Svæðið þar sem borgin var undir var kallað La Citta eða “borgin” af því að hér og þar stóðu upp úr öskunni veggbrot og önnur vegsummerki um forna borg. Það var ekki fyrr en árið 1592 að menn rákust fyrst á rústirnar, þegar vatnslögn var grafin í gegnum svæðið. Samt sem áður var borgin týnda látin í friði enn um sinn. Árið 1738 var grafinn brunnur í grennd við Vesúvíus, og allt í einu komu verkamenn niður á marmaragólf sem reyndist vera leiksvið borgarinnar Herkúlaneum, skammt frá Pompei. Herkúlaneum hafði einnig grafist undir gosinu og yfir henni lá um 20 metra þykkt öskulag. Í borginni voru fyrrum um fjögur þúsund og fimm hundruð íbúar.
Í fyrstu var uppgröftur í Herkúlaneum rekinn sem leit að fjársjóðum og fornum listaverkum, en smátt og smátt fór að þróast aðferðafræði og þar varð fornleifafræðin til sem vísindaiðkun. Loks er það árið 1748 að skipulegur uppgröftur hefst í Pompei. Það liðu því meir en sextán hundruð ár áður en Pompei fannst aftur. Þetta langa hlé stafar af því, að áhugi fyrir hinu forna og týnda fór ekki að vakna fyrir alvöru fyrr en á átjándu öldinni. Þá fór mannkynið að kunna að meta hina miklu arfleifð sem fornminjar eru og mikilvægt hlutverk þeirra í menningarsögu okkar allra. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvar er Pompei? eftir Helgu Sverrisdóttur
- Hvers konar eldgos lagði Pompei í rúst? eftir Ármann Höskuldsson
- Uppgröftur í Pompei: The Independent. Sótt 9. 9. 2010.
- Frá Herkúlaneum: The Friends of Herculaneum Society. Sótt 9. 9. 2010.