Talan sex milljónir hefur verið reiknuð þannig að fyrst eru taldir þeir gyðingar í ýmsum löndum sem bjuggu þar áður en nasistar hófu drápsherferðir sínar, og síðan þeir taldir sem lifðu eftir heimsstyrjöldina, ýmist í sömu löndum eða sem algengara var, í öðrum löndum. Einnig eru til flutningaskrár fyrir einstök lönd. Þýskir nasistar drápu allan þorra gyðinga sem dvöldu enn í þeim löndum sem Þjóðverjar náðu á vald sitt eftir að heimsstyrjöldin braust út. Hér vegur tala pólskra gyðinga hæst, eða þrjár milljónir. Hinar þrjár milljónirnar komu frá Þýskalandi sjálfu, Austurríki, Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi, Rúmeníu, Frakklandi, Hollandi, Belgíu, Noregi, öllum löndum Balkanskaga, Eystrasaltslöndunum þremur og Sovétríkjunum. Yfirleitt eru þessar tölur mjög öruggar. Þannig er vitað nákvæmlega hve margir franskir, belgískir, litháískir, tékkneskir, ungverskir, rúmenskir og grískir gyðingar létu lífið eða hundruð þúsunda frá hverju landi. Í löndum þar sem nasistar reyndu að drepa svo til alla íbúa eins og í Sovétríkjunum og þar sem valdhafarnir voru líka sjálfir iðnir við kolann, virðast tiltölulega fáir gyðingar hafa látið lífið, þeir vissu hvað biði þeirra næðu nasistar þeim og voru því yfirleitt flúnir þegar herir Þjóðverja birtust.
Þýskir nasistar stunduðu fjöldamorð á fleirum en gyðingum og drápu evrópska sígauna á álíka kerfisbundinn hátt og gyðinga. Pólverjar, Úkraínumenn og Rússar voru drepnir skipulega til að skapa „Þýskalandi“ hæfilegt „lífsrými“ (þ. Lebensraum) í austri. Talan frá Póllandi er nokkuð örugg, Þjóðverjar drápu í því landi jafnmarga katólska Pólverja og gyðinga, eða þrjár milljónir. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands? eftir Pál Björnsson
- Hvers vegna hafa Gyðingar verið ofsóttir í gegnum aldirnar? eftir Gísla Gunnarsson
- Hvað getið þið sagt mér um útrýmingarbúðirnar í Auschwitz? eftir Jónu Símoníu Bjarnadóttur
- Komu „læknisrannsóknir“ dr. Mengeles heiminum að einhverju gagni? eftir Ulriku Andersson
- Þær fylgja greininni „Holocaust“ á vefsetri Encyclopædia Britannica. © YAD Vashem Photo Archives og Alice Cahana