Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Adam Smith fæddist árið 1723 í hafnarbænum Kirkcaldy á austurströnd Skotlands og dó sextíu og sjö árum síðar, árið 1790. Eftir hann komu út tvær merkilegar bækur meðan hann lifði og að minnsta kosti önnur þeirra er ótvírætt meistaraverk. Fyrra ritið fjallaði um siðfræði og gerði höfund sinn þekktan í landi sínu en hið síðara um hagfræði og gerði höfundinn þekktan víðs vegar í veröldinni.
Faðir Adams Smiths hafði lært lögfræði og var tollvörður í Kirkcaldy. Embættið, sem var tekjudrjúgt, hafði hann fengið gegnum pólitísk sambönd. Á þessum tíma var smygl talsvert stundað og tollvarsla ekki með öllu hættulaus. Adam Smith eldri dó í ársbyrjun 1723, nokkrum mánuðum áður en sonur hans fæddist. Tollvarðarekkjan Margaret Douglas var trúuð og ákveðin kona sem var staðráðin í að sonur sinn yrði menntamaður. Fjórtán ára gamall hóf Adam Smith háskólanám í Glasgow. Hann stundaði þar nám í þrjú ár. Þar fékk hann áhuga á eðlisfræði Newtons, stærðfræði og stóuspeki.
Eftir námið í Glasgow hélt Smith til Oxford á Englandi og var þar á námsstyrk í sex ár, 1740-1746. Reynsla Smiths af Oxford var ekki góð, en Smith var góðu vanur frá Glasgow. Kennararnir höfðu, þótti honum, lítinn áhuga á að kenna. Smith stundaði engu að síður nám og lestur af kappi og einbeitti sér meðal annars að nútímatungumálum og bókmenntum. Sagt er að Smith hafi kynnst verkum Davids Hume (1711-1776) á þessum árum, en skólayfirvöld hafi gert bækurnar upptækar og bannað honum að lesa þær. Adam Smith hafði alla tíð mikinn áhuga á bókmenntum og mælskulist og eru varðveittir eftir hann merkilegir fyrirlestrar um þau efni í uppskriftum nemenda hans. Glæsilegur og áhrifaríkur stíll hans og efnistök bera þessum áhuga vitni.
Árið 1748 hóf Smith feril sinn sem fyrirlesari og kennari í Edinborg. Um þetta leyti kynntist Smith David Hume sem hann taldi „langsamlega færasta heimspeking og sagnfræðing okkar tíma“. Vinátta þeirra entist meðan báðir lifðu, en þeir áttu ýmislegt sameiginlegt, báðir piparsveinar, framúrskarandi rithöfundar og auk þess meðal annars hagfræðingar, siðfræðingar og sagnfræðingar og skrifuðu um þau efni. Báðir urðu frægir fyrir framlag sitt til ólíkra fræðigreina, Hume sem heimspekingur og Smith sem hagfræðingur.
Smith var skipaður kennari í rökfræði í Glasgow árið 1751. Ári síðar var hann gerður að prófessor í siðfræði. Árið 1759 gaf Smith út bókina Kenningin um siðferðilegar kenndir (The Theory of Moral Sentiments) sem fékk góðar viðtökur. Nokkrum árum síðar var Smith boðið að gerast einkakennari ungs aðalsmanns að nafni Henry Scott, hertogans af Buccleuch. Faðir Henry Scott var enski stjórnmálamaðurinn Charles Townshend. Tilboðið fól í sér ævilangt fjárhagslegt öryggi fyrir Smith. Hann sagði upp kennarastöðu sinni og fór með unga manninn í ferðalag til Frakklands. Þar kynntist hann meðal annars blómanum af frönsku mennta- og listafólki á þeim tíma. Í ferðalaginu byrjaði Smith líka að skrifa um hagfræðileg efni „til að stytta sér stundir“ og afrakstur þeirrar vinnu, Auðlegð þjóðanna (An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) sem hann hóf þar, kom út árið 1776, um tíu árum eftir að hann hóf verkið. Þetta sama ár lýstu Bandaríkjamenn yfir sjálfstæði sínu og vinur hans David Hume lést. Smith var þá 53 ára og átti fjórtán ár eftir ólifuð. Síðustu árin sem Smith lifði fetaði hann í fótspor föður síns og gerðist tollanefndarmaður eða einskonar tollstjóri.
Ameríska hagfræðingafélagið gaf út þetta dagatal en þar má sjá helstu hagfræðinga sögunnar. Adam Smith er þar í forgrunni meðan aðrir hlýða á orð hans.
Nú á tímum er Smiths einkum minnst fyrir framlag sitt til hagfræðinnar og er Auðlegð þjóðanna oft sögð marka upphaf hagfræðinnar sem vísindagreinar. Smith hugsaði þó um siðfræðina sem hann hafði skrifað og hagfræðina sem hluta af einu verki, sem hann hefði viljað ljúka með því að skrifa einnig um lög og ríkisvald, en honum vannst því miður ekki tími til þess að ganga frá skrifum sínum um þau efni eða önnur og mælti fyrir um að handritin yrðu brennd að sér látnum. Fáeinum ritgerðum hans um heimspekileg efni var þó ekki fleygt á bálið, en þeirra þekktust er ritgerð um sögu stjörnufræðinnar.
Heimild og ítarefni:
Ian Simpson Ross. 2010. The Life of Adam Smith. Oxford University Press, 2. útg.
Þorbergur Þórsson. „Hver var Adam Smith og fyrir hvað er hann helst þekktur?“ Vísindavefurinn, 24. febrúar 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=19931.
Þorbergur Þórsson. (2011, 24. febrúar). Hver var Adam Smith og fyrir hvað er hann helst þekktur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=19931
Þorbergur Þórsson. „Hver var Adam Smith og fyrir hvað er hann helst þekktur?“ Vísindavefurinn. 24. feb. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=19931>.