Voltaire fæddist í París árið 1694. Fjölskylda hans var ágætlega stöndug og ætlaðist til að hann lærði lög og stefndi á góða opinbera stöðu. Bókmenntir áttu þó hug hans allan og hafði hann ekki hug á öðru en að gera skáldskap að ævistarfi sínu. Kímnigáfa hans og lífsgleði gerðu það verkum að hann komst áfram innan menningarheims Parísarborgar. Velviljaðar og mikilverðar persónur voru honum innan handar og varð hann ungur helsta leikritaskáld Frakka og þeirra eftirtektarverðasta samkvæmisljón. Hann var kominn á miðjan aldur þegar heimspekileg verk eftir hann fara að koma út. Þá hafði hann kynnst enskum náttúruvísindum og bókmenntum sem hann taldi mikilvægt að kynna löndum sínum. Heimspekileg bréf frá Englandi (1733) var fyrsta bókin í þessum anda. Hún var bönnuð í Frakklandi sem gerði þó ekkert nema að auka hróður hennar og höfundarins. Nokkrum áratugum síðar kom Heimspekiorðabókin (1764) út, sem gefur nokkuð skýra mynd af skoðunum hans. Nokkrar heimspekilegar sögur komu út í millitíðinni, Zadig eða örlögin (1748) og Birtíngur eða bjartsýnin (1759) eru líklega þeirra þekktastar. Míkrómegas (1752) er einnig saga sem allt áhugafólk um heimspeki og hugmyndaheim sautjándu og átjándu aldar lætur ekki fram hjá sér fara. Voltaire lést árið 1778. Heimspekingurinn Voltaire var baráttumaður í nafni skynseminnar. Hann barðist fyrir brautargengi náttúruvísinda Isaacs Newtons (1642–1727) gegn þeirri gerð náttúruvísinda sem á hans tíma var áberandi í Frakklandi og má rekja til Renés Descartes (1596–1650). Því hefur verið haldið fram að enginn hafi átt meiri þátt í því að tengja söguna um eplið sem féll til jarðar eðlisfræði Newtons órofa böndum. Voltaire barðist gegn ofstæki og hjátrú á öllum sviðum mannlegrar hugsunar. Helst barðist hann þó gegn því sem hann taldi vera marklausa frumspeki. Fyrir honum átti heimspekileg hugsun að standast sömu próf og málflutningur fyrir rétti. Ef mál eru ekki rétt reifuð og ekki sett fram á skiljanlegan hátt skal þeim vísað frá. Mál- og hugsunarfrelsi var einnig eitt af hans helstu baráttumálum. Oft er sagt að hann hafi viljað berjast fram í rauðan dauðann fyrir rétti fólks til þess að halda fram skoðunum sínum jafnvel þótt hann hafi verið því ósammála. Það er kannski ekki alveg nákvæmt. Voltaire gat verið ansi andstyggilegur við þá sem voru honum ósammála og sýndi þeim lítið umburðarlyndi. En hann var samkvæmur í þeirri trú sinni að það átti ekki að vera hlutverk yfirvalda að þagga niður skoðanir. Skoðanir yrðu að standa eða falla í upplýstri samræðu. Voltaire var óviðjafnanlegur heimspekilegur baráttujaxl vegna ritfærni sinnar. Sem náttúruvísindamaður og frumlegur hugsuður varð hann gjarnan að treysta á aðra og lesendur grípa gjarnan í tómt ef þeir leita eftir heildstæðum kenningum í verkum hans. Mest treysti hann á ástkonu sína Madame du Châtelet (1706–1749) en hún var einn fremsti vísindamaður Frakklands á sínum tíma. Þau voru ekki alltaf sammála en fá pör hafa átt jafn frjóar heimspekilegar stundir og þau á meðan hann bjó á heimili hennar og manns hennar í Cirey í Champagnehéraði. Voltaire nálgaðist heimspekina eins og önnur viðfangsefni sín: viðaði að sér staðreyndum, kenningum og skoðunum, og rakti loks þræði sem hann taldi sig sjá. Hann sagði sögur og lesandinn átti ekki að þurfa að efast um hver væri hetja í sögunni og hver væri drambsami ónytjungurinn.
Það má þó draga fram einhvers konar heimspeki úr verkum Voltaires sem passar við viðtekin kenningakerfi. Annars vegar má lesa í verkum hans efahyggju sem beinist fyrst og fremst gegn möguleikanum á heimspekikerfum sem ætla sér til dæmis að færa sönnur á tilveru Guðs og greinarmun sálar og líkama, eins og Descartes lofaði í sínu frægasta riti. Hins vegar má draga fram jákvæðari heimspeki með siðfræðilegum undirtón. Henni er þá best lýst sem afbrigði frumstæðrar nytjastefnu. Voltaire fannst ekki mikið til náttúrulagakenninga koma sem byggðu siðferðisgreiningu sína á frumspekilegum grunni. Veraldleg ánægja og hamingja var það sem fyllti líf okkar tilgangi að hans mati. Rétt breytni var sú sem leiddi til mestrar ánægju fyrir einstaklinginn og forðaði viðkomandi frá hörmungum. Siðferði fælist í að leysa hagnýt vandamál með hamingju sína að leiðarljósi. Voltaire taldi að efnisleg gæði væru síst minna mikilvæg í hamingjuleitinni en andleg gæði. Þau síðarnefndu gætu fljótt breyst í andstæðu sína þegar hugsunin snerist eingöngu um sjálfa sig. Aðrir heimspekingar höfðu vissulega orðað svipaðar hugmyndir. Landar Voltaires, Michel de Montaigne (1533–1592) og Pierre Bayle (1647–1706), höfðu gert heimspekilega efahyggju blandaða skynsemistrú að listgrein. Skoski heimspekingurinn David Hume (1711–1776) gerði efahyggjunni einnig einstök skil í verkum sínum um miðbik átjándu aldar ásamt því að umbreyta hugmyndum manna um siðfræði. Enda er heimspekilegt mikilvægi verka hans augljósara en áhrif Voltaires. En að því sögðu verður þó að geta þess að enginn hefur skrifað skemmtilegri heimspeki en Voltaire. Enginn annar en hann hefði nálgast sjálft sannleikshugtakið með því að vitna fyrst í Jóhannesarguðspjall („Pílatus segir við hann: „Hvað er sannleikur?“. Að svo mæltu gekk hann aftur út“) og kveða svo upp úr með að það sé mikill skaði fyrir mannkynið að Pílatus hafi verið svo óforvitinn og ekki beðið eftir svari! Vissulega er margt af því sem Voltaire skrifaði farsakennt, en undir niðri kemur fram skýr sannfæring, viska og smekkvísi um það hvernig manninum farnast best í þessu lífi. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hver var fyrsta konan sem var viðurkenndur heimspekingur? Hverjar eru þær helstu? eftir Gunnar Harðarson.
- Hvað er frumspeki? eftir Geir Þ. Þórarinsson.
- Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki? eftir Hauk Má Helgason.
- Hvað gerir spurningu heimspekilega? eftir Geir Þ. Þórarinsson.
- Birtíngur eða bjartsýnin, íslensk þýðing eftir Halldór Laxness með forspjalli eftir Þorstein Gylfason. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags 1975.
- Zadig eða örlögin, íslensk þýðing eftir Hólmgrím Heiðreksson með inngangi eftir Ásdísi R. Magnúsdóttur. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags 2007.
- Míkrómegas, íslensk þýðing eftir Gróu Sigurðardóttur. Ritið 3/2010, bls. 171–187.
- Mynd af Voltaire við skriftir: Verk eftir Pierre Charles Baquoy frá um 1795. Voltaire á Wikipedia.org. Sótt 4. 2 2011.
- Château de Cirey: Émilie du Châtelet á Wikipedia.org. Sótt 4. 2 2011.