Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í meginatriðum er svarið já, því að nasistar reistu allar afkastamestu búðir sínar á pólsku landsvæði.
Nokkur útrýming fór þó fram í þrælkunar- og fangabúðum innan landamæra Þýskalands: Til dæmis voru rúmlega 31.000 manns tekin af lífi í Dachau, sem er skammt frá München, tæplega 57.000 í Buchenwald, sem er rétt hjá Weimar, og um 50.000 í Sachsenhausen, sem er ekki langt frá Berlín. Þá má nefna að nasistar reistu útrýmingarbúðir í Mauthausen í grennd við Linz í Austurríki skömmu eftir að þeir innlimuðu það í Þýskland árið 1938, og þar var tæplega 103.000 manns útrýmt.
Þetta eru hins vegar smámunir í samanburði við þá útrýmingu sem átti sér stað innan Póllands: Í Majdanek myrtu nasistar til dæmis um 200.000 manns, í Chelmno rúmlega 200.000, í Belzec um 600.000, í Sobibor um 250.000, í Treblinka tæplega 1.000.000 og rúmlega 1.250.000 í Auschwitz. Stundum er sagt að þessar fimm síðastnefndu búðir hafi verið einu réttnefndu útrýmingarbúðir nasista, en þá ber að hafa í huga að útrýming fór einnig fram í þeim fjölmörgu þrælkunar- og fangabúðum sem þeir ráku, þar sem fangarnir féllu úr hungri, vosbúð, sjúkdómum eða sakir illrar meðferðar.
Lítum stuttlega á aðdraganda og þróun þessarar útrýmingar. Hitler stefndi ekki aðeins að heimsyfirráðum, heldur var síðari heimsstyrjöldin órjúfanlega tengd því markmiði nasista að „hreinsa“ álfuna af gyðingum. Mikill meirihluti þeirra bjó í Austur-Evrópu og skipuleg útrýming á þeim hófst með innrásinni í Sovétríkin sumarið 1941, þar sem sérsveitir SS-manna fylgdu í kjölfar innrásarliðsins og stjórnuðu fjöldaaftökum allt frá Eystrasaltslöndunum og suður til Krímskaga og Kákasus. Oft tóku þýskir hermenn og lögreglumenn frá hersetnu löndunum þátt í aftökunum en talið er að þessar „hreinsanir“ hafi kostað um 1.250.000 gyðinga lífið; að auki myrtu sveitirnar hundruð þúsunda annarra.
Snemma varð þó ljóst að þessar fjöldaaftökur ollu miklu álagi á aftökusveitirnar, einkum þegar verið var að myrða konur og börn, og að auki var erfitt að halda aftökunum leyndum. Því var farið að þróa aðrar aðferðir, til dæmis svokallaða gasvagna, en fyrstu tilraunir með þá höfðu raunar verið gerðar 1940. Þetta voru lítið breyttir flutningabílar með loftþéttu húsi og inn í það var útblástur vélarinnar leiddur. Í fyrstu útrýmingarbúðum nasista, sem opnaðar voru í Chelmno í desember 1941, voru til dæmis eingöngu notaðir gasvagnar. Talið er að samtals hafi um 700.000 manns verið tekin af lífi með vögnunum í Austur-Evrópu. Aðferðin skilaði þó ekki þeim árangri sem menn vildu því að enn þótti álagið á SS-mennina of mikið. Þess vegna var farið að huga að jarðföstum gasklefum.
Tilraunir á nokkrum stöðum innan Þýskalands með að myrða þroskahefta í lokuðum klefum með kolsýringi (CO) höfðu hafist í byrjun árs 1940. Við skipulag útrýmingarbúðanna í Belzec, sem tóku til starfa í febrúar 1942, færðu SS-sveitirnar sér í nyt niðurstöður þessara tilrauna og reynsluna af rekstri gasvagnanna. Byggðir voru rúmgóðir og loftþéttir gasklefar og notaður var útblástur frá bensín- eða díselvél til að myrða fórnarlömbin. Í útrýmingarbúðunum Sobibor og Treblinka, sem opnaðar voru skömmu síðar, var sömu aðferð beitt.
Hún var einföld að því leyti að tiltölulega auðvelt var að verða sér úti um bensín eða olíu. „Gallinn“ við hana var þó sá, ef þannig má að orði komast, að í sumum tilfellum misstu fórnarlömbin aðeins meðvitund í gasklefunum og „þurfti“ þá að skjóta þau eftir á. Á tímabilinu frá desember 1942 til september 1943 var þessum þremur búðum því lokað. Upp frá því og þangað til Rauði herinn náði Póllandi á sitt vald, tók Auschwitz við flestum fórnarlömbum nasista.
Búðirnar í Auschwitz voru upphaflega aðeins einar af mörgum fangabúðum sem nasistar reistu í kjölfar innrásar sinnar í Pólland 1939. Þær voru ætlaðar 10.000 föngum en vorið 1941 var ákveðið að gera þær að þrælkunarbúðum þar sem um 100.000 manns áttu að vinna í efnaverksmiðju sem stórfyrirtækið I.G. Farben reisti á staðnum. Í júlí 1941 ákváðu svo nasistar að búðirnar yrðu aðalmiðstöð útrýmingar á gyðingum. Auschwitz þótti henta vel til slíks, meðal annars vegna nálægðar við borgina Kraká, þar sem járnbrautir mætast frá stórborgunum Berlín, Varsjá og Vínarborg. Þangað skyldi ekki aðeins flytja fórnarlömb frá Póllandi heldur einnig frá Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu, Tékkóslóvakíu, Grikklandi og Ungverjalandi.
Til þess að Auschwitz gæti gegnt þessu hlutverki þurfti að finna upp afkastamikla aðferð til útrýmingar. Tilraunir leiddu í ljós að blásýra (HCN) væri „hentug“: Hún er nefnilega bráðdrepandi því að ekki þarf nema um 50 grömm til að myrða um 1000 manns. Hún verkar fyrst á frumur í öndunarvegi fórnarlambanna og leiðir oftast til þess að þau kafna á fáum mínútum.
Fyrsta flutningalestin kom með fórnarlömb til Auschwitz í febrúar 1942. Afgreiðsla lestanna fór þannig fram að karlar voru skildir frá konum og börnum þegar fórnarlömbin höfðu verið rekin frá borði. Næst völdu læknar þá úr hópunum tveimur sem þeir töldu nægilega hrausta í þrælkunarvinnu. Valið var tilviljanakennt en sjötti til sjöundi hver var valinn til vinnu, og samtals urðu 202.499 manns fyrir valinu á þeim tíma sem búðirnar voru í rekstri. Lasburða fólk, ófrískar konur, börn og gamalmenni áttu litla sem enga möguleika á að komast í hóp „útvaldra.“ Þeir fáu sem valdir voru til vinnu komust hjá því að vera sendir umsvifalaust í gasklefana; á hinn bóginn var aðbúnaður þeirra það illur að meiri hluti þeirra lést af völdum kulda, vinnuþrælkunar, pyntinga, vannæringar eða sjúkdóma.
Stærstu gasklefarnir í Auschwitz rúmuðu hátt í 2000 manns, en samtals mátti taka þar af lífi um 8000 manns samtímis. Lofthæð í klefunum var lítil svo að eiturgasið nýttist sem best. Lyftur auðvelduðu flutning á líkunum úr gasklefunum og upp að líkbrennsluofnunum en sérsveitir fanga sáu um þann flutning. Þarna voru einnig tilraunastofur þar sem læknar, eins og til dæmis Josef Mengele, „engill dauðans“, gerðu mannskæðar „vísindatilraunir“ á fórnarlömbum. Þá var þar aðstaða til að skjóta fórnarlömb til bana og til að bræða gullfyllingar úr tönnum, svo að eitthvað sé nefnt.
Afleiðingar þessara „iðnvæddustu“ fjöldamorða mannkynssögunnar blasa við í Póllandi nútímans: Þar sem áður bjuggu um 3,3 milljónir gyðinga, búa nú aðeins fáein þúsund.
Bókin Býr Íslendingur hér? Minningar Leifs Muller eftir Garðar Sverrisson er góð heimild um lífið í þrælkunarbúðunum í Sachsenhausen. Endurminningar Rudolf Höss, Kommandant in Auschwitz, sem var búðastjóri í Auschwitz, eru ein magnaðasta lýsingin á útrýmingunni þar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Páll Björnsson. „Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1392.
Páll Björnsson. (2001, 20. mars). Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1392
Páll Björnsson. „Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1392>.