Flækjum nú aðeins hlutina með því að láta S fela í sér ósanna forsendu. S er til dæmis spurningin „Hvers vegna eru fílar minni en býflugur?“. Þarna er í raun verið að spyrja hvers vegna eitthvað sem er ósatt sé satt. Til að svara slíkum spurningum þarf að gefa svar sem heldur tryggð við hina ósönnu forsendu og er þá líka ósatt, til dæmis „Fílar eru minni en býflugur vegna þess að þeir eru svo feimnir.“ Viljum við halda okkur við sannleikann í svörum okkar vandast málið. Við getum þá ekki svarað S beint, heldur verðum að gefa óbeint svar sem felur í sér leiðréttingu á hinni ósönnu forsendu, til dæmis „Fílar eru ekki minni en býflugur.“ Þetta er í rauninni ekki svar við S og spyrjandinn getur spurt „Af hverju svarið þið ekki S?“. Við getum þá svarað með „Vegna þess að S felur í sér ósanna forsendu og við viljum halda okkur við sannleikann.“ Spurningin „Af hverju svarið þið ekki þessari spurningu?“ er frábrugðin öðrum spurningum sem hvíla á ósönnum forsendum að því leyti að það er ekki heldur hægt að svara henni beint með því að segja ósatt. Þegar spurt er „Hvers vegnar eru fílar minni en býflugur?“ er hægt að spila með og svara spurningunni beint með því að gefa ósatt svar. En þegar spurt er „Af hverju svarið þið ekki þessari spurningu?“ er einfaldlega ómögulegt að taka þátt í leiknum. Ef við svörum „Við svörum ekki þessari spurningu vegna þess að við viljum það ekki“ erum við með þeirri athöfn okkar að svara að afneita forsendunni sem gengið er út frá bæði í spurningunni og svarinu. Því er aðeins tvennt til ráða og hvorugt felur í sér beint svar við spurningunni. Annars vegar má leyfa spyrjandanum að hafa rétt fyrir sér með forsendu sinni um að spurningunni sé ekki svarað. Það er gert með þögninni, það er með því að gefa ekkert svar. Hinn kosturinn er að gefa óbeint svar með leiðréttingu, eins og til dæmis „Við svörum spurningunni víst!“ Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er þetta spurning? eftir Erlend Jónsson
- Hvað eru mörg rétt svör til við þessari spurningu? eftir Erlend Jónsson