Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?

Sverrir Jakobsson

Byltingin í Rússlandi 1917 er einn af afdrifaríkustu atburðum 20. aldar og hún hafði mótandi áhrif á stjórnmál um allan heim. Hægt er að skilgreina byltinguna sem keðju uppreisna í Rússlandi sem leiddu fyrst til þess að einræðisstjórn Rússakeisara var hrundið en síðan til valdatöku ráða (sovéta) undir stjórn bolsévika. Í kjölfarið fylgdi borgarastyrjöld en eftir lok hennar voru Sovétríkin stofnuð árið 1922.

Aðdragandinn

Orsakir byltingarinnar voru margbrotnar. Pólitískt ófrelsi var mikið í Rússlandi í samanburði við önnur ríki Evrópu. Kúgun keisarans beindist bæði gegn pólitískum andstæðingum og fólki af öðrum þjóðarbrotum. Bændur í Rússlandi voru ánauðugir til 1861 en eftir það var staða þeirra gagnvart landeigendum áfram mjög erfið. Eignarhald á landi var ójafnt og fámennur hópur jarðeigenda átti mestan hluta þess. Iðnvæðing komst hægt af stað og var drifin áfram af frumkvæði ríkisvaldsins. Má þar sérstaklega nefna lagningu járnbrauta til þess að gera ríkið að einu efnahagssvæði. Vöxtur borga og aukin iðnvæðing leiddu til þess að sérstök stétt verkamanna varð til í Rússlandi á síðari hluta 19. aldar. Mikil fólksfjölgun var í stærstu borgunum, Pétursborg og Moskvu, og bjuggu verkamenn þar við kröpp kjör.

Þrátt fyrir að rússneskir bændur losnuðu úr ánauð 1861 var staða þeirra gagnvart landeigendum áfram mjög erfið.

Alexander II., keisari 1855-1881, steig nokkur skref í átt til frjálslyndari stjórnarhátta. Eftir að hann féll frá lauk þeirri þróun og reynt var að snúa við sumum breytingum í lýðræðisátt, einkum hvað varðaði sjálfstæði sveitarstjórna (r. zemstvo). Markvissar ofsóknir voru stundaðar gagnvart hópum sem börðust fyrir breytingum á stjórnkerfinu. Pólitískar hreyfingar störfuðu því fyrst og fremst neðanjarðar. Meðal slíkra hreyfinga var flokkur Þjóðbyltingarmanna sem var stofnaður árið 1901 og rússneski sósíaldemókrataflokkurinn sem var stofnaður árið 1898. Sá flokkur klofnaði í tvær fylkingar árið 1903, bolsévika og mensévika.

Ósigur keisarastjórnarinnar í stríði við Japan 1904-1905 leiddi til pólitískrar kreppu í landinu. Í ársbyrjun var skotið á hóp verkamanna sem krafðist friðarsamninga í stríðinu og styttri vinnudags. Í kjölfarið hófust verkföll um allt land, en Nikulás II. keisari brást við með loforðum um lýðræðislega kjörið þing. Fljótlega dró keisarinn loforð sín til baka og þingið (r. duma), sem kom fyrst saman 1906, varð aldrei öflug stofnun.

Árið 1914 braust út heimsstyrjöld og tóku Rússar þátt í henni við hlið Breta og Frakka. Rússneski herinn beið ósigur gegn Þjóðverjum í orrustunni við Tannenberg í Austur-Prússlandi þá um haustið. Hófst þá undanhald Rússa sem einkenndist af miklu mannfalli. Eftir tveggja ára stríðsrekstur nálgaðist mannfall Rússa 1,8 milljón og eru þá ótaldir stríðsfangar og liðhlaupar sem einnig skiptu milljónum.

Febrúarbyltingin

Á alþjóðlega kvennadaginn (8. mars eða 23. febrúar samkvæmt gömlu rússnesku tímatali) árið 1917 hófu konur í vefnaðarverksmiðjum í Pétursborg verkfall sem fljótlega blandaðist saman við mótmæli vegna brauðskorts. Næstu daga lamaðist öll iðnaðarstarfsemi í borginni. Hluti hermanna sem sendir voru til Pétursborgar til að brjóta verkföllin á bak aftur gekk í lið með mótmælendum og sagði þá ríkisstjórnin af sér. Í mars sagði Nikulás II. af sér og við tók bráðabirgðastjórn undir forystu Grigorij Lvov. Verkamenn í stórborgunum leystu hins vegar ekki upp eigin ráð (r. sovét) sem þeir höfðu stofnað þar með sama hætti og árið 1905.

Mótmæli verkafólks í Péturborg 8. mars 1917. Ekki leið á löngu þar til mótmæli urðu að því sem kallast febrúarbyltingin.

Við tók tímabil þar sem tvenns konar stjórn ríkti, annars vegar bráðabirgðastjórnin í Pétursborg og hins vegar sovétin um allt land sem voru undir stjórn sósíaldemókrata. Hluti forystumanna í ráðunum gekk til liðs við bráðabirgðastjórnina og varð leiðtogi þeirra fljótlega Aleksandr Kerenskij sem kom úr flokki Þjóðbyltingarmanna. Frá og með júlí 1917 varð hann leiðtogi bráðabirgðastjórnarinnar. Eitt af markmiðum hennar var að gera Rússlandi kleift að halda áfram stríðsrekstrinum. Þetta olli deilum innan hreyfingarinnar sem hafði staðið á bak við febrúarbyltinguna því að eitt af markmiðum hennar var að binda enda á heimsstyrjöldina.

Innan ráðanna var þessi stefna óvinsæl því að þar vildu margir hætta þátttöku í heimsstyrjöldinni sem fyrst. Þar jókst smám saman vægi róttækasta arms Sósíaldemókrataflokksins. Leiðtogi hans var Vladimír Ilitsj Úljánov sem er öllu kunnari undir dulnefninu Lenín. Á stríðsárunum var Lenín í útlegð í Sviss þar sem hann varð fljótlega einn af leiðtogum þess hluta alþjóðlegu sósíalistahreyfingarinnar sem barðist gegn heimsstyrjöldinni. Nefndist sá hópur Zimmerwald-hreyfingin eftir ráðstefnu sem haldin var í samnefndum bæ í Sviss.

Eftir misheppnaðar tilraunir bráðabirgðastjórnarinnar til að ráðast til atlögu við þýska herinn í júní 1917 jókst fylgi bolsévika innan ráðanna verulega og stefna Leníns naut fljótlega meirihlutafylgis þar. Uppreisn sjóliða í Kronstadt sem vildu „allt vald til ráðanna“ var þó gerð án þátttöku bolsévika og rann fljótlega út í sandinn. Í kjölfarið flýðu Lenín og nokkrir aðrir leiðtogar hreyfingarinnar til Finnlands en aðrir voru handteknir. Uppreisn hershöfðingjans Kornilovs í ágúst varð hins vegar til þess að Kerenskij kallaði á her ráðanna, rauðu varðliðana, til þess að verja bráðabirgðastjórnina.

Októberbyltingin

Í september leysti ráðið í Pétursborg handtekna bolsévika úr haldi og einn þeirra, Leó Trotskíj, var gerður að forseta ráðsins. Í október sneri Lenín heim frá Finnlandi og miðstjórn Kommúnistaflokksins samþykkti formlega að standa fyrir valdatöku. Hin svokallaða októberbylting hófst í Tallinn 23. október 1917, en tveimur dögum síðar í Pétursborg (25. október eða 7. nóvember að okkar tímatali). Gekk sú bylting tiltölulega hratt fyrir sig og lítið mannfall varð. Bráðabirgðastjórnin var leyst upp en í staðinn tekin upp ráðstjórn (r. sovnarkom) undir stjórn alþýðufulltrúa. Meðal fyrstu aðgerða ráðstjórnarinnar voru að færa allt land í hendur bænda, þjóðnýta banka, fela ráðunum stjórn verksmiðja, hækka laun og koma á átta stunda vinnudegi. Bankainnistæður og eignir kirkjunnar voru gerðar upptækar. Þrátt fyrir deilur innan bolsévikahreyfingarinnar var ákveðið að ganga til friðarsamninga við Þjóðverja að tillögu Leníns, en sumir bolsévikar, til dæmis Nikolaj Búkharín, vildu halda stríðinu áfram og breyta því í stéttastríð.



Lenín og Trotskíj gegndu báðir mikilvægu hlutverki í rússnesku byltingunni. Hér er sá fyrrnefni í ræðustól og Trotskíj stendur við ræðupallinn hægra megin.

Bolsévikar náðu völdum víðast hvar í Rússlandi, en mörg þeirra landa sem áður höfðu tilheyrt ríki Rússakeisara lentu undir forræði Þjóðverja við gerð friðarsamningsins í Brest-Litovsk í mars 1918. Urðu þá til sjálfstæð ríki í Póllandi, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi, Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan. Í kjölfarið gerðu nokkur ríki innrás í Rússland, þar á meðal Bretland, Frakkland, Bandaríkin og Tyrkjaveldi. Einnig urðu til sjálfstæðir herir rússneskra gagnbyltingarmanna, svokallaðra hvítliða, undir forystu hershöfðingjanna Denikín, Júdenitsj og Koltsjak.

Eftir endalok heimsstyrjaldarinnar, veturinn 1918-1919, brutust út byltingar víða í Mið-Evrópu þar sem komið var á ráðstjórnum. Má þar nefna ráðstjórnina í Ungverjalandi og ráðstjórnir víða í Þýskalandi, til dæmis í München. Á þessum tíma gerðu rússneskir bolsévíkar sér von um að byltingin þar myndi breiðast út um allan heim og stofnuðu til Komintern, alþjóðasambands Kommúnista, sem var starfrækt til 1943. Ráðstjórnirnar voru hins vegar alls staðar brotnar á bak aftur með vopnavaldi eftir skamma setu – nema í Rússlandi.

Árin 1918-1921 geisaði borgarastyrjöld í Rússlandi en henni lauk með sigri rauða hersins og ráðstjórnarinnar á hvítliðum. Í kjölfarið brast á hungursneyð sem geisaði veturinn 1921-1922. Í árslok 1922 voru Sovétríkin stofnuð sem ríkjasamband fjögurra ríkja, Rússlands, Hvíta-Rússlands, Úkraínu og Kákasusríkjasambandsins sem í voru Armenía, Aserbaídsjan og Georgía.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Gagnleg rit:

  • Acton, Edward, Rethinking the Russian Revolution (Reading History) (London-New York, 1990).
  • Carr, Edward Hallett, A History of Soviet Russia: The Bolshevik Revolution 1917-1923, 3 bindi (London, 1960-1963).
  • Chamberlin, William Henry, The Russian Revolution, 2 bindi (New York, 1935).
  • Ferro, Marc, La Révolution de 1917 (Paris, 1997, frumútg. 1967 & 1976).
  • Gerschenkron, Alexander, Economic Backwardness in a Historical Perspective (Cambridge, Massachusetts, 1962).
  • Mayer, Arno J., The Furies: Violence and Terror in the French and Russian Revolutions (Princeton, New Jersey, 2000).
  • Lenin, V.I., Revolution at the Gates: A Selection of Writings from February to October 1917, ritstj. Slavoj Zizek (London, 2002).
  • Reed, John, Ten Days that Shook the World (New York, 1919).
  • Steinberg, Mark D., Proletarian Imagination: Self, Modernity, and the Sacred in Russia, 1910-1925 (Ithaca, New York, 2002).
  • White, James D., The Russian Revolution: A Short History (London, 1994).

Myndir:


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hvað var októberbyltingin?
  • Hvað gerðist í byltingunum í Rússlandi árið 1917?
  • Hverjar voru orsakir rússnesku byltingarinnar?

Höfundur

Sverrir Jakobsson

prófessor í miðaldasögu við HÍ

Útgáfudagur

11.9.2008

Síðast uppfært

16.11.2020

Spyrjandi

Elías Jóhann Jónsson
Lovísa Jónsdóttir
Anna Guðný Gröndal
Thelma Dröfn Ásmundsdóttir

Tilvísun

Sverrir Jakobsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?“ Vísindavefurinn, 11. september 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=12700.

Sverrir Jakobsson. (2008, 11. september). Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=12700

Sverrir Jakobsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?“ Vísindavefurinn. 11. sep. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=12700>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?
Byltingin í Rússlandi 1917 er einn af afdrifaríkustu atburðum 20. aldar og hún hafði mótandi áhrif á stjórnmál um allan heim. Hægt er að skilgreina byltinguna sem keðju uppreisna í Rússlandi sem leiddu fyrst til þess að einræðisstjórn Rússakeisara var hrundið en síðan til valdatöku ráða (sovéta) undir stjórn bolsévika. Í kjölfarið fylgdi borgarastyrjöld en eftir lok hennar voru Sovétríkin stofnuð árið 1922.

Aðdragandinn

Orsakir byltingarinnar voru margbrotnar. Pólitískt ófrelsi var mikið í Rússlandi í samanburði við önnur ríki Evrópu. Kúgun keisarans beindist bæði gegn pólitískum andstæðingum og fólki af öðrum þjóðarbrotum. Bændur í Rússlandi voru ánauðugir til 1861 en eftir það var staða þeirra gagnvart landeigendum áfram mjög erfið. Eignarhald á landi var ójafnt og fámennur hópur jarðeigenda átti mestan hluta þess. Iðnvæðing komst hægt af stað og var drifin áfram af frumkvæði ríkisvaldsins. Má þar sérstaklega nefna lagningu járnbrauta til þess að gera ríkið að einu efnahagssvæði. Vöxtur borga og aukin iðnvæðing leiddu til þess að sérstök stétt verkamanna varð til í Rússlandi á síðari hluta 19. aldar. Mikil fólksfjölgun var í stærstu borgunum, Pétursborg og Moskvu, og bjuggu verkamenn þar við kröpp kjör.

Þrátt fyrir að rússneskir bændur losnuðu úr ánauð 1861 var staða þeirra gagnvart landeigendum áfram mjög erfið.

Alexander II., keisari 1855-1881, steig nokkur skref í átt til frjálslyndari stjórnarhátta. Eftir að hann féll frá lauk þeirri þróun og reynt var að snúa við sumum breytingum í lýðræðisátt, einkum hvað varðaði sjálfstæði sveitarstjórna (r. zemstvo). Markvissar ofsóknir voru stundaðar gagnvart hópum sem börðust fyrir breytingum á stjórnkerfinu. Pólitískar hreyfingar störfuðu því fyrst og fremst neðanjarðar. Meðal slíkra hreyfinga var flokkur Þjóðbyltingarmanna sem var stofnaður árið 1901 og rússneski sósíaldemókrataflokkurinn sem var stofnaður árið 1898. Sá flokkur klofnaði í tvær fylkingar árið 1903, bolsévika og mensévika.

Ósigur keisarastjórnarinnar í stríði við Japan 1904-1905 leiddi til pólitískrar kreppu í landinu. Í ársbyrjun var skotið á hóp verkamanna sem krafðist friðarsamninga í stríðinu og styttri vinnudags. Í kjölfarið hófust verkföll um allt land, en Nikulás II. keisari brást við með loforðum um lýðræðislega kjörið þing. Fljótlega dró keisarinn loforð sín til baka og þingið (r. duma), sem kom fyrst saman 1906, varð aldrei öflug stofnun.

Árið 1914 braust út heimsstyrjöld og tóku Rússar þátt í henni við hlið Breta og Frakka. Rússneski herinn beið ósigur gegn Þjóðverjum í orrustunni við Tannenberg í Austur-Prússlandi þá um haustið. Hófst þá undanhald Rússa sem einkenndist af miklu mannfalli. Eftir tveggja ára stríðsrekstur nálgaðist mannfall Rússa 1,8 milljón og eru þá ótaldir stríðsfangar og liðhlaupar sem einnig skiptu milljónum.

Febrúarbyltingin

Á alþjóðlega kvennadaginn (8. mars eða 23. febrúar samkvæmt gömlu rússnesku tímatali) árið 1917 hófu konur í vefnaðarverksmiðjum í Pétursborg verkfall sem fljótlega blandaðist saman við mótmæli vegna brauðskorts. Næstu daga lamaðist öll iðnaðarstarfsemi í borginni. Hluti hermanna sem sendir voru til Pétursborgar til að brjóta verkföllin á bak aftur gekk í lið með mótmælendum og sagði þá ríkisstjórnin af sér. Í mars sagði Nikulás II. af sér og við tók bráðabirgðastjórn undir forystu Grigorij Lvov. Verkamenn í stórborgunum leystu hins vegar ekki upp eigin ráð (r. sovét) sem þeir höfðu stofnað þar með sama hætti og árið 1905.

Mótmæli verkafólks í Péturborg 8. mars 1917. Ekki leið á löngu þar til mótmæli urðu að því sem kallast febrúarbyltingin.

Við tók tímabil þar sem tvenns konar stjórn ríkti, annars vegar bráðabirgðastjórnin í Pétursborg og hins vegar sovétin um allt land sem voru undir stjórn sósíaldemókrata. Hluti forystumanna í ráðunum gekk til liðs við bráðabirgðastjórnina og varð leiðtogi þeirra fljótlega Aleksandr Kerenskij sem kom úr flokki Þjóðbyltingarmanna. Frá og með júlí 1917 varð hann leiðtogi bráðabirgðastjórnarinnar. Eitt af markmiðum hennar var að gera Rússlandi kleift að halda áfram stríðsrekstrinum. Þetta olli deilum innan hreyfingarinnar sem hafði staðið á bak við febrúarbyltinguna því að eitt af markmiðum hennar var að binda enda á heimsstyrjöldina.

Innan ráðanna var þessi stefna óvinsæl því að þar vildu margir hætta þátttöku í heimsstyrjöldinni sem fyrst. Þar jókst smám saman vægi róttækasta arms Sósíaldemókrataflokksins. Leiðtogi hans var Vladimír Ilitsj Úljánov sem er öllu kunnari undir dulnefninu Lenín. Á stríðsárunum var Lenín í útlegð í Sviss þar sem hann varð fljótlega einn af leiðtogum þess hluta alþjóðlegu sósíalistahreyfingarinnar sem barðist gegn heimsstyrjöldinni. Nefndist sá hópur Zimmerwald-hreyfingin eftir ráðstefnu sem haldin var í samnefndum bæ í Sviss.

Eftir misheppnaðar tilraunir bráðabirgðastjórnarinnar til að ráðast til atlögu við þýska herinn í júní 1917 jókst fylgi bolsévika innan ráðanna verulega og stefna Leníns naut fljótlega meirihlutafylgis þar. Uppreisn sjóliða í Kronstadt sem vildu „allt vald til ráðanna“ var þó gerð án þátttöku bolsévika og rann fljótlega út í sandinn. Í kjölfarið flýðu Lenín og nokkrir aðrir leiðtogar hreyfingarinnar til Finnlands en aðrir voru handteknir. Uppreisn hershöfðingjans Kornilovs í ágúst varð hins vegar til þess að Kerenskij kallaði á her ráðanna, rauðu varðliðana, til þess að verja bráðabirgðastjórnina.

Októberbyltingin

Í september leysti ráðið í Pétursborg handtekna bolsévika úr haldi og einn þeirra, Leó Trotskíj, var gerður að forseta ráðsins. Í október sneri Lenín heim frá Finnlandi og miðstjórn Kommúnistaflokksins samþykkti formlega að standa fyrir valdatöku. Hin svokallaða októberbylting hófst í Tallinn 23. október 1917, en tveimur dögum síðar í Pétursborg (25. október eða 7. nóvember að okkar tímatali). Gekk sú bylting tiltölulega hratt fyrir sig og lítið mannfall varð. Bráðabirgðastjórnin var leyst upp en í staðinn tekin upp ráðstjórn (r. sovnarkom) undir stjórn alþýðufulltrúa. Meðal fyrstu aðgerða ráðstjórnarinnar voru að færa allt land í hendur bænda, þjóðnýta banka, fela ráðunum stjórn verksmiðja, hækka laun og koma á átta stunda vinnudegi. Bankainnistæður og eignir kirkjunnar voru gerðar upptækar. Þrátt fyrir deilur innan bolsévikahreyfingarinnar var ákveðið að ganga til friðarsamninga við Þjóðverja að tillögu Leníns, en sumir bolsévikar, til dæmis Nikolaj Búkharín, vildu halda stríðinu áfram og breyta því í stéttastríð.



Lenín og Trotskíj gegndu báðir mikilvægu hlutverki í rússnesku byltingunni. Hér er sá fyrrnefni í ræðustól og Trotskíj stendur við ræðupallinn hægra megin.

Bolsévikar náðu völdum víðast hvar í Rússlandi, en mörg þeirra landa sem áður höfðu tilheyrt ríki Rússakeisara lentu undir forræði Þjóðverja við gerð friðarsamningsins í Brest-Litovsk í mars 1918. Urðu þá til sjálfstæð ríki í Póllandi, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi, Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan. Í kjölfarið gerðu nokkur ríki innrás í Rússland, þar á meðal Bretland, Frakkland, Bandaríkin og Tyrkjaveldi. Einnig urðu til sjálfstæðir herir rússneskra gagnbyltingarmanna, svokallaðra hvítliða, undir forystu hershöfðingjanna Denikín, Júdenitsj og Koltsjak.

Eftir endalok heimsstyrjaldarinnar, veturinn 1918-1919, brutust út byltingar víða í Mið-Evrópu þar sem komið var á ráðstjórnum. Má þar nefna ráðstjórnina í Ungverjalandi og ráðstjórnir víða í Þýskalandi, til dæmis í München. Á þessum tíma gerðu rússneskir bolsévíkar sér von um að byltingin þar myndi breiðast út um allan heim og stofnuðu til Komintern, alþjóðasambands Kommúnista, sem var starfrækt til 1943. Ráðstjórnirnar voru hins vegar alls staðar brotnar á bak aftur með vopnavaldi eftir skamma setu – nema í Rússlandi.

Árin 1918-1921 geisaði borgarastyrjöld í Rússlandi en henni lauk með sigri rauða hersins og ráðstjórnarinnar á hvítliðum. Í kjölfarið brast á hungursneyð sem geisaði veturinn 1921-1922. Í árslok 1922 voru Sovétríkin stofnuð sem ríkjasamband fjögurra ríkja, Rússlands, Hvíta-Rússlands, Úkraínu og Kákasusríkjasambandsins sem í voru Armenía, Aserbaídsjan og Georgía.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Gagnleg rit:

  • Acton, Edward, Rethinking the Russian Revolution (Reading History) (London-New York, 1990).
  • Carr, Edward Hallett, A History of Soviet Russia: The Bolshevik Revolution 1917-1923, 3 bindi (London, 1960-1963).
  • Chamberlin, William Henry, The Russian Revolution, 2 bindi (New York, 1935).
  • Ferro, Marc, La Révolution de 1917 (Paris, 1997, frumútg. 1967 & 1976).
  • Gerschenkron, Alexander, Economic Backwardness in a Historical Perspective (Cambridge, Massachusetts, 1962).
  • Mayer, Arno J., The Furies: Violence and Terror in the French and Russian Revolutions (Princeton, New Jersey, 2000).
  • Lenin, V.I., Revolution at the Gates: A Selection of Writings from February to October 1917, ritstj. Slavoj Zizek (London, 2002).
  • Reed, John, Ten Days that Shook the World (New York, 1919).
  • Steinberg, Mark D., Proletarian Imagination: Self, Modernity, and the Sacred in Russia, 1910-1925 (Ithaca, New York, 2002).
  • White, James D., The Russian Revolution: A Short History (London, 1994).

Myndir:


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hvað var októberbyltingin?
  • Hvað gerðist í byltingunum í Rússlandi árið 1917?
  • Hverjar voru orsakir rússnesku byltingarinnar?
...