Í engu af dæmunum hér að ofan er spurningin heimspekileg. Hún verður fyrst heimspekileg þegar ég spyr hennar í þeim tilgangi að finna svar við henni með því að stunda heimspeki. En þá vaknar spurningin: Hvað er heimspeki? Þeirri spurningu verður ekki reynt að svara hér enda er þegar til svar við henni á Vísindavefnum eftir Hauk Má Helgason. Haukur segir meðal annars:
Heimspeki er sú iðja að glíma af heiðarleik og hugrekki við spurningar sem varða tilvist mannsins, bæði hvað er og hvað ber (verufræði og siðfræði) og spurningar sem spretta af þessum og virðist við rannsókn nauðsynlegt að svara fyrst: Hvernig má vita nokkurn hlut? Er til einhver skylda? Eða jafnvel: Ættum við að spyrja okkur þessara spurninga?Ef við föllumst á skilgreiningu Hauks og jafnframt á það svar sem er gefið í fyrstu efnisgrein hér að ofan, það er að segja að spurning sé heimspekileg ef hún krefst þess að við ástundum heimspeki til að svara henni og að heimspeki sé heiðarleg og hugrökk glíma við ákveðnar tegundir spurninga, þá er ljóst að spurning er heimspekileg ef hún krefst heiðarlegrar og hugrakkrar glímu til að svara henni. En tökum eftir því að Haukur gefur sér að heimspeki sé glíma við ákveðnar tegundir spurninga: spurningar um verufræði (hvað er) og siðfræði (hvað ber) auk annarra spurninga sem vakna í glímunni við þessar, með öðrum orðum ákveðnar grundvallar spurningar. Áðan sögðum við að ein og sama spurningin gæti hugsanlega verið bæði heimspekileg og ekki heimspekileg eftir því í hvaða tilgangi hún er borin upp. En nú er ljóst að ekki geta allar spurningar verið heimspekilegar. Til dæmis eru spurningarnar „Hvenær á Alma afmæli?“, „Hvað eigum við að hafa í matinn í kvöld?“ og „Finnst þér þetta ekki fallegt?“ ekki slíkar spurningar enda þarf ekki að stunda heimspeki til þess að svara þeim. Það er svo annað mál að það má vel spyrja heimspekilegra spurninga í framhaldi af þessum spurningum, þær geta vakið upp aðrar heimspekilegar spurningar, eins og „Hvað er fegurð?“ – en það er samt ekki sama spurningin og „Finnst þér þetta ekki fallegt?“ Niðurstaðan okkar virðist því vera að spurning sé heimspekileg ef hún krefst þess að við stundum heimspeki til að svara henni og að einungis sumar spurningar séu slíkar spurningar og þær geti stundum verið heimspekilegar og stundum ekki eftir því í hvaða tilgangi þær eru bornar upp. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eru til svör við öllu? eftir Erlend Jónsson
- Hver er erfiðasta spurningin í heiminum? eftir Erlend Jônsson
- Af hverju svarið þið ekki þessari spurningu? eftir Eyju Margréti Jónsdóttur
- Hvort eru konur eða karlar fremri í heimspeki? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur
- Flickr.com. Sótt 2.3.2010.