Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær voru jarðskjálftamælar fundnir upp og hvenær komu þeir fyrst til Íslands?

Júlíus Sólnes

Fyrstu raunverulegu jarðskjálftamælarnir komu til sögunnar undir lok nítjándu aldar og ollu þeir byltingu í túlkun manna og mati á jarðskjálftahreyfingum.

Luigi Palmieri (1807-1896) var ítalskur veðurfræðingur og eðlisfræðingur, en upphaflega menntaður sem arkitekt. Honum tókst að smíða nothæfan jarðskjálftamæli á grunni rafsegulfræðinnar, og var honum komið fyrir nálægt Vesúvíusi. Þannig tókst að nema jarðskjálftahreyfingar, en þær upplýsingar vildi hann nota til þess að segja fyrir um eldgos í fjallinu. Áður hafði skoski eðlisfræðingurinn James D. Forbes (1809-1868) fengist við að smíða nothæfan jarðskjálftamæli sem byggðist á pendúlhreyfingu. Filippo Cecchi (1822-1887), ítalskur eðlisfræðingur í Flórens, nýtti sér þessar hugmyndir samtímamanna sinna. Tókst honum að smíða fyrsta eiginlega jarðskjálftamælinn (1875) sem gat sýnt bylgjuhreyfinguna sem fall af tíma.

Frumkvöðlar í smíði jarðskjálftamæla Luigi Palmieri (1807-1896), James D. Forbes (1809-1868) og Filippo Cecchi (1822-1887).

Miklar framfarir í smíði jarðskjálftamæla urðu svo í Tókjó undir handarjaðri bresku vísindamannanna Johns Milne (1850-1913), James Alfred Ewing (1855-1935) og Thomas Lomar Grey (1850-1908) sem allir störfuðu um skeið við Keisaralega háskólann í borginni. Þannig náðust allgóðar mælingar af jarðskjálftahreyfingum í Japan árið 1880. Í Þýskalandi tókst Ernes von Rebeur-Paschwitz (1861-1895) að smíða pendúlmælitæki sem gat numið jarðskjálftabylgjur og myndað þær á ljósfilmur, og rússneski furstinn Boris B. Galitzin (1862-1916) smíðaði fyrsta eiginlega rafseguljarðskjálftamælinn 1906.

Rebeur-Paschwitz leitaði fulltingis Georgs Gerland (1833-1919), sem var bæði tónlistarmaður og menntaður mál- og mannfræðingur, búsettur í Strassborg, en hafði tekið við nýstofnaðri kennarastöðu í landafræði við háskólann þar. Studdur meðal annars af John Milne og fleiri jarðskjálftafræðingum, vildi Rebeur-Paschwitz koma á samræmdu neti jarðskjálftamæla og samstarfi jarðskjálftafræðinga um allan heim. Tillaga hans var samþykkt á þingi jarðvísindamanna í London 1895, en Gerland bar hana fram fyrir hönd Rebeur-Paschwitz sem hafði látist úr berklum skömmu áður, aðeins 34 ára að aldri. Áhugi Gerlands á jarðskjálftafræði og atorkusemi hans var óþrjótandi. Hann gekkst fyrir fyrstu ráðstefnu jarðskjálftafræðinga í Strassborg 1901 og stofnaði Alþjóðlega jarðskjálftavísindafélagið (ISA) árið 1905, með aðsetri í Strassborg sem þá var þýsk borg. Hún varð þannig miðstöð jarðskjálftafræðiathugana í Evrópu. Um aldamótin 1900 var svo farið að setja upp jarðskjálftamæla víðs vegar um heim, og mælingar á stórum jarðskjálftum fóru að safnast saman, meðal annars eftir San Francisco-jarðskjálftann 1906.

Þýski jarðskjálftafræðingurinn Carl Mainka (1873-1943) smíðaði léttan og tiltölulega fyrirferðalítinn jarðskjálftamæli sem hentaði vel. Slíkur mælir fékkst til Íslands árið 1909 og var settur upp í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hafði Páll Halldórsson skólastjóri umsjón með honum, en mæliblöðin voru send til Strassborgar til frekari úrvinnslu. Þannig náðust góðar mælingar á Suðurlandsskjálftanum 1912. Erfiðlega gekk þó að koma á reglubundnum jarðskjálftamælingum á Íslandi, þar sem fjárveitingar voru knappar og lítill skilningur stjórnvalda á slíkri þörf. Það var ekki fyrr en Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri fékk nýjan jarðskjálftamæli 1925, að mælingar, sem þá höfðu legið niðri um alllangan tíma, hófust á nýjan leik. Eysteinn Tryggvason jarðskjálftafræðingur var fyrsti íslenski fræðimaðurinn sem helgaði sig jarðskjálftarannsóknum. Hann starfaði bæði við Veðurstofu Íslands, í Bandaríkjunum og síðar við verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Í hverjum mánuði eru staðsettir hundruðir og jafnvel þúsundir jarðskjálfta á Íslandi með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Þetta kort sýnir upptök jarðskjálfta á Íslandi í október 2012 en þá voru skráðir rúmlega 2000 skjálftar. Rauðir hringir tákna jarðskjálfta stærri en 0 að stærð. Á kortinu eru einnig sýnd eldstöðvakerfi (Páll Einarsson og Kristján Sæmundsson, 1987).

Gífurlegar framfarir hafa orðið í smíði og gerð jarðskjálftamælitækja, og hafa Íslendingar notið góðs af því. Nú má segja að hver hósti og stuna sem geta valdið smávægilegum titringi í jörðu, séu dyggilega skráð í mælitækjum sem senda síðan þráðlaus merki til rannsóknamiðstöðva í jarðskjálftafræðum um allan heim. Þrjár stofnanir annast slíkar mælingar á Íslandi. Jarðeðlisfræðideild Veðurstofunnar fylgist grannt með öllum jarðskjálftum sem verða á Íslandi og rekur þéttriðið net mæla um allt land. Starfsmenn hennar, lengst af undir forystu Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings, hafa meðal annars staðið að umfangsmiklum mælingum á Suðurlandi í samstarfi við ýmsar evrópskar jarðskjálftastofnanir. Á vegum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands hefur einnig verið rekið net skjálftamæla og lögð áhersla á þráðlaus samskipti við þá. Í seinni tíð hefur aðallega verið fengist við mælingar á hálendinu undir stjórn Páls Einarssonar prófessors. Starfsmenn Rannsóknamiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi, með Ragnar Sigurbjörnsson prófessor í fararbroddi, hafa svo komið upp landsneti svokallaðra sterkhröðunarmæla, sem mæla yfirborðshröðun í jarðskjálftanum, enda er hún ein lykilstærð við hönnun mannvirkja á jarðskjálftasvæðum.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Júlíus Sólnes

prófessor emeritus

Útgáfudagur

25.3.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Júlíus Sólnes. „Hvenær voru jarðskjálftamælar fundnir upp og hvenær komu þeir fyrst til Íslands?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64762.

Júlíus Sólnes. (2013, 25. mars). Hvenær voru jarðskjálftamælar fundnir upp og hvenær komu þeir fyrst til Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64762

Júlíus Sólnes. „Hvenær voru jarðskjálftamælar fundnir upp og hvenær komu þeir fyrst til Íslands?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64762>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær voru jarðskjálftamælar fundnir upp og hvenær komu þeir fyrst til Íslands?
Fyrstu raunverulegu jarðskjálftamælarnir komu til sögunnar undir lok nítjándu aldar og ollu þeir byltingu í túlkun manna og mati á jarðskjálftahreyfingum.

Luigi Palmieri (1807-1896) var ítalskur veðurfræðingur og eðlisfræðingur, en upphaflega menntaður sem arkitekt. Honum tókst að smíða nothæfan jarðskjálftamæli á grunni rafsegulfræðinnar, og var honum komið fyrir nálægt Vesúvíusi. Þannig tókst að nema jarðskjálftahreyfingar, en þær upplýsingar vildi hann nota til þess að segja fyrir um eldgos í fjallinu. Áður hafði skoski eðlisfræðingurinn James D. Forbes (1809-1868) fengist við að smíða nothæfan jarðskjálftamæli sem byggðist á pendúlhreyfingu. Filippo Cecchi (1822-1887), ítalskur eðlisfræðingur í Flórens, nýtti sér þessar hugmyndir samtímamanna sinna. Tókst honum að smíða fyrsta eiginlega jarðskjálftamælinn (1875) sem gat sýnt bylgjuhreyfinguna sem fall af tíma.

Frumkvöðlar í smíði jarðskjálftamæla Luigi Palmieri (1807-1896), James D. Forbes (1809-1868) og Filippo Cecchi (1822-1887).

Miklar framfarir í smíði jarðskjálftamæla urðu svo í Tókjó undir handarjaðri bresku vísindamannanna Johns Milne (1850-1913), James Alfred Ewing (1855-1935) og Thomas Lomar Grey (1850-1908) sem allir störfuðu um skeið við Keisaralega háskólann í borginni. Þannig náðust allgóðar mælingar af jarðskjálftahreyfingum í Japan árið 1880. Í Þýskalandi tókst Ernes von Rebeur-Paschwitz (1861-1895) að smíða pendúlmælitæki sem gat numið jarðskjálftabylgjur og myndað þær á ljósfilmur, og rússneski furstinn Boris B. Galitzin (1862-1916) smíðaði fyrsta eiginlega rafseguljarðskjálftamælinn 1906.

Rebeur-Paschwitz leitaði fulltingis Georgs Gerland (1833-1919), sem var bæði tónlistarmaður og menntaður mál- og mannfræðingur, búsettur í Strassborg, en hafði tekið við nýstofnaðri kennarastöðu í landafræði við háskólann þar. Studdur meðal annars af John Milne og fleiri jarðskjálftafræðingum, vildi Rebeur-Paschwitz koma á samræmdu neti jarðskjálftamæla og samstarfi jarðskjálftafræðinga um allan heim. Tillaga hans var samþykkt á þingi jarðvísindamanna í London 1895, en Gerland bar hana fram fyrir hönd Rebeur-Paschwitz sem hafði látist úr berklum skömmu áður, aðeins 34 ára að aldri. Áhugi Gerlands á jarðskjálftafræði og atorkusemi hans var óþrjótandi. Hann gekkst fyrir fyrstu ráðstefnu jarðskjálftafræðinga í Strassborg 1901 og stofnaði Alþjóðlega jarðskjálftavísindafélagið (ISA) árið 1905, með aðsetri í Strassborg sem þá var þýsk borg. Hún varð þannig miðstöð jarðskjálftafræðiathugana í Evrópu. Um aldamótin 1900 var svo farið að setja upp jarðskjálftamæla víðs vegar um heim, og mælingar á stórum jarðskjálftum fóru að safnast saman, meðal annars eftir San Francisco-jarðskjálftann 1906.

Þýski jarðskjálftafræðingurinn Carl Mainka (1873-1943) smíðaði léttan og tiltölulega fyrirferðalítinn jarðskjálftamæli sem hentaði vel. Slíkur mælir fékkst til Íslands árið 1909 og var settur upp í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hafði Páll Halldórsson skólastjóri umsjón með honum, en mæliblöðin voru send til Strassborgar til frekari úrvinnslu. Þannig náðust góðar mælingar á Suðurlandsskjálftanum 1912. Erfiðlega gekk þó að koma á reglubundnum jarðskjálftamælingum á Íslandi, þar sem fjárveitingar voru knappar og lítill skilningur stjórnvalda á slíkri þörf. Það var ekki fyrr en Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri fékk nýjan jarðskjálftamæli 1925, að mælingar, sem þá höfðu legið niðri um alllangan tíma, hófust á nýjan leik. Eysteinn Tryggvason jarðskjálftafræðingur var fyrsti íslenski fræðimaðurinn sem helgaði sig jarðskjálftarannsóknum. Hann starfaði bæði við Veðurstofu Íslands, í Bandaríkjunum og síðar við verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Í hverjum mánuði eru staðsettir hundruðir og jafnvel þúsundir jarðskjálfta á Íslandi með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Þetta kort sýnir upptök jarðskjálfta á Íslandi í október 2012 en þá voru skráðir rúmlega 2000 skjálftar. Rauðir hringir tákna jarðskjálfta stærri en 0 að stærð. Á kortinu eru einnig sýnd eldstöðvakerfi (Páll Einarsson og Kristján Sæmundsson, 1987).

Gífurlegar framfarir hafa orðið í smíði og gerð jarðskjálftamælitækja, og hafa Íslendingar notið góðs af því. Nú má segja að hver hósti og stuna sem geta valdið smávægilegum titringi í jörðu, séu dyggilega skráð í mælitækjum sem senda síðan þráðlaus merki til rannsóknamiðstöðva í jarðskjálftafræðum um allan heim. Þrjár stofnanir annast slíkar mælingar á Íslandi. Jarðeðlisfræðideild Veðurstofunnar fylgist grannt með öllum jarðskjálftum sem verða á Íslandi og rekur þéttriðið net mæla um allt land. Starfsmenn hennar, lengst af undir forystu Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings, hafa meðal annars staðið að umfangsmiklum mælingum á Suðurlandi í samstarfi við ýmsar evrópskar jarðskjálftastofnanir. Á vegum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands hefur einnig verið rekið net skjálftamæla og lögð áhersla á þráðlaus samskipti við þá. Í seinni tíð hefur aðallega verið fengist við mælingar á hálendinu undir stjórn Páls Einarssonar prófessors. Starfsmenn Rannsóknamiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi, með Ragnar Sigurbjörnsson prófessor í fararbroddi, hafa svo komið upp landsneti svokallaðra sterkhröðunarmæla, sem mæla yfirborðshröðun í jarðskjálftanum, enda er hún ein lykilstærð við hönnun mannvirkja á jarðskjálftasvæðum.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

...