Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
John Locke var enskur heimspekingur og er oft álitinn merkastur bresku raunhyggjumannanna en hann var ekki síður áhrifamikill stjórnspekingur.
Locke fæddist þann 29. ágúst árið 1632 í Somerset á Englandi. Hann var menntaður í Westminster og Oxford, þar sem hann kenndi um skeið rökfræði og siðfræði, forngrísku og mælskulist. En Locke varð afhuga þeirri frumspekilegu skólaspeki sem hann hafði lært í Oxford. Hann hafði meiri áhuga á vísindum síns tíma og læknisfræði. Árið 1666 réði hann sig sem lækni og ritara hjá Anthony Ashley-Cooper, jarlinum af Shaftesbury. Árið 1675 lét hann af störfum sínum og hélt af heilsufarsástæðum til Frakklands þar sem loftslagið var mildara en Locke þjáðist af lungnasjúkdómi. Þar las hann meðal annars rit Rénés Descartes og Pierres Gassendi.
Locke sneri aftur til starfa hjá Ashley á Englandi árið 1679. Ashley var einarður andstæðingur Jakobs II., bróður Karls II. konungs, en Jakob II. var maður kaþólskur og sterk andstaða var við kaþólskt konungsveldi á Englandi. Ashley reyndi að setja lög sem kæmu í veg fyrir að Jakob kæmist til valda en það tókst ekki og varð hann að flýja England árið 1681. Hélt hann þá til Hollands þar sem hann lést tveimur árum síðar. Það ár flýði Locke einnig vegna stjórnmálaskoðana sinna og fyrri þátttöku í stjórnmálum enda álitinn landráðamaður í heimalandinu. Hann dvaldi í Hollandi til ársins 1689, lét lítið fyrir sér fara og fékkst við heimspeki og skriftir.
Locke sneri aftur til Englands eftir að Jakobi II. hafði verið ýtt frá völdum í dýrðlegu byltingunni 1688-89, eftir einungis þrjú ár á valdastóli, og Vilhjálmur frá Óraníu hafði tekið við. Næstu árin tók Locke þátt í stjórnmálum auk þess sem hann sinnti skrifum um trúmál og önnur efni. Árið 1689 kom út Bréf um trúfrelsi (Epistola de Tolerantia), 1693 komu út Hugleiðingar um uppeldismál (Some Thoughts Concerning Education) og 1695 kom út ritgerðin Réttmæti kristindómsins (The Reasonableness of Christianity). Locke er þó einkum þekktur fyrir tvö rit. Annað þeirra er Tvær ritgerðir um ríkisvald (Two Treatises of Government), sem hann samdi á árunum 1680-82 en komu fyrst út nafnlaust í London árið 1689. Hitt er Ritgerð um mannlegan skilning (An Essay Concerning Human Understanding), sem Locke hafði að líkindum hafið vinnu við árið 1671 eða skömmu síðar. Útdráttur úr henni kom fyrst út í Hollandi árið 1688 en verkið var fyrst gefið út í heild sinni tveimur árum síðar. Locke lést máttfarinn af veikindum þann 28. október árið 1704 í Essex.
Locke hafði mikinn áhuga á vísindum og meðal vina hans voru vísindamenn á borð við Isaac Newton og Robert Boyle. Sá síðarnefndi var mikilsverður málsvari eindahyggju, sem rekja má aftur til forngríska heimspekingsins Demókrítosar. Undir áhrifum frá Boyle og Gassendi gerðist Locke einnig málsvari eindahyggjunnar. En vísindin vöktu upp ýmsar spurningar um mannlega þekkingu.
Í Ritgerð um mannlegan skilning rannsakar Locke mannlega þekkingu, uppruna hennar og eðli, en ekki síður sálargáfur mannsins, getu og takmarkanir mannshugans til að afla þekkingar og viðföng hennar. Í fyrstu bók Ritgerðarinnar hafnaði Locke alfarið þeirri hugmynd að þekking eða hugtök væru meðfædd, eins og rökhyggjumenn höfðu haldið fram, en hann taldi að reynslan væri uppspretta þekkingar og alls efniviðar hugans. Hugurinn er við fæðingu eins og óskrifað blað (tabula rasa) en hefur ákveðna getu eða sálargáfur sem vinna úr reynslunni og lýsir önnur bók því hvernig reynslan leggur til efnivið hugans. Reynslan getur annars vegar verið ytri reynsla eða skynjun (e. sensation) og hins vegar innri reynsla eða íhugun (e. reflection). Eigin hugarstarfsemi, kenndir og hvatir þekkjum við af íhugun en eiginleika hlutanna í hinum ytra heimi þekkjum við í gegnum ytri reynslu eða skynreynslu. Locke gerði greinarmun, sem rekja má til Galileos og reyndar aftur til Demókrítosar, á frumlegum og annarlegum eiginleikum. Frumlegu eiginleikarnir tilheyra hlutunum sjálfum, svo sem stærð og lögun, en annarlegu eiginleikarnir eru háðir frumlegu eiginleikunum og skynjun, svo sem litir, lykt og bragð.
Úr reynslunni kemur því efniviður hugans, sem Locke kallar hugmyndir (e. ideas). Þær hugmyndir sem fást með beinni reynslu, annaðhvort innri eða ytri reynslu, nefnir Locke einfaldar hugmyndir (e. simple ideas). En auk þess getum við skeytt saman einföldum hugmyndum og alhæft út frá þeim og myndað þannig nýjar hugmyndir sem við höfum ekki beina reynslu af, heldur óbeina. Þessar hugmyndir, sem eru samsettar úr einföldum hugmyndum, nefnir Locke samsettar hugmyndir (e. complex ideas) og þær eru af tvennu tagi, annars vegar þær sem samsvara einhverjum hlut í hinum ytra heimi (e. ideas of substance) og svo þær sem hann nefnir hugmyndir um hætti (e. ideas of modes) og eru einkum stærðfræðileg og siðfræðileg hugtök. Við getum einnig borið saman ólíkar hugmyndir en úr samanburðinum geta orðið til frekari hugmyndir um tengsl hugtaka (e. ideas of relations). Að lokum getur hugurinn sértekið eiginleika og skilið frá öðrum eiginleikum. Mannleg þekking verður því til úr efniviði sem reynslan leggur til en mannshugurinn vinnur úr þessari reynslu á margvíslegan hátt. Um það fjallar fjórða og síðasta bók Ritgerðarinnar.
Locke taldi að til séu þrjú afbrigði þekkingar: þekking sem byggir á beitingu innsæisgáfunnar, þekking sem byggir á beitingu skynseminnar og ályktunum og að lokum þekking sem byggir á skynreynslu. Innsæisgáfan veitir öruggustu þekkinguna. Af innsæi okkar getum við til dæmis vitað að við sjálf erum sjálf til. Beiting skynseminnar getur veitt okkur ýmiss konar þekkingu líka, meðal annars um tilvist guðs. Að lokum veitir skynreynslan þekkingu á tilvist hluta í hinum ytra heimi. Þetta afbrigði þekkingar er ótryggast. Hér er Locke kominn að ekki ósvipaðri niðurstöðu og Descartes, þótt niðurstöður þeirra hafi fengist eftir afar ólíkum leiðum, því þeir eru sammála um að við getum verið vissari um okkar eigin tilvist og um tilvist guðs en um aðra hluti. Reyndar má segja að í raunhyggju Lockes leynist líka svolítil áhrif frá efahyggju, því við getum aldrei verið viss um hvernig hlutirnir eru raunverulega þótt Locke telji ástæðulaust að efast um tilvist þeirra. Við erum undir hulu skynjunar og getum ekki með neinum hætti borið saman hvernig hlutirnir raunverulega eru annars vegar og hins vegar hvernig við skynjum þá. Eini aðgangur okkar að hinum ytra heimi er í gegnum skynreynslu og kenningar náttúruvísindanna geta aldrei orðið meira en afar sennilegar.
Hér hefur einungis gefist færi á örstuttu ágripi af meginatriðum í þekkingarfræði Lockes en í Ritgerð um mannlegan skilning fjallar Locke um fjölmargt annað sem tengist viðfangsefni hans, svo sem tíma og rúm, tungumálið, hugspeki og frelsi viljans svo eitthvað sé nefnt.
Hitt rit Lockes sem hvað mest áhrif hafði var Tvær ritgerðir um ríkisvald en raunar er það síðari ritgerðin sem nýtur mestra vinsælda. Í fyrri ritgerðinni brást Locke við þeirri kenningu, sem haldið var meðal annars af stuðningsmönnum Jakobs II., að vald konungs og réttur hans til valda væri upprunninn hjá guði. Í síðari ritgerðinni setti Locke fram eigin kenningu um eðli og réttmæti ríkisvaldsins. Locke aðhylltist sáttmálakenningu og taldi réttmæti ríkisvaldsins byggjast á samfélagssáttmála og trausti borgaranna til valdhafa. Tilgangur ríkisvaldsins væri að tryggja líf, frelsi og eignir borgaranna en ríkisvald sem vanrækti það eða beinlínis virti að vettugi þessi réttindi hefði ekkert réttmæti. Ef borgararnir treystu ekki lengur valdhöfunum hefðu þeir rétt til þess að skipa sér nýja stjórn eða jafnvel rétt til uppreisnar.
Locke gerði greinarmun á settum rétti og náttúrurétti þar sem settur réttur er mannasetningar en náttúruréttur er réttur sem tilheyrir einstaklingum í ríki náttúrunnar og af guði gefinn, óháð öllu ríkisvaldi, samfélagi og mannasetningum. Rétturinn til lífs, frelsis og eigna er að mati Lockes náttúruréttur, sem og rétturinn til að verjast ágangi annarra og broti gegn þessum rétti manns. Einni öld síðar orðaði Thomas Jefferson, undir áhrifum frá Locke, þessa sömu hugsun þannig í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna: „Við teljum þessi sannindi augljós, að allir menn eru skapaðir jafnir, að skapari þeirra hafi áskapað þeim ákveðin óafturkræf réttindi og að meðal þeirra eru líf, frelsi og leit hamingjunnar.“ („We hold these Truths to be self-evident, that all Men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty, and the pursuit of Happiness“).
Það vekur athygli að Jefferson skipti út eignarréttinum fyrir leit hamingjunnar en Locke taldi að eignarrétturinn væri náttúruréttur. Hann taldi að menn gætu slegið eign sinni á eitthvað að því gefnu að þeir skilji eftir nóg handa öllum hinum og jafngott. Þetta nefnist fyrirvari Lockes (e. Lockean provisio). En hann taldi einnig að vinnuframlag hvers og eins skapaði tilkall og eignarrétt. Maður á til að mynda tilkall til spýtu sem maður hefur tálgað og berja sem maður hefur tínt vegna vinnunnar sem maður hefur lagt í að tálga og tína.
Locke hafði gríðarleg áhrif á yngri heimspekinga, þar á meðal raunhyggjumennina George Berkeley, David Hume og John Stuart Mill og reyndar alla þekkingarfræði og hugspeki fram til þessa dags. Hann hafði einnig mikil áhrif langt út fyrir kreðsur heimspekinganna, meðal annars á stjórnmálamenn eins og Thomas Jefferson og aðra frumkvöðla bandarísku byltingarinnar og frönsku byltingarinnar og á lýðræðishugmyndir Vesturlanda almennt. Seinni ritgerðin um ríkisvald er enn áhrifamikið rit meðal þeirra sem kenna sig við frjálslyndisstefnu eða frjálshyggju.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað getið þið sagt mér um John Locke?“ Vísindavefurinn, 26. maí 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55048.
Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 26. maí). Hvað getið þið sagt mér um John Locke? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55048
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað getið þið sagt mér um John Locke?“ Vísindavefurinn. 26. maí. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55048>.