Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Flestir mundu segja að „Suðurlandsskjálftinn“ frægi, sem lengi hafði verið beðið eftir, hafi komið dagana 17. og 21. júní árið 2000, en þá voru liðin 88 ár síðan stórskjálfti reið síðast yfir Suðurland (1912, 7,0 stig). Hins vegar eiga margir Suðurlandsskjálftar eftir að koma í framtíðinni.
Spurningin felur því væntanlega í sér hvenær næst megi vænta stórskjálfta á svæðinu. Ítarlegt svar við þeirri spurningu, eftir því sem efni standa til, er að finna á vefsíðu jarðeðlisfræðideildar Veðurstofunnar, en hér fylgir styttri umfjöllun, að mestu byggð á þeirri síðu.
Jarðskjálftar á Suðurlandi stafa af sniðgengishreyfingu á þröngu belti sem liggur frá Ölfusi austur að Vatnafjöllum. Misgengi þetta skilur að Ameríkuflekann í norðri og Evrasíuflekann í suðri, og afstæð hreyfing þeirra er 1,8 cm á ári. Það þýðir að punktur norðan við misgengið færist 1,8 cm á ári til vesturs miðað við punkt sunnan við það. Við hreyfinguna bjagast jarðskorpan (efstu 10 kílómetrarnir) á allbreiðu svæði beggja megin við sprunguna og spenna hleðst upp. Annað veifið losnar þessi uppsafnaða spenna úr læðingi í jarðskjálftum, en í hverjum skjálfta hrekkur þó ekki nema stuttur bútur af sprungunni.
Þannig urðu 5 skjálftar, 6,5-6,9 stig, árið 1896 á svæðinu frá Landssveit vestur í Ölfus, sá fyrsti varð austast og hinn síðasti vestast. Árið 1912 varð svo annar skjálfti (7,0 stig) allnokkru austar. Nú er litið svo á að á þessu 16 ára tímabili (1896-1912) hafi losnað um spennu sem hlaðist hafði upp síðan í skjálftunum 1784.
Reiknað hefur verið út að sniðgengishreyfing á Suðurlandsmisgenginu byggi upp spennu sem nemur 0,7 * 1020 Nm (Newton-metrum) á 140 árum. Skjálftarnir árið 2000 leystu út 1,1 * 1019 Nm, sem svarar til um fjórðungs uppsafnaðrar spennu síðan 1912. Þannig eru þrír fjórðu hlutar spennunnar á sprungunni allri ennþá óútleystir.
Í ljósi sögunnar mætti vænta þess að stór skjálfti verði innan fárra ára eða áratuga á austurhluta sprungunnar, en skorpan þykknar til austurs þannig að meira þarf til að hún bresti, og þegar hún brestur verður skjálftinn sterkari. Hins vegar gætu smærri skjálftar, líkir júnískjálftunum 2000, orðið áður á vesturhluta sprungunnar.
Söguleg gögn um upptök jarðskjálfta á Suðurlandi eftir 1700 bentu til þess að á því tímabili hefðu engir stórskjálftar átt upptök sín í Holtunum og því mætti vænta næsta stórskjálfta þar. Jafnframt virtist önnur eyða vera vestar, á Skeiðum, en í þessum tveimur sveitum urðu skjálftarnir árið 2000. Jafnframt benti smáskjálftavirkni á Suðurlandssprungunni til þess að skorpan á þessu svæði væri komin nærri brotmörkum. Þó var engin leið að segja með neinni nákvæmni hvenær skjálftinn yrði, en skömmu fyrir skjálftana 2000 töldu jarðeðlisfræðingar Veðurstofunnar að 98% líkur væru fyrir því að þarna yrði skjálfti af stærðinni 6 innan 25 ára.
Margvíslegar athuganir eru gerðar til að reyna að segja fyrir um skjálfta með sem mestri vissu. Þar má nefna sjálfvirkt net skjálftamæla Veðurstofunnar, GPS-mælingar á jörðu og ratsjármælingar úr gervitunglum á bjögun jarðskorpunnar, vatnshæðarmælingar í borholum, bjögunarmælingar í borholum og útstreymi lofttegundarinnar radon. Jafnframt þessum mælingum er unnið að gerð betri líkana, sem byggð eru á bættum skilningi á hegðun skorpunnar og þeim þáttum sem ráða því hvenær hún brestur.
Nákvæmt svar við spurningunni liggur sem sagt ekki fyrir, en þó er sennilegt að annar Suðurlandsskjálfti, eða -skjálftar, verði innan fárra áratuga.
Sigurður Steinþórsson. „Hvenær kemur Suðurlandsskjálftinn?“ Vísindavefurinn, 10. apríl 2003, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3326.
Sigurður Steinþórsson. (2003, 10. apríl). Hvenær kemur Suðurlandsskjálftinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3326
Sigurður Steinþórsson. „Hvenær kemur Suðurlandsskjálftinn?“ Vísindavefurinn. 10. apr. 2003. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3326>.