Kristín Svíadrottning (fyrir miðju) með Descartes sér við hlið (til hægri). Myndin er hluti málverks eftir Pierre Louis Dumesnil (1698-1781).
Sextos Empeireikos: Fellið ekki dóma! Michel Eyquem de Montaigne: Hvað veit ég? René Descartes: Ég hugsa, þess vegna er ég til.Descartes hefur haft ómæld áhrif á sálfræði, heimspeki, vitsmunafræði og gervigreindarfræði nútímans. Ástæðan er helst sú að hann mótaði, eða bjó jafnvel til, viðteknar og alþýðlegar hugmyndir fólks um eðli hugsunar, líkama, sálar, hugmynda og fleira. Stór hluti þessara fræða felst nú í því að losna undan heljartaki flokkunar og skilgreininga Descartes. Í hugtakakerfi Descartes eru til þrjár verundir, ein fullkomin og óendanleg sem er Guð og tvær takmarkaðar og endanlegar sem eru sál og líkami. Sálin og líkaminn eru óeðlislíkar verundir. Eðli sálarinnar er að hugsa en líkaminn hefur rúmtak í eðli sínu. Nýlegar kenningar um tengsl sálar (eða hugar) og líkama reyna margar hverjar að brjótast út úr þessari tvíhyggju um sál og líkama, en það hefur reynst þeim erfitt þar sem slíkar hugmyndir eru orðnar fólki svo tamar að það gerir gjarnan ráð fyrir þeim án nokkurrar umhugsunar. Descartes er kannski víðkunnastur fyrir hinn róttæka efa. Honum beitir hann snilldarlega í Hugleiðingum um frumspeki til að kollvarpa öllum sínum fyrri skoðunum og byggja á nýjum grunni. Hann áttar sig á því að það er mögulegt að illur andi blekki hann á kerfisbundinn hátt, þannig að allt sem hann sér, heyrir, heldur, trúir og svo framvegis sé blekking. En eitt er það sem aldrei getur verið blekking og það er sú staðreynd að ég er blekktur og þar af leiðandi að ég er að hugsa. Ég hugsa og því hlýt ég að vera til. Tilvist minni getur andinn ekki haggað. Þannig varð til setningin 'Ég hugsa, þess vegna er ég til', sem hefur frægust orðið á latínu Cogito, ergo sum (og er hún stundum kölluð 'cogitoið'). Á þessum trausta grunni vildi Descartes byggja alla sína heimspeki og öll vísindi og því heitir þetta þekkingarfræðileg bjarghyggja (e. foundationalism). Hvort það heppnaðist er önnur saga. Tengt efni á Vísindavefnum
- Berum við ábyrgð á eigin gerðum ef hægt er að spá fyrir um þær? eftir Ólaf Pál Jónsson.
- Er hægt að vita hvort mann er að dreyma? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Er möguleiki að okkar raunveruleiki sé draumsýn eða jafnvel skapaður veruleiki, samanber kvikmyndina The Matrix? eftir Atla Harðarson.
- Er sálin til? eftir Hauk Má Helgason.
- Hvað er algebra og til hvers er hún kennd í skólum? eftir Stefán Inga Valdimarsson og Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni? eftir Atla Harðarson.
- Hvað er hugmynd? eftir Erlend Jónsson.
- Hvað er rúmfræði? eftir Rögnvald G. Möller.
- Hvernig get ég sannfært sjálfan mig svo vel um að ég sé ekki til að ég geti sýnt öðrum fram á það? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Hvert er upphaf algebru og hvenær barst hún til Evrópu? eftir Kristínu Bjarnadóttur.
- Descartes, René. 1998. Orðræða um aðferð (þýð. Magnús G. Jónsson m. inngangi og skýringum e. Þorstein Gylfason). Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
- Descartes, René. 2001. Hugleiðingar um frumspeki (þýð. Þorsteinn Gylfason sem einnig ritar inngang og skýringar). Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
- Mynd af Descartes einum er af René Descartes. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
- Mynd af Descartes ásamt Svíadrottningu er af Le Siècle.