Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Síðan 1970 hefur Hekla gosið á 10 ára fresti og hafa gosin verið lítil miðað við fyrri gos. Ég tel mig hafa lesið einhvers staðar að það gæti hafa myndast lítið kvikuhólf fyrir ofan gamla kvikuhólfið í Heklu. Ef þetta er rétt, hversu miklar líkur eru á því að gosið gæti úr gamla kvikuhólfinu og hversu stórt gæti það orðið?
Hekla er ein af öflugustu megineldstöðvum Íslands, í flokki með Kötlu, Grímsvötnum og Bárðarbungu. Sameiginlegt öllum þessum eldstöðvum er að gos úr þeim geta verið með ýmsu móti, stundum lítil, stundum stór, og stundum gríðarleg. Hegðun eldstöðvanna breytist einnig með tíma. Það liggur í hlutarins eðli því hvert gos breytir eldstöðinni, bæði lögun hennar og aðfærslukerfi, þar með talin kvikuhólf. Milli gosa verða líka breytingar. Kvikuhólf kólna, kristallar verða til, kvikan breytir um efnasamsetningu, þungir kristallar sökkva niður í hólfinu, léttir kristallar fljóta upp, ný kvika kemur inn í hólfið, berg bráðnar umhverfis það, innskot verða til. Margt fleira gerist í þessari efnaverksmiðju sem virkt kvikuhólf er.
Gos úr Heklu geta verið með ýmsu móti, stundum lítil, stundum stór, og stundum gríðarleg.
Nokkurrar reglufestu gætir í hegðun Heklu síðustu árþúsundin. Stór gos hafa orðið einu sinni til tvisvar á öld síðan land byggðist. Stærð þeirra má mæla í rúmkílómetrum (km3) gosefna. Síðasta gos af þessu tagi varð 1947 og mældist rúmmál gosefna um eða rétt undir 1 km3. Síðustu áratugina hafa gosin verið umtalsvert minni en tíðari. Gos urðu 1970, 1980-81, 1991, og 2000. Rúmmál gosefna hefur mælst 0,1-0,2 km3 í hverju þessara gosa.
Við rannsóknir á öskulögum sem orðið hafa til í Heklugosum fyrir landnám kemur í ljós að Hekla á líka til verri og öflugri hlið. Á um tvö þúsund ára fresti gýs hún gríðarlegum gosum og er þá kvika mun „súrari“ en endranær, það er hlutfall kísiloxíðs í kvikunni er hærra en vant er. Þessi kvika er mun sprengivirkari og gosefnin eru ljós á lit. Öskulög frá þessum gosum má finna í jarðvegi víða um land. Síðasta gos af þessu tagi varð 1104 og lagðist þá Þjórsárdalur í auðn. Ekkert bendir til að Hekla hafi breytt svo um hegðun að ekki þurfi að reikna með slíkum gosum í framtíðinni.
Hugmyndir um kvikuhólf undir Heklu hafa verið ýmsar í tímans rás og nokkuð fjölbreytilegar. Í hinum stærri gosum Heklu hafa gosefnin breytt um efnasamsetningu eftir því sem á gosið leið. Fyrsta goshrinan er venjulega súr en síðan dregur úr hlutfalli kísiloxíðs. Þetta hefur þótt öruggt merki um að undir fjallinu sé kvikuhólf þar sem kvikan safnast fyrir milli gosa og hefur tíma til að breyta um samsetningu. Eðlisléttasta efnið safnast fyrir efst í hólfinu og kemur því upp fyrst en þyngra efnið síðar í gosinu. Þetta hólf var framan af talið vera á tiltölulega litlu dýpi, 4-8 km, og byggðist það mat á viðnáms- og aflögunarmælingum. Niðurstöður mælinga voru þó löngum mótsagnakenndar og bar illa saman.
Hugmyndir um kvikuhólf undir Heklu hafa verið ýmsar í tímans rás og nokkuð fjölbreytilegar.
Á síðasta áratug hafa þó orðið framfarir í mælitækni og eru hugmyndir um kvikuhólf Heklu mjög að skýrast. Flest bendir nú til þess að kvikuhólf Heklu sé á tiltölulega miklu dýpi, 14-20 km. Fyrstu vísbendingar um þetta komu úr skjálftamælingum. Skjálftabylgjur sem fara undir fjallið eru ótruflaðar niður á að minnsta kosti 14 km dýpi. Sérstakleg er athyglisvert að S-bylgjur verða ekki varar við neitt óeðlilegt, en þær komast ekki í gegnum efni í fljótandi formi.
Ratsjármælingar úr gervitunglum, InSAR-mælingar, gefa góða mynd af aflögun jarðskorpunnar í kringum fjallið. Þær sýna að aflögun sem fylgir kvikusöfnun undir fjallinu milli gosa dreifist yfir stórt svæði. Það gefur til kynna mikið dýpi niður á kvikusöfnunarsvæðið. Einnig sýna þær að svæðið næst fjallinu sígur þótt aðrir hlutar rísi og bendir lögun sigsins til þess að það stafi af fargi nýju hraunanna. Þetta flókna aflögunarsvið er líklega ástæða þess að fyrri mælingar voru svo mótsagnakenndar.
Þó telja verði líklegt að síðustu gos hafi fengið fóður sitt úr djúpstæðu kvikuhólfi þá er engan veginn víst að sama eigi við um stærri gosin. Sérstaklega er óvissa um þau ferli sem leiða til stóru súru gosanna á fyrri tíð. Hekla á eftir að verða vísindamönnum drjúgt rannsóknarefni því margt er enn á huldu um virkni hennar. Mælitækni fleygir fram og býður upp á nýjar rannsóknaraðferðir. Sú mynd sem við höfum af Heklu núna á örugglega eftir að breytast, þar með talin kvikuhólf, fjöldi þeirra, stærð og staðsetning.
Myndir:
Páll Einarsson. „Hefur myndast lítið kvikuhólf fyrir ofan gamla kvikuhólfið í Heklu?“ Vísindavefurinn, 9. október 2015, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67898.
Páll Einarsson. (2015, 9. október). Hefur myndast lítið kvikuhólf fyrir ofan gamla kvikuhólfið í Heklu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67898
Páll Einarsson. „Hefur myndast lítið kvikuhólf fyrir ofan gamla kvikuhólfið í Heklu?“ Vísindavefurinn. 9. okt. 2015. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67898>.