Óhjákvæmilegt er að skipta ofsóknasögu gyðinga í þrjá hluta: Sá fyrsti er saga gyðingdómsins fyrir daga Rómaveldis (til um það bil 50 fyrir Krist), annar hlutinn er sagan í Rómaveldi þangað til kristni varð þar ríkistrú (til 4. aldar eftir Krist) og sá þriðji er saga gyðingdómsins í kristninni og síðar í íslam, með öðrum orðum saga hans eftir um það bil 400 eftir Krist. Rétt er að taka fram að hér er rætt um gyðinga sem áhangendur trúar, gyðingdóms, ekki sem þjóðar. Þjóðir fornaldar komu og fóru. Hvar eru nú Hettítar sem mynduðu stórveldi um árið 1500 f.Kr., Babýloníumenn, Fönikíumenn og fjölmargar aðrar? Gyðingar bjuggu á svæði sem var átakasvæði Egypta og ýmissa Vestur-Asíu –„stórvelda”. Þeir náðu undir sig „fyrirheitna landinu” á árunum um 1500 fyrir Krist með miklu blóðbaði að því er sagt er í Gamla testamentinu. Þjóðinni sem fyrir var í landinu (Kanverjum) var einfaldlega slátrað að boði Jahve samkvæmt þeirri heimild. En fornleifar benda til að landnám gyðinga í meginhluta Palestínu hafi gengið friðsamlegar fyrir sig; þannig sjást að um aldir hafi gyðingar og Kanverjar búið hlið við hlið í Palestínu og ekki er annað að sjá en milli þessara þjóða hafi ríkt friður og spekt. Leifar af tungumáli Kanverja benda til náins skyldleika við hebresku. Sumir gyðingar trúa þó enn sögum Gamla testamentisins um blóðbaðið við útrýmingu Kanverja. Sú staðreynd að gyðingum var ekki útrýmt líka í öllum átökunum í Palestínu næstu 1500 árin eftir komu þeirra þangað eins og gerðist með flestar aðrar þjóðir í fornöld er skýrt merki um að hér hafi verið fólk með óvenjusterka vitund um eigin sérstöðu enda eru trúarbrögð og saga rækilega samtvinnuð í gyðingdómi. En komið hefur fyrir að gyðingar hafi ofsótt aðra trúarhópa áður fyrr, einkum klofningshópa úr eigin röðum. Gyðingar voru í fornöld fluttir í útlegð bæði til Babýlon og Persíu en að sögn fékk sá hlutinn sem fluttur var til Persíu að snúa aftur til Palestínu. Rétt er að hafa í huga að gyðingar hafa í tímans rás blandast fólki með önnur trúarbrögð. Enn fremur voru margir gyðingar löngu fyrir Krists burð búsettir utan Palestínu, einkum í Egyptalandi (Alexandríu), Sýrlandi, Litlu-Asíu og Mesópótamíu. Víða í borgum fornaldar voru gyðingar í meirihluta og sennilega bjuggu talsvert fleiri gyðingar utan Palestínu en í því landi þegar fyrir Krists burð. Þessir gyðingar voru gjarnan í náinni samvinnu við Grikki og þær grískættuðu konungsættir sem réðu á þessum slóðum síðustu þrjár aldirnar fyrir Krists burð. Þessi dreifða búseta sést meðal annars af frásögnum Nýja testamentisins af miklum ferðum Páls postula milli gyðingabyggðanna þar sem hluti gyðinganna snerist til kristni. Rómverjar lögðu Palestínu undir sig við upphaf tímatals okkar og gerðu að skattlandi. Versnaði þá stórum hagur íbúa þess lands, jafnt gyðinga sem annarra. Gyðingar gerðu margsinnis uppreisn gegn Rómverjum sem endaði með því að margir gyðingar í Palestínu voru ýmist drepnir eða seldir í þrældóm. Slíkt var nánast venja Rómverja gagnvart uppreisnargjörnum nýlendubúum og þannig héldu þeir stórveldi sínu saman. Margar aðrar þjóðir í Rómaveldi hlutu sömu örlög og gyðingar í Palestínu. Hæpið er að gyðingar nútímans séu að mestu leyti afkomendur þeirra herleiddu þræla sem Rómverjar fluttu frá Palestínu á 1. og 2. öld tímatals okkar. Þeir eru hugsanlega að meirihluta afkomendur þeirra gyðinga sem höfðu búið utan Palestínu í margar aldir fyrir Krists burð, borgarbúa sem höfðu unnið náið með Grikkjum en reyndu nú, andstætt trúbræðrum sínum í Palestínu, að taka upp samvinnu við Rómverja. Þetta er aldrei hægt að sanna. En langtíma aðlögun að Rómarveldi reyndist erfið af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi var sú krafa gerð að íbúar Rómaveldis, einkum þó rómverskir borgarar eins og margir gyðingar urðu, færu að sýna keisara Rómaveldis slíka virðingu að það nálgaðist trúarbrögð. Þetta var mörgum gyðingum sem og fleiri trúarhópum í Rómaveldi erfið raun. Í öðru lagi, og sem skipti meira máli, klofnuðu kristnir söfnuðir frá gyðingdómi og kristnin þróaðist þannig að hún varð að flestu leyti allt önnur trúarbrögð en gyðingdómur. Eigi að síður gerðu bæði gyðingar og kristnir menn sér fyllilega grein fyrir gyðinglegum uppruna kristninnar. Gyðingar töldu kristnina vera villutrú og svik við gyðingdóm. Kristnir menn fóru snemma að þrástagast á því að gyðingar „hefðu drepið Krist” og fyrir það gætu þeir aðeins bætt með einu móti: Að gerast kristnir. Nánast frá upphafi ríkti því mikið og gagnkvæmt hatur milli kristinna og gyðinga. Báðir trúarhóparnir leituðu til rómverskra yfirvalda og kærðu hvor annan. Þess var krafist að hinum yrði útrýmt, annað hvort með drápum eða umsnúningi til „réttrar trúar”. Stundum höfðu gyðingar hér betur, einkum í upphafi í skjóli rómversks borgararéttar sem sumir þeirra höfðu. Þessu var vel haldið til haga í kristinni minningu. Kristnum mönnum var gefið trúfrelsi í Rómaveldi snemma á 4. öld og í kjölfarið fór keisarinn að veita þeim ýmis forréttindi og velja þá öðrum fremur til embætta. Fyrir lok aldarinnar var kristnin gerð að ríkistrú í Rómaveldi og öll önnur trúarbrögð lýst ólögmæt. Þetta voru varla góð tíðindi fyrir gyðinga þegar heimsveldið gerði trúarandstæðing þeirra að einu leyfilegu trúnni í ríkinu enda hófu nú kristnir menn gyðingaofsóknir. Þær héldu áfram eftir fall vestur-rómverska ríkisins 474, með talsverðum hléum þó. Hagur gyðinga batnaði almennt þegar íslam kom fram á sjónarsviðið á 7. öld. Múhameð sótti kenningar sínar mest til gyðingdóms og sumir telja raunar að spámaðurinn hafi um tíma aðhyllst þá trú en hafi móðgast þegar gyðingar vildu ekki viðurkenna spámannshlutverk hans. Samkvæmt Kóraninum ber múslímum að sýna kristnum mönnum og gyðingum sérstakt umburðarlyndi. Í Vestur-Asíu og Norður-Afríku, þar sem kristnin ríkti áður, tók íslam við, að mestu eða miklu leyti. Þar batnaði auðvitað hagur gyðinga. En þetta aukna umburðarlyndi múslíma í garð þeirra hafði einnig jákvæð áhrif í Evrópu og dróg nokkuð úr ofsóknum gegn gyðingum þar um tíma. Það segir nokkuð um afstöðu kristinna manna bæði til gyðinga og múslíma að fyrir fyrstu krossferð Vestur-Evrópubúa gegn múslímum í Vestur-Asíu 1096 var byrjað á gyðingadrápum heima fyrir. Jafnframt voru bænahús gyðinga eyðilögð og einnig var grafreitum þeirra eytt. Þessar gyðingaofsóknir, sem kaþólska kirkjan blessaði, eru að mörgu leyti sambærilegar við gyðingaofsóknir nasista 1933-1945 eins og Hitler þrástagaðist á í viðræðum sínum við fulltrúa kaþólsku kirkjunnar. Í kjölfarið gerðu ríki Vestur- og Norður-Evrópu hvert af öðru gyðinga útlæga. Flýðu þeir ýmist til landa múslíma, einkum á Spáni, eða til Austur-Evrópu þar sem fyrir voru öflugar gyðingabyggðir, Austræna rétttrúnaðarkirkjan lét ekki ofsækja gyðinga í sama mæli og rómversk-kaþólska kirkjan, bannaði þeim hins vegar ýmislegt samneyti við kristna menn. Meðal gyðinganna í Austur-Evrópu spratt einkum sú sérstæða menning sem gyðingdómur er meðal annars þekktur fyrir í dag. Tungumálið varð jiddíska, sem er að stofni til Rínar-þýsk mállýska með fjölda tökuorða úr arameísku (sem var daglegt tungumál gyðinga, ásamt grísku, á tímum grískra og rómverskra yfirráða) og úr hebresku sem hefur ávallt verið helgimál þeirra. Þessi menning hefur verið kölluð Ashkenazi-gyðingdómur og er langöflugasta afl gyðingdómsins nú. Nýhebreska hefur undanfarin 100 ár leyst jiddísku af hólmi. Í krossferðunum frá 11. til 13. aldar lögðu krossfarar gyðinga og múslíma að jöfnu og drápu báða jafnt. Þegar kristnir menn höfðu endurheimt allan Spán úr höndum múslíma undir lok 15. aldar fengu þeir í hendur menningarsvæði sem var byggt bæði múslímum og gyðingum. Kristnu þjóðhöfðingjarnir settu þessum trúarhópum skilyrði: Annað hvort hverfið þið af landi brott eða takið kristna trú. Fjöldi manns valdi þann kost að fara. Margir gyðinganna settust að í Norður-Grikklandi sem þá laut múslímska Tyrkjasoldáninum. Múslímarnir settust einkum að í Norður-Afríku þar sem þeir aðstoðuðu við að stofna öflugan flota til sjórána, fyrst í stað einkum gegn Spánverjum en síðar fleirum. En aðrir múslímar og gyðingar völdu þann kost að vera kyrrir í landinu og taka kristna trú. Spænska krúnan efldi Rannsóknarréttinn til að hægt væri að fylgjast með því hvort þessir nýkristnu Spánverjar væru í raun og veru trúskiptingar. Það dugði til að fara á bálköstinn í helstu þjóðarskemmtun Spánar á þessum tíma, brennuhátíðum rannsóknarréttarins, ef nágranninn hélt því fram að „trúskiptingurinn” neitaði að borða svínakjötsbita sem honum var boðinn, en hvorki sanntrúaðir gyðingar né múslímar neyta svínakjöts. Að lokum var búið að útrýma öllum sem grunaðir voru um gyðinglega eða múslímska siði og þá fór að duga að vera fjarlægur afkomandi gyðinga eða múslíma til að fara á bálköstinn. En það var ekki bara kaþólska kirkjan sem lét ofsækja gyðinga; siðbótarfrömuðurinn Lúther hafði ýmislegt ljótt að segja um gyðinga og þeir voru ofsóttir víða í löndum mótmælenda. Það var helst að einstaka borgir sýndu gyðingum umburðarlyndi til að efla hjá sér verslun og iðnað. Þannig varð borgríkið Holland fyrst til að gefa öllum gyðingum trúfrelsi þegar á 16. öld. Verulegur skriður komst þó fyrst á réttarfarsstöðu gyðinga á upplýsingaröld, þeirri átjándu. Gyðingum, sem á nýöld (frá 16. öld) var leyft að setjast að í flestum löndum Evrópu, var bannað að eignast jarðnæði, þeir áttu að búa í borgunum og stunda þar handiðn eða verslun, sem þeir og gerðu í ríkum mæli. Þeim var einnig víðast hvar lengi bannað að verða opinberir embættismenn, hins vegar máttu þeir starfa sjálfstætt í kjölfar náms en háskólar opnuðu snemma dyr sínar fyrir gyðingum, gjarnan gegn háum gjöldum. Allt þetta stuðlaði að því að í Evrópulöndum varð hlutfall gyðinga meðal fræði- og vísindamanna hærra en var til staðar meðal kristinna manna. Fyrir bragðið var framlag manna af gyðingaættum til eflingar menningar og mennta í Evrópu tiltölulega mikð. Þeir bókstaflega þrifust á aukinni upplýsingu. Með hnignun konunglegs einveldis á 19, öld fóru kjörnir fulltrúar að taka stöðugt meira völdin í sínar hendur. Tiltölulega margir þeirra voru háskólamenntaðir menn af gyðingaættum. Þekktast er samt framlag gyðingættaðra manna til vaxandi verkalýðsflokka. Karl Marx var einn margra slíkra. Nafnaþulan í þessu sambandi yrði löng ef upptalin yrði öll. Hér dugar að nefna að forysta bolsévíka, sem stóð að októberuppreisninni í Rússlandi 1917, samanstóð að stórum hluta af mönnum af gyðingaættum. Þessi vaxandi framsókn manna af gyðingaættum í menntun og margvíslegum stjórnmálum var rétttrúuðum rabbínum, „prestum gyðinga“, almennt lítt að skapi sem aftur stuðlaði að því að margir gyðingættaðir menn snéru baki við hefðbundnum gyðingdómi. Gyðingahatur var alltaf til staðar og afturhaldsöflin, sem voru á móti upplýsingu og framförum, blésu óspart á glæður þess. Margir slíkir afturhaldsmenn töldu til dæmis að byltingar væru hluti af allsherjarsamsæri gyðinga. Gyðinglegum uppruna leiðtoga uppreisna var óspart hampað, þeim til hnjóðs. Kynþáttahyggja jókst mjög víða sem bein afleiðing evrópskrar heimsvaldastefnu, víðast hvar í Evrópu og Ameríku varð það ríkjandi skoðun allt fram á seinni hluta 20. aldar að „hvíti kristni kynstofninn“ væri öðrum kynstofnum æðri. Það var því ekki aðeins á gömlum arfi kristinnar hefðar sem Hitler og nasistar smíðuðu gyðingahatur sitt þótt þar var af nógu að taka. Fleira kom til; andstaðan við skynsemisstefnu og nýjar stjórnmálalhreyfingar, og síðast en ekki síst vaxandi kynþáttahatur, stuðlaði allt mjög að gyðingahatri. Nýtt var hins vegar að nú var það ekki gyðingatrúin ein sér sem taldist vera glæpur. Það var gyðinglegur uppruni. Afleiðingarnar eru þekktar: Útrýmingabúðir nasista. Myndir:
- Tel Megiddo - Wikipedia. (Sótt 14.01.2019).
- Resisting the Anti-Semitic Crusade | The Public Medievalist. (Sótt 14.01.2019).
Hér var jafnframt svarað spurningu Júlíusar Fjeldsted Hvar liggja rætur Gyðingahaturs og af hverju? og spurningu Hreins Þórs Haukssonar Hver er saga Gyðingaofsókna?