Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaMið-AusturlöndHver var aðdragandinn að stofnun Ísraelsríkis árið 1948? Hver átti landið fyrir?
Í margar aldir bjuggu gyðingar víðs vegar um Evrópu en ýmsar hræringar, svo sem andgyðingleg hreyfing í Þýskalandi og ofsóknir í Rússlandi, urðu til þess að undir lok 19. aldar fékk sú hugmynd hljómgrunn að stofna ætti sjálfstætt ríki gyðinga. Áhugavert er að meðal annars var stungið upp á Úganda í Afríku sem hugsanlegu framtíðarheimili gyðinga. Heimurinn væri sennilega um margt ólíkur því sem hann er nú ef þetta hefði orðið raunin.
Margir gyðingar voru sannfærðir um að Palestína væri heimaland þeirra og færðu fyrir því söguleg rök. Einn öflugasti málsvari þeirra var Theodor Herzl sem árið 1896 gaf út bókina Gyðingaríkið (Der Judenstaat). Herzl var þeirrar skoðunar að gyðingar ættu að stofna ríki fyrir botni Miðjarðarhafs, þar sem nú stendur Ísrael.
Hugmyndin um stofnun Ísraelsríkis naut mikillar hylli innan bresku ríkisstjórnarinnar, meðal annars hjá Benjamin Disraeli (1804-1881) og Herbert Samuel (1870-1963), sem báðir voru af gyðingaættum. Það var svo árið 1917 sem breska stjórnin gaf út Balfour-yfirlýsinguna svokölluðu um að gyðingar skyldu eiga heimaland í Palestínu.
Um og eftir aldamótin 1900 varð til sjóður sem gerði gyðingum kleift að kaupa land í Palestínu og fyrstu kibbutz, eða samyrkjubúin, voru stofnuð um 1910. Stöðugur straumur gyðinga lá til fyrirheitna landsins frá lokum 19. aldar og allan fyrri hluta 20. aldar.
Meðan á þessum fólksflutningum stóð var landið í raun hvorki undir pólitísku valdi araba né gyðinga. Þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk fól Þjóðabandalagið (sem síðar varð að Sameinuðu þjóðunum) Bretum að stýra landsvæðinu þar sem nú eru Jórdanía, Palestína og Ísrael.
Fáni og skjaldarmerki Ísraelsríkis.
Tilurð Ísraels má þannig rekja allt aftur til loka 19. aldar þegar fyrstu gyðingarnir keyptu land af ottómönum og aröbum sem þar voru fyrir. Segja má að þá þegar hafi myndast spenna á svæðinu. Fleiri gyðingar fylgdu í kjölfarið; á árunum 1904-1914 komu um 40.000 manns og enn fleiri á árunum eftir fyrri heimsstyrjöld. Í kjölfar nasismans í Þýskalandi, eða upp úr 1933, fjölgaði enn frekar þeim gyðingum sem fluttu til fyrirheitna landsins. Um 1940 voru þeir orðnir 30% íbúa þar og um 6% landsvæðis var í þeirra eigu. Í lok seinni heimsstyrjaldar voru gyðingar sem bjuggu fyrir botni Miðjarðarhafs orðnir um 600.000 talsins.
Árið 1948 var Ísraelsríki svo stofnað, aðeins degi áður en stjórnartíð Breta á svæðinu lauk formlega. Þar gegndu samyrkjubúin mikilvægu hlutverki, ekki aðeins gagnvart fólkinu sem þar bjó, heldur styrktu þau samkennd gyðinga og áttu sinn þátt í stofnun ríkisins. Ísraelsríki átti að ná yfir 55% af landsvæðinu sem áður hafði að mestu leyti verið byggt af aröbum. Þetta hafði í för með sér stórfelldan brottflutning Palestínuaraba af svæðinu og héldu flestir þeirra til Jórdaníu þar sem þeir gátu fengið ríkisborgararétt.
Segja má að allur gangur hafi verið á því hvernig gyðingar eignuðust land í Palestínu. Í öllu falli var það ferli sem náði yfir rúma hálfa öld; sumir keyptu land af landeigendum sem fyrir voru, en aðrir eignuðu sér það einfaldlega eða ’endurheimtu‘.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Þórir Jónsson Hraundal. „Hver var aðdragandinn að stofnun Ísraelsríkis árið 1948? Hver átti landið fyrir?“ Vísindavefurinn, 30. ágúst 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6159.
Þórir Jónsson Hraundal. (2006, 30. ágúst). Hver var aðdragandinn að stofnun Ísraelsríkis árið 1948? Hver átti landið fyrir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6159
Þórir Jónsson Hraundal. „Hver var aðdragandinn að stofnun Ísraelsríkis árið 1948? Hver átti landið fyrir?“ Vísindavefurinn. 30. ágú. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6159>.