Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni?

Skúli Sæland

Margar ástæður liggja að baki óförum Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni (1939-1945). Aðalorsökin er þó sú að þeir áttu hreinlega við ofurefli að etja.

Í upphafi stríðsins vann þýski herinn mikla sigra. Þeir lögðu undir sig fjölda landa og gersigruðu flestalla heri Evrópu. En hvernig var þetta mögulegt?

Svarið felst í nýrri hernaðartækni sem Þjóðverjar beittu og hlaut nafnið leifturstríð (Blitzkrieg). Framsýnustu hernaðarsérfræðingar bæði Breta og Frakka höfðu áhuga á þessari aðferð en yfirherstjórnir beggja þjóða höfðu vantrú á henni. Adolf Hitler sá hins vegar kosti hennar og leyfði hershöfðingjanum Heinz Guderian að sérhæfa þýska herinn til slíks hernaðar.



Stuka-flugvélar léku stórt hlutverk í leifturstríði Þjóðverja.

Þjóðverjar studdu dyggilega við bakið á Franco hershöfðingja og hersveitum hans í spænsku borgarastyrjöldinni (1936-1939) og nýttu sér hana til að þróa leifturstríðstæknina. Aðferðin fólst í náinni samvinnu flug- og landhersveita þar sem hraði og herstyrkur fóru saman. Henni var beitt á afmörkuðu svæði til að brjótast í gegnum víglínu andstæðingsins og síðan dreifðu herdeildirnar úr sér til að einangra varnarlínuna og einstakar herdeildir andstæðingsins. Árangurinn byggðist ekki síst á sálfræðilegum áhrifum hernaðartækninnar; hraðinn ruglaði andstæðinginn í ríminu og kom í veg fyrir að hann næði að skipuleggja varnir sínar.

Í Sovétríkjunum unnu þýsku brynsveitirnar í fyrstu mikla sigra. Innrásin hófst 22. júní 1941 og þýsku hersveitirnar komust að borgarhliðum Moskvu 2. desember sama ár en stöðvuðust þar. Helsta ástæðan var harðari vetur en þekkst hafði í Sovétríkjunum í áratugi, eftir miklar haustrigningar. Ekki bætti úr skák að flutningar Þjóðverja fóru einkum fram með hestvögnum sem náðu engan veginn að birgja framvarðasveitirnar upp af skotfærum, mat og eldsneyti. Hitler hafði alltaf gert ráð fyrir að sigra Sovétmenn áður en veturinn gengi í garð og þýski herinn var ekki búinn undir vetrarhernað. Svo sigurvissir voru þýskir ráðamenn að þýskur iðnaður vann einungis á hálfum afköstum því að ekki var talin þörf á meiri framleiðni!

Sovétmenn hófu gagnsókn við Moskvu undir forystu Georgys Konstantinovich Zhukovs, eins færasta herforingja Stalíns. Hann beitti hermönnum sem voru sérþjálfaðir í vetrarhernaði og þeim veittist auðvelt að gersigra örmagna og illa búinn árásarher Þjóðverja.



Georgy Konstantinovich Zhukov (1896-1974).

Nú urðu vonir Þjóðverja um skjótan sigur á Sovétmönnum að engu og þar með brást ein meginforsenda leifturstríðsins – að leggja andstæðinginn áður en hann næði áttum og virkjaði bæði her og iðnað til að takast á við árásaraðilann.

Eftir ófarirnar við Moskvu rak Hitler marga af færustu herforingjum sínum og tók í æ ríkari mæli að skipta sér af stjórn þýska hersins, jafnvel í smæstu atriðum. Afleiðingar þess komu berlega í ljós í ósigrinum við Stalíngrad ári síðar og segja má að eftir þær hafi Þriðja ríkið ekki átt sér viðreisnarvon.

Umsátrið og orrustan um Stalíngrad var harðasta bardagahrinan í seinni heimsstyrjöldinni og stóð frá 23. ágúst 1942 til 31. janúar 1943. Þýskir og sovéskir hermenn börðust um hvert einasta hús að heita má. Þótt illa horfði fyrir Sovétmönnum um tíma héldu þeir út þar til her undir leiðsögn herforingjanna Zhukovs, A. M. Vasilevskys og N. N. Voronovs, einangraði umsátursliðið með gagnárás.

Yfirmaður þýsku herdeildanna við Stalíngrad, Friedrich Paulus, hafði leitað eftir leyfi til að sameina her sinn herdeildum Þjóðverja vestar í Sovétríkjunum en Hitler neitaði. Paulus gafst á endanum upp, þvert gegn skipunum Hitlers um að berjast fram í rauðan dauðann. Hernaðarvél Þjóðverja hafði beðið fyrsta meginósigur sinn.

Skæruliðastarfsemi að baki víglínu Þjóðverja í Sovétríkjunum gerði þeim erfitt fyrir. Hún stafaði fyrst og fremst af andúð manna á kynþáttastefnu nasista. Ýmsar þjóðir Sovétríkjanna, til dæmis Úkraínumenn, höfðu búið árum saman við ok Stalíns og fögnuðu Þjóðverjum fyrst í stað sem frelsurum. Þeir komu hins vegar fram við alla Slava í Sovétríkjunum sem óæðri kynstofn (Untermenschen) og fjöldaaftökur og gripdeildir voru tíðar. Þetta leiddi aftur til stuðnings við Stalín og Rauða herinn og því urðu Þjóðverjar að glíma stöðugt við fjandmenn að baki víglínunnar.

Öflugasta vopn Sovétmanna var mannafli þeirra. Þegar innrás Þjóðverja hófst er talið að allur Rauði herinn hafi talið 203 herdeildir og 46 vélastórfylki (e. tank and mechanized brigades). Þar af voru 33 herdeildir og 5 vélastórfylki staðsett í Síberíu. Sennilega voru um 2,3 milljónir manna undir vopnum í Evrópuhluta Sovétríkjanna við upphaf innrásarinnar.

Rúmum fimm mánuðum síðar var Rauði herinn líklega búinn að missa allt að 5 milljónir manna en þá töldu Þjóðverjar sig enn greina um 280 sovéskar herdeildir og 44 vélastórfylki við víglínuna. Þetta eru sláandi tölur og munurinn átti einungis eftir að aukast því að strax á árinu 1942 var skortur á mannafla farinn að há Þjóðverjum en stöðugt fleiri hermenn bættust í sovéska herinn.

Hitler gerði enn fremur slæm mistök þegar hann ákvað að ráðast á Sovétríkin án þess að eyða fyrst hættunni sem stafaði af Bretum. Þýski herinn þurfti stöðugt að vera með herafla við Atlantshafsströndina til að verjast hugsanlegri innrás auk þess sem stríðið við Breta í Afríku dróst á langinn.

Ekki bætti úr skák þegar Bandaríkin, stærsta iðnríki heims, hófu beina þátttöku í stríðinu í kjölfar árásar Japana á Perluhöfn 7. desember 1941. Bandaríkjamenn höfðu veitt Bretum mikinn stuðning með því að afhenda þeim hernaðarvarning á „láns- og leigukjörum“ (e. lend-lease) en nú hervæddu þeir iðnaðarframleiðsluna og hreinlega kaffærðu Öxulveldin.



Floti Liberty-skipa bíður eftir að hlaupa af stokkunum.

Framleiðslumáttur Bandaríkjanna sést vel í fjöldaframleiðslu þeirra á svonefndum Liberty-skipum sem voru stöðluð flutningaskip. Á árunum 1939-40 voru einungis 102 hafskip smíðuð í landinu. Árið 1943 voru smíðuð um 140 Liberty-skip á mánuði og að meðaltali tók einungis 42 daga að fullgera slíkt skip. Bandaríkjamenn framleiddu því skip hraðar en Þjóðverjum tókst nokkurn tíma að sökkva þeim og var það einn meginþátturinn í sigri Bandamanna í baráttunni við öflugan kafbátaflota Hitlers.

Jafnframt því sem Bandaríkjamenn hervæddu iðnaðarframleiðsluna, lögðu Bandamenn allt kapp á að eyðileggja iðnað Þjóðverja og gríðarlegu sprengjumagni var varpað yfir Þýskaland í því skyni. Engu að síður hefur nokkuð verið deilt um árangur sprengjuárásanna því að Þjóðverjum tókst samt sem áður að auka hernaðarframleiðslu sína ár frá ári. En hitt er óumdeilanlegt að þetta neyddi Þjóðverja til að senda orrustuflugsveitir heim frá víglínunni til að verjast sprengjuflugvélum. Eftir það náðu Bandamenn óskoruðum yfirráðum í lofti yfir Evrópu.

Tæknikapphlaup var þreytt af miklum móð í seinni heimsstyrjöldinni og Bandamenn höfðu forskot á Þjóðverja í mörgum mikilvægum tækniatriðum. Sovésku skriðdrekarnir T-34 voru lengi vel taldir þeir bestu í seinni heimsstyrjöldinni. Mulberry-hafnirnar, færanlegar flothafnir smíðaðar í Bretlandi, voru dregnar til innrásarsvæðanna við Normandí. Bandaríski Sherman-skriðdrekinn var auðveldur í fjöldaframleiðslu og krafðist lítils viðhalds og hljóðsjáin eða ómsjáin (sónar) gerði Bandamönnum kleift að elta uppi kafbáta. Síðast en ekki síst ber að nefna ratsjána sem bjargaði Bretum í orrustunni um Bretland.



Sovéskir T-34 skriðdrekar.

Einnig er rétt að geta vinnu svonefnds Ultra-hóps við að ráða dulmál Þjóðverja. Þegar Bandamönnum tókst að brjóta dulmálslykil Þjóðverja gátu þeir lesið nánast öll þeirra samskipti. Breski stærðfræðingurinn Alan Turing stýrði hönnun tölvunnar Colossus sem átti mikinn þátt í að vinna úr öllum þeim fjölda dulmálsskeyta sem Þjóðverjar sendu, fleiri en 2.000 á dag þegar seinni heimsstyrjöldin stóð sem hæst.

Talið er að starf Ultra-hópsins og tölva Turings hafi stytt seinni heimsstyrjöldina um allt að fjögur ár og bjargað ótal mannslífum. Þætti Ultra og tölvunnar í heimsstyrjöldinni var raunar haldið leyndum í mörg ár og ekki var upplýst um tilvist hópsins fyrr en 1974.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

30.9.2003

Spyrjandi

Stefanía Bjarnadóttir, f. 1988
Ásmundur Guðjónsson, f. 1990
Þröstur Leó, f. 1990

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 30. september 2003, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3765.

Skúli Sæland. (2003, 30. september). Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3765

Skúli Sæland. „Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 30. sep. 2003. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3765>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni?
Margar ástæður liggja að baki óförum Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni (1939-1945). Aðalorsökin er þó sú að þeir áttu hreinlega við ofurefli að etja.

Í upphafi stríðsins vann þýski herinn mikla sigra. Þeir lögðu undir sig fjölda landa og gersigruðu flestalla heri Evrópu. En hvernig var þetta mögulegt?

Svarið felst í nýrri hernaðartækni sem Þjóðverjar beittu og hlaut nafnið leifturstríð (Blitzkrieg). Framsýnustu hernaðarsérfræðingar bæði Breta og Frakka höfðu áhuga á þessari aðferð en yfirherstjórnir beggja þjóða höfðu vantrú á henni. Adolf Hitler sá hins vegar kosti hennar og leyfði hershöfðingjanum Heinz Guderian að sérhæfa þýska herinn til slíks hernaðar.



Stuka-flugvélar léku stórt hlutverk í leifturstríði Þjóðverja.

Þjóðverjar studdu dyggilega við bakið á Franco hershöfðingja og hersveitum hans í spænsku borgarastyrjöldinni (1936-1939) og nýttu sér hana til að þróa leifturstríðstæknina. Aðferðin fólst í náinni samvinnu flug- og landhersveita þar sem hraði og herstyrkur fóru saman. Henni var beitt á afmörkuðu svæði til að brjótast í gegnum víglínu andstæðingsins og síðan dreifðu herdeildirnar úr sér til að einangra varnarlínuna og einstakar herdeildir andstæðingsins. Árangurinn byggðist ekki síst á sálfræðilegum áhrifum hernaðartækninnar; hraðinn ruglaði andstæðinginn í ríminu og kom í veg fyrir að hann næði að skipuleggja varnir sínar.

Í Sovétríkjunum unnu þýsku brynsveitirnar í fyrstu mikla sigra. Innrásin hófst 22. júní 1941 og þýsku hersveitirnar komust að borgarhliðum Moskvu 2. desember sama ár en stöðvuðust þar. Helsta ástæðan var harðari vetur en þekkst hafði í Sovétríkjunum í áratugi, eftir miklar haustrigningar. Ekki bætti úr skák að flutningar Þjóðverja fóru einkum fram með hestvögnum sem náðu engan veginn að birgja framvarðasveitirnar upp af skotfærum, mat og eldsneyti. Hitler hafði alltaf gert ráð fyrir að sigra Sovétmenn áður en veturinn gengi í garð og þýski herinn var ekki búinn undir vetrarhernað. Svo sigurvissir voru þýskir ráðamenn að þýskur iðnaður vann einungis á hálfum afköstum því að ekki var talin þörf á meiri framleiðni!

Sovétmenn hófu gagnsókn við Moskvu undir forystu Georgys Konstantinovich Zhukovs, eins færasta herforingja Stalíns. Hann beitti hermönnum sem voru sérþjálfaðir í vetrarhernaði og þeim veittist auðvelt að gersigra örmagna og illa búinn árásarher Þjóðverja.



Georgy Konstantinovich Zhukov (1896-1974).

Nú urðu vonir Þjóðverja um skjótan sigur á Sovétmönnum að engu og þar með brást ein meginforsenda leifturstríðsins – að leggja andstæðinginn áður en hann næði áttum og virkjaði bæði her og iðnað til að takast á við árásaraðilann.

Eftir ófarirnar við Moskvu rak Hitler marga af færustu herforingjum sínum og tók í æ ríkari mæli að skipta sér af stjórn þýska hersins, jafnvel í smæstu atriðum. Afleiðingar þess komu berlega í ljós í ósigrinum við Stalíngrad ári síðar og segja má að eftir þær hafi Þriðja ríkið ekki átt sér viðreisnarvon.

Umsátrið og orrustan um Stalíngrad var harðasta bardagahrinan í seinni heimsstyrjöldinni og stóð frá 23. ágúst 1942 til 31. janúar 1943. Þýskir og sovéskir hermenn börðust um hvert einasta hús að heita má. Þótt illa horfði fyrir Sovétmönnum um tíma héldu þeir út þar til her undir leiðsögn herforingjanna Zhukovs, A. M. Vasilevskys og N. N. Voronovs, einangraði umsátursliðið með gagnárás.

Yfirmaður þýsku herdeildanna við Stalíngrad, Friedrich Paulus, hafði leitað eftir leyfi til að sameina her sinn herdeildum Þjóðverja vestar í Sovétríkjunum en Hitler neitaði. Paulus gafst á endanum upp, þvert gegn skipunum Hitlers um að berjast fram í rauðan dauðann. Hernaðarvél Þjóðverja hafði beðið fyrsta meginósigur sinn.

Skæruliðastarfsemi að baki víglínu Þjóðverja í Sovétríkjunum gerði þeim erfitt fyrir. Hún stafaði fyrst og fremst af andúð manna á kynþáttastefnu nasista. Ýmsar þjóðir Sovétríkjanna, til dæmis Úkraínumenn, höfðu búið árum saman við ok Stalíns og fögnuðu Þjóðverjum fyrst í stað sem frelsurum. Þeir komu hins vegar fram við alla Slava í Sovétríkjunum sem óæðri kynstofn (Untermenschen) og fjöldaaftökur og gripdeildir voru tíðar. Þetta leiddi aftur til stuðnings við Stalín og Rauða herinn og því urðu Þjóðverjar að glíma stöðugt við fjandmenn að baki víglínunnar.

Öflugasta vopn Sovétmanna var mannafli þeirra. Þegar innrás Þjóðverja hófst er talið að allur Rauði herinn hafi talið 203 herdeildir og 46 vélastórfylki (e. tank and mechanized brigades). Þar af voru 33 herdeildir og 5 vélastórfylki staðsett í Síberíu. Sennilega voru um 2,3 milljónir manna undir vopnum í Evrópuhluta Sovétríkjanna við upphaf innrásarinnar.

Rúmum fimm mánuðum síðar var Rauði herinn líklega búinn að missa allt að 5 milljónir manna en þá töldu Þjóðverjar sig enn greina um 280 sovéskar herdeildir og 44 vélastórfylki við víglínuna. Þetta eru sláandi tölur og munurinn átti einungis eftir að aukast því að strax á árinu 1942 var skortur á mannafla farinn að há Þjóðverjum en stöðugt fleiri hermenn bættust í sovéska herinn.

Hitler gerði enn fremur slæm mistök þegar hann ákvað að ráðast á Sovétríkin án þess að eyða fyrst hættunni sem stafaði af Bretum. Þýski herinn þurfti stöðugt að vera með herafla við Atlantshafsströndina til að verjast hugsanlegri innrás auk þess sem stríðið við Breta í Afríku dróst á langinn.

Ekki bætti úr skák þegar Bandaríkin, stærsta iðnríki heims, hófu beina þátttöku í stríðinu í kjölfar árásar Japana á Perluhöfn 7. desember 1941. Bandaríkjamenn höfðu veitt Bretum mikinn stuðning með því að afhenda þeim hernaðarvarning á „láns- og leigukjörum“ (e. lend-lease) en nú hervæddu þeir iðnaðarframleiðsluna og hreinlega kaffærðu Öxulveldin.



Floti Liberty-skipa bíður eftir að hlaupa af stokkunum.

Framleiðslumáttur Bandaríkjanna sést vel í fjöldaframleiðslu þeirra á svonefndum Liberty-skipum sem voru stöðluð flutningaskip. Á árunum 1939-40 voru einungis 102 hafskip smíðuð í landinu. Árið 1943 voru smíðuð um 140 Liberty-skip á mánuði og að meðaltali tók einungis 42 daga að fullgera slíkt skip. Bandaríkjamenn framleiddu því skip hraðar en Þjóðverjum tókst nokkurn tíma að sökkva þeim og var það einn meginþátturinn í sigri Bandamanna í baráttunni við öflugan kafbátaflota Hitlers.

Jafnframt því sem Bandaríkjamenn hervæddu iðnaðarframleiðsluna, lögðu Bandamenn allt kapp á að eyðileggja iðnað Þjóðverja og gríðarlegu sprengjumagni var varpað yfir Þýskaland í því skyni. Engu að síður hefur nokkuð verið deilt um árangur sprengjuárásanna því að Þjóðverjum tókst samt sem áður að auka hernaðarframleiðslu sína ár frá ári. En hitt er óumdeilanlegt að þetta neyddi Þjóðverja til að senda orrustuflugsveitir heim frá víglínunni til að verjast sprengjuflugvélum. Eftir það náðu Bandamenn óskoruðum yfirráðum í lofti yfir Evrópu.

Tæknikapphlaup var þreytt af miklum móð í seinni heimsstyrjöldinni og Bandamenn höfðu forskot á Þjóðverja í mörgum mikilvægum tækniatriðum. Sovésku skriðdrekarnir T-34 voru lengi vel taldir þeir bestu í seinni heimsstyrjöldinni. Mulberry-hafnirnar, færanlegar flothafnir smíðaðar í Bretlandi, voru dregnar til innrásarsvæðanna við Normandí. Bandaríski Sherman-skriðdrekinn var auðveldur í fjöldaframleiðslu og krafðist lítils viðhalds og hljóðsjáin eða ómsjáin (sónar) gerði Bandamönnum kleift að elta uppi kafbáta. Síðast en ekki síst ber að nefna ratsjána sem bjargaði Bretum í orrustunni um Bretland.



Sovéskir T-34 skriðdrekar.

Einnig er rétt að geta vinnu svonefnds Ultra-hóps við að ráða dulmál Þjóðverja. Þegar Bandamönnum tókst að brjóta dulmálslykil Þjóðverja gátu þeir lesið nánast öll þeirra samskipti. Breski stærðfræðingurinn Alan Turing stýrði hönnun tölvunnar Colossus sem átti mikinn þátt í að vinna úr öllum þeim fjölda dulmálsskeyta sem Þjóðverjar sendu, fleiri en 2.000 á dag þegar seinni heimsstyrjöldin stóð sem hæst.

Talið er að starf Ultra-hópsins og tölva Turings hafi stytt seinni heimsstyrjöldina um allt að fjögur ár og bjargað ótal mannslífum. Þætti Ultra og tölvunnar í heimsstyrjöldinni var raunar haldið leyndum í mörg ár og ekki var upplýst um tilvist hópsins fyrr en 1974.

Heimildir og myndir:...