Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?

Elmar Geir Unnsteinsson


Æviágrip

René Descartes (stundum nefndur Renatus Cartesius, upp á latínu) var franskur heimspekingur og stærðfræðingur. Hann fæddist í La Haye í Touraine í Frakklandi 31. mars árið 1596. Bærinn var raunar seinna látinn heita eftir honum; árið 1802 fékk hann nafnið La Haye-Descartes og 1967 var nafnið einfaldlega stytt í Descartes.

Descartes settist ungur á skólabekk hjá Kristsmunkum í La Fléche en þar lærði hann meðal annars klassísk fræði, rökfræði, hefðbundna aristótelíska skólaspeki og stærðfræði. Síðar hóf hann háskólanám í lögfræði og útskrifaðist 1616, tvítugur að aldri, en varð lögfræðinni fljótt afhuga. Að tveimur árum liðnum skráði Descartes sig til herþjónustu og ferðaðist víða.

Um þetta skeið urðu ýmis tímamót; Descartes kynntist Isaac Beeckman nokkrum sem Descartes sagði hafa vakið sig af værum svefni. Sagt er að hann hafi fengið einhvers konar vitrun um 'grundvöll vísindanna' og gert undursamlega uppgötvun þótt ekki sé víst hver hún var nákvæmlega. Allt þetta átti sér stað á þriggja ára tímabili, frá 1618 til 1620, í þessari röð og alltaf á sama deginum – 10. nóvember.

Aftur lagðist Descartes í ferðalög, en settist svo að í París árið 1625 og komst þar inn í hóp fræðimanna fyrir tilstuðlan vinar síns, Marin Mersenne (1588-1648). Descartes skrifaði fáeinar ritgerðir, tók þátt í þjóðlífinu í París og hélt til að mynda ræðu í samsæti nokkru sem vakti mikla athygli. Árið 1628 settist hann að í Hollandi til að hann fengi frið til skrifta. Það var ekki fyrr en 1637 að hann gaf loks út bók, sem olli miklu fjaðrafoki, en það var Orðræða um aðferð. Henni fylgdu þrjár ritgerðir um ljósfræði, veðurfræði og rúmfræði, þar sem hinni vísindalegu aðferð Descartes var beitt. Svo gaf hann út Hugleiðingar um frumspeki 1641 og Lögmál heimspekinnar 1644. Árið 1649 fluttist hann búferlum til Svíþjóðar til að kenna Kristínu drottningu, en þau höfðu átt í bréfasamskiptum um nokkurn tíma.

Descartes var mjög veikur maður allt sitt líf, og var til að mynda ekki vanur því að vakna snemma. En í Svíþjóð skyldi hann vakna klukkan fimm að morgni til að leiðbeina drottningunni. Descartes fékk því fljótlega lungnabólgu sem dró hann til dauða í febrúar 1650. Síðasta rit hans var Hræringar sálarinnar. Hann rétt lifði til að sjá fyrstu eintök þess rits. Hinstu orð Descartes voru „ça, mon âme, il faut partir” (jæja, sál mín, tími til að fara).


Kristín Svíadrottning (fyrir miðju) með Descartes sér við hlið (til hægri). Myndin er hluti málverks eftir Pierre Louis Dumesnil (1698-1781).

Fræðastörf

Helsta framlag Descartes til stærðfræði var uppfinning hans á hnitarúmfræði (sem á ensku einmitt er kallað 'Cartesian coordinate system'). Fyrir hans daga höfðu algebra og rúmfræði verið algjörlega aðskilin; Descartes sameinaði þetta tvennt í hnitarúmfræði og olli þannig byltingu.

Sagt er að nýöldin í heimspeki hefjist með Descartes. Eftir hans daga átti kristileg skólaspeki ekki upp á pallborðið lengur. En Descartes fékk margvíslega aðstoð. Þar ber helst að nefna enduruppgötvun á efahyggju Forn-Grikkja. Forn efahyggja hafði fengið að liggja óáreitt í langan tíma en fékk uppreisn æru þegar Michel Eyquem de Montaigne (1533-1592) hóf að beita aðferðum hennar í ritgerðum sínum. Montaigne hafði nefnilega komist í rit Sextosar Empeireikosar (250?-325?) um þessa tegund heimspeki. Þannig barst efahyggja, þá helst pyrrhonismi, frá Sextosi til Montaigne og þaðan til Descartes. Hægt væri að einfalda þessa sögu allverulega með því að vitna í frægustu setningar þessara manna, og gera úr þeim furðulega samræðu:

Sextos Empeireikos: Fellið ekki dóma!

Michel Eyquem de Montaigne: Hvað veit ég?

René Descartes: Ég hugsa, þess vegna er ég til.

Descartes hefur haft ómæld áhrif á sálfræði, heimspeki, vitsmunafræði og gervigreindarfræði nútímans. Ástæðan er helst sú að hann mótaði, eða bjó jafnvel til, viðteknar og alþýðlegar hugmyndir fólks um eðli hugsunar, líkama, sálar, hugmynda og fleira. Stór hluti þessara fræða felst nú í því að losna undan heljartaki flokkunar og skilgreininga Descartes.

Í hugtakakerfi Descartes eru til þrjár verundir, ein fullkomin og óendanleg sem er Guð og tvær takmarkaðar og endanlegar sem eru sál og líkami. Sálin og líkaminn eru óeðlislíkar verundir. Eðli sálarinnar er að hugsa en líkaminn hefur rúmtak í eðli sínu. Nýlegar kenningar um tengsl sálar (eða hugar) og líkama reyna margar hverjar að brjótast út úr þessari tvíhyggju um sál og líkama, en það hefur reynst þeim erfitt þar sem slíkar hugmyndir eru orðnar fólki svo tamar að það gerir gjarnan ráð fyrir þeim án nokkurrar umhugsunar.

Descartes er kannski víðkunnastur fyrir hinn róttæka efa. Honum beitir hann snilldarlega í Hugleiðingum um frumspeki til að kollvarpa öllum sínum fyrri skoðunum og byggja á nýjum grunni. Hann áttar sig á því að það er mögulegt að illur andi blekki hann á kerfisbundinn hátt, þannig að allt sem hann sér, heyrir, heldur, trúir og svo framvegis sé blekking. En eitt er það sem aldrei getur verið blekking og það er sú staðreynd að ég er blekktur og þar af leiðandi að ég er að hugsa. Ég hugsa og því hlýt ég að vera til. Tilvist minni getur andinn ekki haggað. Þannig varð til setningin 'Ég hugsa, þess vegna er ég til', sem hefur frægust orðið á latínu Cogito, ergo sum (og er hún stundum kölluð 'cogitoið'). Á þessum trausta grunni vildi Descartes byggja alla sína heimspeki og öll vísindi og því heitir þetta þekkingarfræðileg bjarghyggja (e. foundationalism). Hvort það heppnaðist er önnur saga.

Tengt efni á Vísindavefnum

Frekara lesefni og myndir

  • Descartes, René. 1998. Orðræða um aðferð (þýð. Magnús G. Jónsson m. inngangi og skýringum e. Þorstein Gylfason). Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
  • Descartes, René. 2001. Hugleiðingar um frumspeki (þýð. Þorsteinn Gylfason sem einnig ritar inngang og skýringar). Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
  • Mynd af Descartes einum er af René Descartes. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Mynd af Descartes ásamt Svíadrottningu er af Le Siècle.

Höfundur

Elmar Geir Unnsteinsson

lektor í heimspeki við University College Dublin og vísindamaður við Hugvísindasvið HÍ

Útgáfudagur

15.11.2005

Spyrjandi

Eva María Emilsdóttir
Þórunn Jónsdóttir, f. 1989
Unnur Ósk Unnsteinsdóttir

Tilvísun

Elmar Geir Unnsteinsson. „Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn, 15. nóvember 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5406.

Elmar Geir Unnsteinsson. (2005, 15. nóvember). Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5406

Elmar Geir Unnsteinsson. „Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn. 15. nóv. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5406>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?


Æviágrip

René Descartes (stundum nefndur Renatus Cartesius, upp á latínu) var franskur heimspekingur og stærðfræðingur. Hann fæddist í La Haye í Touraine í Frakklandi 31. mars árið 1596. Bærinn var raunar seinna látinn heita eftir honum; árið 1802 fékk hann nafnið La Haye-Descartes og 1967 var nafnið einfaldlega stytt í Descartes.

Descartes settist ungur á skólabekk hjá Kristsmunkum í La Fléche en þar lærði hann meðal annars klassísk fræði, rökfræði, hefðbundna aristótelíska skólaspeki og stærðfræði. Síðar hóf hann háskólanám í lögfræði og útskrifaðist 1616, tvítugur að aldri, en varð lögfræðinni fljótt afhuga. Að tveimur árum liðnum skráði Descartes sig til herþjónustu og ferðaðist víða.

Um þetta skeið urðu ýmis tímamót; Descartes kynntist Isaac Beeckman nokkrum sem Descartes sagði hafa vakið sig af værum svefni. Sagt er að hann hafi fengið einhvers konar vitrun um 'grundvöll vísindanna' og gert undursamlega uppgötvun þótt ekki sé víst hver hún var nákvæmlega. Allt þetta átti sér stað á þriggja ára tímabili, frá 1618 til 1620, í þessari röð og alltaf á sama deginum – 10. nóvember.

Aftur lagðist Descartes í ferðalög, en settist svo að í París árið 1625 og komst þar inn í hóp fræðimanna fyrir tilstuðlan vinar síns, Marin Mersenne (1588-1648). Descartes skrifaði fáeinar ritgerðir, tók þátt í þjóðlífinu í París og hélt til að mynda ræðu í samsæti nokkru sem vakti mikla athygli. Árið 1628 settist hann að í Hollandi til að hann fengi frið til skrifta. Það var ekki fyrr en 1637 að hann gaf loks út bók, sem olli miklu fjaðrafoki, en það var Orðræða um aðferð. Henni fylgdu þrjár ritgerðir um ljósfræði, veðurfræði og rúmfræði, þar sem hinni vísindalegu aðferð Descartes var beitt. Svo gaf hann út Hugleiðingar um frumspeki 1641 og Lögmál heimspekinnar 1644. Árið 1649 fluttist hann búferlum til Svíþjóðar til að kenna Kristínu drottningu, en þau höfðu átt í bréfasamskiptum um nokkurn tíma.

Descartes var mjög veikur maður allt sitt líf, og var til að mynda ekki vanur því að vakna snemma. En í Svíþjóð skyldi hann vakna klukkan fimm að morgni til að leiðbeina drottningunni. Descartes fékk því fljótlega lungnabólgu sem dró hann til dauða í febrúar 1650. Síðasta rit hans var Hræringar sálarinnar. Hann rétt lifði til að sjá fyrstu eintök þess rits. Hinstu orð Descartes voru „ça, mon âme, il faut partir” (jæja, sál mín, tími til að fara).


Kristín Svíadrottning (fyrir miðju) með Descartes sér við hlið (til hægri). Myndin er hluti málverks eftir Pierre Louis Dumesnil (1698-1781).

Fræðastörf

Helsta framlag Descartes til stærðfræði var uppfinning hans á hnitarúmfræði (sem á ensku einmitt er kallað 'Cartesian coordinate system'). Fyrir hans daga höfðu algebra og rúmfræði verið algjörlega aðskilin; Descartes sameinaði þetta tvennt í hnitarúmfræði og olli þannig byltingu.

Sagt er að nýöldin í heimspeki hefjist með Descartes. Eftir hans daga átti kristileg skólaspeki ekki upp á pallborðið lengur. En Descartes fékk margvíslega aðstoð. Þar ber helst að nefna enduruppgötvun á efahyggju Forn-Grikkja. Forn efahyggja hafði fengið að liggja óáreitt í langan tíma en fékk uppreisn æru þegar Michel Eyquem de Montaigne (1533-1592) hóf að beita aðferðum hennar í ritgerðum sínum. Montaigne hafði nefnilega komist í rit Sextosar Empeireikosar (250?-325?) um þessa tegund heimspeki. Þannig barst efahyggja, þá helst pyrrhonismi, frá Sextosi til Montaigne og þaðan til Descartes. Hægt væri að einfalda þessa sögu allverulega með því að vitna í frægustu setningar þessara manna, og gera úr þeim furðulega samræðu:

Sextos Empeireikos: Fellið ekki dóma!

Michel Eyquem de Montaigne: Hvað veit ég?

René Descartes: Ég hugsa, þess vegna er ég til.

Descartes hefur haft ómæld áhrif á sálfræði, heimspeki, vitsmunafræði og gervigreindarfræði nútímans. Ástæðan er helst sú að hann mótaði, eða bjó jafnvel til, viðteknar og alþýðlegar hugmyndir fólks um eðli hugsunar, líkama, sálar, hugmynda og fleira. Stór hluti þessara fræða felst nú í því að losna undan heljartaki flokkunar og skilgreininga Descartes.

Í hugtakakerfi Descartes eru til þrjár verundir, ein fullkomin og óendanleg sem er Guð og tvær takmarkaðar og endanlegar sem eru sál og líkami. Sálin og líkaminn eru óeðlislíkar verundir. Eðli sálarinnar er að hugsa en líkaminn hefur rúmtak í eðli sínu. Nýlegar kenningar um tengsl sálar (eða hugar) og líkama reyna margar hverjar að brjótast út úr þessari tvíhyggju um sál og líkama, en það hefur reynst þeim erfitt þar sem slíkar hugmyndir eru orðnar fólki svo tamar að það gerir gjarnan ráð fyrir þeim án nokkurrar umhugsunar.

Descartes er kannski víðkunnastur fyrir hinn róttæka efa. Honum beitir hann snilldarlega í Hugleiðingum um frumspeki til að kollvarpa öllum sínum fyrri skoðunum og byggja á nýjum grunni. Hann áttar sig á því að það er mögulegt að illur andi blekki hann á kerfisbundinn hátt, þannig að allt sem hann sér, heyrir, heldur, trúir og svo framvegis sé blekking. En eitt er það sem aldrei getur verið blekking og það er sú staðreynd að ég er blekktur og þar af leiðandi að ég er að hugsa. Ég hugsa og því hlýt ég að vera til. Tilvist minni getur andinn ekki haggað. Þannig varð til setningin 'Ég hugsa, þess vegna er ég til', sem hefur frægust orðið á latínu Cogito, ergo sum (og er hún stundum kölluð 'cogitoið'). Á þessum trausta grunni vildi Descartes byggja alla sína heimspeki og öll vísindi og því heitir þetta þekkingarfræðileg bjarghyggja (e. foundationalism). Hvort það heppnaðist er önnur saga.

Tengt efni á Vísindavefnum

Frekara lesefni og myndir

  • Descartes, René. 1998. Orðræða um aðferð (þýð. Magnús G. Jónsson m. inngangi og skýringum e. Þorstein Gylfason). Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
  • Descartes, René. 2001. Hugleiðingar um frumspeki (þýð. Þorsteinn Gylfason sem einnig ritar inngang og skýringar). Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
  • Mynd af Descartes einum er af René Descartes. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Mynd af Descartes ásamt Svíadrottningu er af Le Siècle.
...