjur (Cumacea), stórkrabbar (Malacostraca), kuðungakrabbar (Paguridae), samlokur (Bivalvia) og marflær (Amphipoda) Hjá minnstu einstaklingunum er dýrasvif hins vegar mikilvæg uppistaða í fæðunni enda heldur ýsan sig í uppsjónum fyrstu mánuði lífs síns en leitar síðan niður á botninn. Hjá stærstu ýsunum eru sunddýr stór hluti fæðunnar, þá sérstaklega smáir fiskar eins og loðna. Heimildir og mynd:
- Einar Jónsson. 1993. Ýsa. Af vef Hafrannsóknastofnunar
- Gunnar Jónsson. 1992. Íslenskir fiskar. Fjölvi
- Ólafur Karvel Pálsson. 1985. „Fæða botnlægra fiska við Ísland“. Náttúrufræðingurinn 55:101-118
- Aquaculture Network Information Center
Nálgast má fleiri svör um ýsur á Vísindavefnum með því að smella á efnisorðin neðst í svarinu.