Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar rætt er um frönsku upplýsinguna er vísað í tímabil á átjándu öld og líf og skriftir hóps franskra menntamanna á þessum tíma. Spurningin um hvað franska upplýsingin fól í sér er hins vegar flóknari og í raun ómögulegt að svara í stuttu máli. Það má með nokkrum sanni halda því fram að hún sé eitt mest rannsakaða fyrirbæri menningarsögunnar í sagnfræði og heimspeki. Ekki er þó alltaf talað um „upplýsingu“ þegar vísað er til tímabilsins. Margir tala einnig um öld skynseminnar en þá er gjarnan vísað í lengra tímabil sem hefst um miðbik sautjándu aldar með verkum heimspekinga eins og René Descartes (1596–1650).
Tímabilið sem rætt er um hefst um það leyti sem Loðvík XV. tekur við krúnunni í Frakklandi árið 1715. Stjórnarár hans einkenndust af upplausn og getuleysi og fór því snemma að bera á því að fólk hittist á fínni kaffistofum, svokölluðum salons, til að ræða sín á milli um ástandið í samfélaginu. Stjórnspekihugmyndir frá Bretlandseyjum, svo sem þær sem hægt var að lesa um í verkum Johns Lockes (1632–1704), urðu fljótt ráðandi umræðuefni. Smám saman fylgdu náttúruvísindi Isaacs Newtons (1642–1727) með og þótti eðlisfræði í anda Descartes fljótlega dæmi um forna hugsun sem þyrfti að hafna. Gagnrýni á skipulögð trúarbrögð varð einnig mjög áberandi og varð svokallaður „deismi“ ráðandi hugarfar. Samkvæmt þeirri trú er tilvist æðri veru ekki hafnað en hugmyndir um hinn refsandi Guð sem skiptir sér af málefnum fólks (til dæmis með kraftaverkum) eru harðlega gagnrýndar. Frönsku upplýsingunni lýkur með byltingunni árið 1789 og þeim umbrotum sem fylgdu í kjölfarið. Byltingin byggðist á þeim nýju hugmyndum um borgarvitund og mannréttindi sem höfðu verið að gerjast áratugina á undan. Framámenn byltingarinnar eru sjaldan taldir til upplýsingarmanna.
Sá sem vill ræða um frönsku upplýsinguna er nokkuð öruggur ef hann vísar fyrst og fremst í tímabilið í kringum útgáfu Alfræðibókarinnar.
Upplýsingin er tengd umbrotum í frönsku menntalífi órofa böndum og gleymist oft að hún kom fram í flestum löndum Evrópu. Það sem greinir frönsku upplýsinguna frá samsvarandi stefnum í öðrum löndum er hversu snemma hún náði sér á strik og hversu áberandi gagnrýni á yfirvöld var. Þýsk upplýsing hafði til dæmis geysilega mikil áhrif á Norðurlöndum og voru einkenni og áhrif hennar að einhverju leyti komin frá andlegum og veraldlegum yfirvöldum. Friðrik mikli taldi sig til að mynda vera upplýstan einvald og horfðu sumir franskir upplýsingarmenn til hans um tíma sem nokkurs konar fyrirmyndar. Upplýsingartímabilið í Skotlandi hafði einnig töluverða sérstöðu. Helstu forkólfar þess, hugsuðir eins og David Hume (1711–1776) og Adam Smith (1723–1790), verða að teljast með merkustu mönnum í andlegu lífi Evrópu á átjándu öld.
Þrír heimspekingar eru iðulega nefndir í sömu andrá og franska upplýsingin. Það eru þeir Charles de Secondat, sem við þekkjum fremur undir nafninu Montesquieu (1689–1755), François-Marie Arouet sem betur er þekktur undir höfundarnafni sínu, Voltaire (1694–1778) og Denis Diderot (1713–1784). Stundum er vísað til fremstu hugsuða tímabilsins með franska orðinu Les Philosophes. Skynsemistrúin sem boðuð var í upplýsingunni var fyrst og fremst sett fram í verkum sem byggðu á hugmyndaauðgi, ímyndunarafli og brennandi hugsjónum. Það voru ekki alltaf vísindin sem slík sem hrifu lesendur með sér og sannfærðu um mátt skynseminnar. Önnur nöfn sem eru ekki síður tengd þessum tíma eru Buffon greifi (1707–1788), Claude Adrien Helvétius (1715–1771), Jean-Baptiste le Rond d'Alembert (1717–1783), d'Holbach barón (1723–1789) og Nicolas de Condorcet (1743–1794). Jean-Jacques Rousseau (1712–1778) er einnig gjarnan nefndur sem hluti þessa hóps en að mörgu leyti er hann of frumlegur hugsuður til að geta fallið undir slíkar skilgreiningar. Sem dæmi má nefna kenningar hans um stéttaskiptingu og ójöfnuð sem þóttu ekki við hæfi í fínni stofum Parísarborgar.
Sá sem vill ræða um frönsku upplýsinguna er nokkuð öruggur ef hann vísar fyrst og fremst í tímabilið í kringum útgáfu Alfræðibókarinnar (Encyclopédie, ou dictionnaire raisonné des sciences, des arts et des métiers) (1751–1772) sem Diderot ritstýrði. Í þetta mikla verk átti að safna saman allri þekkingu sem var til staðar á átjándu öld. Gagnrýnendur verksins börðust hatrammlega gegn útgáfu þess á þeim forsendum að það væri ein samfelld árás á kirkju og konung og að textarnir væru ónákvæmir og ranglega farið með staðreyndir. Aðrir gagnrýnendur kvörtuðu sáran yfir að mikið af texta verksins væri stolið. Þeir sem stóðu fyrir útgáfunni létu slíkt tal ekki hafa áhrif á sig. Alfræðibókinni var ætlað að hjálpa til við að mennta fólk víðs vegar um Evrópu. Ritgerðirnar sem birtust í henni áttu að hvetja lesendur til að draga eigin ályktanir og vera gagnrýna í hugsun. Eintök af henni voru því ekki velkomin um alla Evrópu þar sem völd kirkju og konungs fóru saman og voru varin af miklu harðfylgi.
Mynd:
Henry Alexander Henrysson. „Hvað er franska upplýsingin?“ Vísindavefurinn, 21. maí 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=10807.
Henry Alexander Henrysson. (2013, 21. maí). Hvað er franska upplýsingin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=10807
Henry Alexander Henrysson. „Hvað er franska upplýsingin?“ Vísindavefurinn. 21. maí. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=10807>.