Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað gerðist í Perluhöfn (Pearl Harbor) í seinni heimsstyrjöldinni?

Skúli Sæland

Þegar minnst er á þátt Perluhafnar í seinni heimsstyrjöldinni, er átt við árás Japana að morgni 7. desember 1941 á flotahöfn og herflugvelli Bandaríkjamanna á eyjunni Ohau í Hawaii-eyjaklasanum, sem gerð var fyrirvaralaust og án formlegrar stríðsyfirlýsingar.



Perluhöfn (Pearl Harbor) árið 1940.

Á 4. áratug síðustu aldar stefndu Japanar að því leynt og ljóst að verða stórveldi við Kyrrahaf. Þeir hertóku Mansjúríuhérað 1931 og réðust inn í Kína 1937. Í septembermánuði árið 1940 gengu þeir í bandalag Öxulveldanna, Þýskalands og Ítalíu og í júli 1941 lögðu þeir undir sig frönsku Indó-Kína, þar sem nú er Víetnam. Bandarísk stjórnvöld, brugðust við með efnahagsþvingunum gegn Japönum og að lokum algeru banni við olíusölu til landsins í von um að það myndi fá þá ofan af frekari landvinningaáætlunum.

Þessi síðasta aðgerð var kornið sem fyllti mælinn að mati japönsku stjórnarinnar því Japan var fyrst og fremst sjóveldi með stóran og öflugan flota. Ef Japanar ætluðu sér að verða óumdeilanlegt stórveldi við Kyrrahaf, þurfti flotinn að hafa olíu.

Japanska stjórnin ákvað því að stefna á mikla útþenslu sem fól í sér umfangsmikið hernám í Austur-Asíu og átti að tryggja þeim næga olíu og önnur hráefni, meðal annars til að halda út í langvinnt stríð við Kína. Japanar töldu hins vegar öruggt að Bandaríkin mundu skerast í leikinn. Isoroku Yamamoto aðmíráll, yfirmaður japanska flotans, hafði þegar samið áætlun um skyndiárás á aðalflotastöð Bandaríkjamanna á Hawaii til að lama hernaðarmátt þeirra á Kyrrahafinu. Þegar Bandaríkin næðu aftur fyrri styrk, hefðu Japanar lokið landvinningum sínum og væru reiðubúnir að takast á við bandaríska flotann. Stjórnin var í fyrstu treg, þjóðirnar tvær áttu í miklum samræðum og friðarumleitunum, en samþykkti síðan að setja áætlun Yamamotos í framkvæmd ef ákveðið yrði að hefja stríð gegn Bandaríkjunum.

Japanar undirbjuggu sig vandlega. Flugmenn og sjóliðar voru þjálfaðir sérstaklega fyrir árásina og vopn sérhönnuð til þess að granda bandarísku herskipunum. Árásarflotinn, undir stjórn Chuichi Nagumo varaaðmíráls, samanstóð af sex flugmóðurskipum, tveimur orrustuskipum, tveimur stórum beitiskipum, léttu beitiskipi, níu tundurspillum, þremur kafbátum og átta olíuskipum, alls 31 herskip. Flugmóðurskipin fluttu alls 432 flugvélar, þar af voru 353 notaðar til árásarinnar.

Hernaðaráætlun Japana var í hæsta máta áhættusöm, hún krafðist þátttöku stærsta hluta flota þeirra og alger leynd þurfti að hvíla yfir henni. Því héldu skipin úr höfn eitt og eitt í einu frá Japan, það fyrsta 15. nóvember 1941, til að vekja sem minnstar grunsemdir. Árásarflotinn safnaðist síðan saman og hélt suður á bóginn, fjarri öllum venjulegum siglingaleiðum og án talstöðvasamskipta. Þann 26. nóvember kom flotadeildin sér fyrir 1.600 km norðan við Hawaii og bjó sig til árásar á Perluhöfn. Fyrsta desember komst japanska stjórnin að þeirri niðurstöðu að stríð við Bandaríkin væri óumflýjanlegt og daginn eftir voru skilaboð send til árásarflotans, „Klífið Niitakafjall“, dulmál sem þýddi að ráðist skyldi til atlögu morguninn 7. desember. Dagsetningin var úthugsuð, á sunnudagsmorgni þegar Bandaríkjamenn uggðu síst að sér, hermenn margir í leyfi og borgarar á leið til kirkju. Árásarflotinn kom sér fyrir 440 km norðan Hawaii og þaðan lögðu flugvélarnar af stað í átt til Oahu.



Japanskar flugvélar við flugtak á leið til Perluhafnar.

Skemmst er frá því að segja að herbragð Japana heppnaðist og þeir komu Bandaríkjamönnum gersamlega að óvörum. Flugstjórinn Mitsuo Fuchida, sem leiddi fyrri árásarbylgjuna, gat glaður í bragði flutt dulmálið og herópið fræga „Tora! Tora! Tora!“ („tora“ þýðir á japönsku „tígrisdýr“) sem gaf til kynna að engar varnir væru fyrir. Í grófum dráttum var atburðarásin þann 7. desember 1941 þessi:

Atburðarásin 7. desember 1941 við Perluhöfn
03:42Tundurduflaslæðarinn Condor verður var við kafbát við innsiglinguna að flotahöfninni.
06:10Flugvélar fyrri árásarbylgjunnar hefja flugtak.
06:45Tundurspillirinn Ward ræðst á og grandar óþekktum dvergkafbáti við innsiglinguna.
07:02Ratsjárstöð verður vör við ókunnar flugvélar en yfirmaður telur þær vera bandarískar sprengjuflugvélar sem von er á.
07:15Eftir miklar tafir við dulmálssendingar, berst loks tilkynning um kafbátinn sem Ward grandaði, til æðstu yfirmanna. Ákveðið er að bíða eftir staðfestingu.
07:40Japönsku flugvélarnar koma að eyjunni Oahu.
07:55Fyrstu sprengjurnar byrja að falla.
08:0012 óvopnaðar bandarískar sprengjuflugvélar af gerðinni B-17 koma inn til lendingar á eyjunni Oahu frá Bandaríkjunum.
08:10Skotfærageymsla orrustuskipsins Arizona springur. Vitni lýsa því svo að skipið hafi lyfst upp um 5-6 metra og brotnað í tvennt. Níu mínútum síðar lá það á hafsbotni og með því fórust 1.177 sjóliðar.
08:17Tundurspillirinn Helm flýr til hafs en siglir þá fram á strandaðan japanskan dvergkafbát. Helm leggur til atlögu, fellir annan skipverjann en hinn flýr og er handtekinn á landi. Fimmtán mínútum síðar grandar tundurspillirinn Monaghan öðrum dvergkafbáti.
08:50Orrustuskipinu Nevada tekst að sigla af stað og gerir örvæntingarfulla tilraun til þess að komast út úr flotahöfninni. Japanar reyna hins vegar að sökkva skipinu í þröngri innsiglingunni og loka þar með höfninni. Áhöfnin ákveður að sigla skipinu í strand frekar en að hætta á slíkt.
08:55Seinni árásarbylgjan kemur inn til árásar frá japönsku flugmóðurskipunum.
10:00Árásarvélarnar halda til baka og eftir harðar rökræður við undirmenn sína ákveður Nagumo að halda til baka í stað þess að eyðileggja varnarlaus hernaðarmannvirkin við Perluhöfn.



Orrustuskipið Arizona sekkur.

Alls fórust 2.390 Bandaríkjamenn í árásinni. Tvö orrustuskip, eitt skotæfingaskip, tveir tundurspillar og 188 flugvélar eyðilögðust. Þrjú orrustuskip löskuðust en hægt var að gera við þau síðar. Sama máli gegndi um þrjú beitiskip, einn tundurspilli, flugbátaskip, viðgerðaskip og 159 flugvélar. Japanar misstu aftur á móti einungis 29 flugvélar í árásinni, stóran kafbát og 5 dvergkafbáta. Auk óþekkts fjölda á stóra kafbátnum fórust 64 Japanar.

Skyndiárás Japana hafði afdrífaríkar afleiðingar fyrir framtíðaráætlanir þeirra á Kyrrahafi. Fyrir árásina á Perluhöfn höfðu Bandaríkjamenn einungis ætlað sér að heyja varnarstríð ef til hernaðar við Japana kæmi, og einbeita sér að Evrópu þess í stað. Þetta hefði hugsanlega gert Japönum kleift að hertaka allar evrópsku nýlendurnar í Austur-Asíu, jafnvel Ástralíu líka. Þar með hefðu þeir komist yfir mikið magn hráefna og olíu án íhlutunar Bandaríkjanna.



Bandarísk orrustuskip brenna í Perluhöfn.

Japönum sást yfir að sprengja olíutanka og viðgerðarstöðvar bandaríska flotans, en það gerði bandaríska flotanum kleift að bregðast ótrúlega fljótt við sókn þess japanska síðar meir. Afdrifaríkast var að árásarflotinn náði ekki meginmarkmiði sínu, að eyðileggja flugmóðurskipaflota Bandaríkjamanna. Leyniþjónusta Japana gerði þau mistök að staðsetja öll flugmóðurskipin í Perluhöfn en aðeins tvö flugmóðurskip af fjórum skipum bandaríska flotans höfðu aðsetur í Perluhöfn og þau voru bæði fjarri Oahueyju 7. desember. Öll þessi flugmóðurskip áttu eftir að koma mikið við sögu eftir því sem leið á seinni heimsstyrjöldina, sér í lagi í orrustunni við Midway-eyju, 3.-6. júní 1942. Eftir þá orrustu var í raun útséð um örlög japanska flotann eins og Yamamoto hafði spáð sjálfur fyrir ef árásin 7. desember heppnaðist ekki fullkomlega.

Árásin þjappaði bandarísku þjóðinni saman og hún stóð sameinuð að baki ríkisstjórninni og þinginu þegar lýst var yfir stríði gegn Japan daginn eftir, 8. desember 1941. Viðhorf þjóðarinnar til stríðsins í Evrópu hafði verið í átt til hlutleysis meðan æðstu ráðamenn, sérstaklega Roosevelt forseti, biðu eftir tækifæri til að grípa frekar inn í stríðið við Öxulveldin með öðrum hætti en að útvega Bretum vopn og verja skipaleiðir yfir Atlantshafið. Perluhöfn hafði því mikið áróðurslegt gildi fyrir Bandaríkin og Bandamenn í seinni heimsstyrjöldinni. Í þessu samhengi má líkja 7. desember 1941 við 11. september 2001, báðir þessir dagar í sögunni sameinuðu Bandaríkjamenn gegn „óvininum“.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað féllu margir menn og hvað eyðilögðust margar flugvélar þegar ráðist var á Pearl Harbor?

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

11.9.2003

Spyrjandi

Lilja Dís, f. 1988
Margrét Pétursdóttir, f. 1987

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað gerðist í Perluhöfn (Pearl Harbor) í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 11. september 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3727.

Skúli Sæland. (2003, 11. september). Hvað gerðist í Perluhöfn (Pearl Harbor) í seinni heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3727

Skúli Sæland. „Hvað gerðist í Perluhöfn (Pearl Harbor) í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 11. sep. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3727>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað gerðist í Perluhöfn (Pearl Harbor) í seinni heimsstyrjöldinni?
Þegar minnst er á þátt Perluhafnar í seinni heimsstyrjöldinni, er átt við árás Japana að morgni 7. desember 1941 á flotahöfn og herflugvelli Bandaríkjamanna á eyjunni Ohau í Hawaii-eyjaklasanum, sem gerð var fyrirvaralaust og án formlegrar stríðsyfirlýsingar.



Perluhöfn (Pearl Harbor) árið 1940.

Á 4. áratug síðustu aldar stefndu Japanar að því leynt og ljóst að verða stórveldi við Kyrrahaf. Þeir hertóku Mansjúríuhérað 1931 og réðust inn í Kína 1937. Í septembermánuði árið 1940 gengu þeir í bandalag Öxulveldanna, Þýskalands og Ítalíu og í júli 1941 lögðu þeir undir sig frönsku Indó-Kína, þar sem nú er Víetnam. Bandarísk stjórnvöld, brugðust við með efnahagsþvingunum gegn Japönum og að lokum algeru banni við olíusölu til landsins í von um að það myndi fá þá ofan af frekari landvinningaáætlunum.

Þessi síðasta aðgerð var kornið sem fyllti mælinn að mati japönsku stjórnarinnar því Japan var fyrst og fremst sjóveldi með stóran og öflugan flota. Ef Japanar ætluðu sér að verða óumdeilanlegt stórveldi við Kyrrahaf, þurfti flotinn að hafa olíu.

Japanska stjórnin ákvað því að stefna á mikla útþenslu sem fól í sér umfangsmikið hernám í Austur-Asíu og átti að tryggja þeim næga olíu og önnur hráefni, meðal annars til að halda út í langvinnt stríð við Kína. Japanar töldu hins vegar öruggt að Bandaríkin mundu skerast í leikinn. Isoroku Yamamoto aðmíráll, yfirmaður japanska flotans, hafði þegar samið áætlun um skyndiárás á aðalflotastöð Bandaríkjamanna á Hawaii til að lama hernaðarmátt þeirra á Kyrrahafinu. Þegar Bandaríkin næðu aftur fyrri styrk, hefðu Japanar lokið landvinningum sínum og væru reiðubúnir að takast á við bandaríska flotann. Stjórnin var í fyrstu treg, þjóðirnar tvær áttu í miklum samræðum og friðarumleitunum, en samþykkti síðan að setja áætlun Yamamotos í framkvæmd ef ákveðið yrði að hefja stríð gegn Bandaríkjunum.

Japanar undirbjuggu sig vandlega. Flugmenn og sjóliðar voru þjálfaðir sérstaklega fyrir árásina og vopn sérhönnuð til þess að granda bandarísku herskipunum. Árásarflotinn, undir stjórn Chuichi Nagumo varaaðmíráls, samanstóð af sex flugmóðurskipum, tveimur orrustuskipum, tveimur stórum beitiskipum, léttu beitiskipi, níu tundurspillum, þremur kafbátum og átta olíuskipum, alls 31 herskip. Flugmóðurskipin fluttu alls 432 flugvélar, þar af voru 353 notaðar til árásarinnar.

Hernaðaráætlun Japana var í hæsta máta áhættusöm, hún krafðist þátttöku stærsta hluta flota þeirra og alger leynd þurfti að hvíla yfir henni. Því héldu skipin úr höfn eitt og eitt í einu frá Japan, það fyrsta 15. nóvember 1941, til að vekja sem minnstar grunsemdir. Árásarflotinn safnaðist síðan saman og hélt suður á bóginn, fjarri öllum venjulegum siglingaleiðum og án talstöðvasamskipta. Þann 26. nóvember kom flotadeildin sér fyrir 1.600 km norðan við Hawaii og bjó sig til árásar á Perluhöfn. Fyrsta desember komst japanska stjórnin að þeirri niðurstöðu að stríð við Bandaríkin væri óumflýjanlegt og daginn eftir voru skilaboð send til árásarflotans, „Klífið Niitakafjall“, dulmál sem þýddi að ráðist skyldi til atlögu morguninn 7. desember. Dagsetningin var úthugsuð, á sunnudagsmorgni þegar Bandaríkjamenn uggðu síst að sér, hermenn margir í leyfi og borgarar á leið til kirkju. Árásarflotinn kom sér fyrir 440 km norðan Hawaii og þaðan lögðu flugvélarnar af stað í átt til Oahu.



Japanskar flugvélar við flugtak á leið til Perluhafnar.

Skemmst er frá því að segja að herbragð Japana heppnaðist og þeir komu Bandaríkjamönnum gersamlega að óvörum. Flugstjórinn Mitsuo Fuchida, sem leiddi fyrri árásarbylgjuna, gat glaður í bragði flutt dulmálið og herópið fræga „Tora! Tora! Tora!“ („tora“ þýðir á japönsku „tígrisdýr“) sem gaf til kynna að engar varnir væru fyrir. Í grófum dráttum var atburðarásin þann 7. desember 1941 þessi:

Atburðarásin 7. desember 1941 við Perluhöfn
03:42Tundurduflaslæðarinn Condor verður var við kafbát við innsiglinguna að flotahöfninni.
06:10Flugvélar fyrri árásarbylgjunnar hefja flugtak.
06:45Tundurspillirinn Ward ræðst á og grandar óþekktum dvergkafbáti við innsiglinguna.
07:02Ratsjárstöð verður vör við ókunnar flugvélar en yfirmaður telur þær vera bandarískar sprengjuflugvélar sem von er á.
07:15Eftir miklar tafir við dulmálssendingar, berst loks tilkynning um kafbátinn sem Ward grandaði, til æðstu yfirmanna. Ákveðið er að bíða eftir staðfestingu.
07:40Japönsku flugvélarnar koma að eyjunni Oahu.
07:55Fyrstu sprengjurnar byrja að falla.
08:0012 óvopnaðar bandarískar sprengjuflugvélar af gerðinni B-17 koma inn til lendingar á eyjunni Oahu frá Bandaríkjunum.
08:10Skotfærageymsla orrustuskipsins Arizona springur. Vitni lýsa því svo að skipið hafi lyfst upp um 5-6 metra og brotnað í tvennt. Níu mínútum síðar lá það á hafsbotni og með því fórust 1.177 sjóliðar.
08:17Tundurspillirinn Helm flýr til hafs en siglir þá fram á strandaðan japanskan dvergkafbát. Helm leggur til atlögu, fellir annan skipverjann en hinn flýr og er handtekinn á landi. Fimmtán mínútum síðar grandar tundurspillirinn Monaghan öðrum dvergkafbáti.
08:50Orrustuskipinu Nevada tekst að sigla af stað og gerir örvæntingarfulla tilraun til þess að komast út úr flotahöfninni. Japanar reyna hins vegar að sökkva skipinu í þröngri innsiglingunni og loka þar með höfninni. Áhöfnin ákveður að sigla skipinu í strand frekar en að hætta á slíkt.
08:55Seinni árásarbylgjan kemur inn til árásar frá japönsku flugmóðurskipunum.
10:00Árásarvélarnar halda til baka og eftir harðar rökræður við undirmenn sína ákveður Nagumo að halda til baka í stað þess að eyðileggja varnarlaus hernaðarmannvirkin við Perluhöfn.



Orrustuskipið Arizona sekkur.

Alls fórust 2.390 Bandaríkjamenn í árásinni. Tvö orrustuskip, eitt skotæfingaskip, tveir tundurspillar og 188 flugvélar eyðilögðust. Þrjú orrustuskip löskuðust en hægt var að gera við þau síðar. Sama máli gegndi um þrjú beitiskip, einn tundurspilli, flugbátaskip, viðgerðaskip og 159 flugvélar. Japanar misstu aftur á móti einungis 29 flugvélar í árásinni, stóran kafbát og 5 dvergkafbáta. Auk óþekkts fjölda á stóra kafbátnum fórust 64 Japanar.

Skyndiárás Japana hafði afdrífaríkar afleiðingar fyrir framtíðaráætlanir þeirra á Kyrrahafi. Fyrir árásina á Perluhöfn höfðu Bandaríkjamenn einungis ætlað sér að heyja varnarstríð ef til hernaðar við Japana kæmi, og einbeita sér að Evrópu þess í stað. Þetta hefði hugsanlega gert Japönum kleift að hertaka allar evrópsku nýlendurnar í Austur-Asíu, jafnvel Ástralíu líka. Þar með hefðu þeir komist yfir mikið magn hráefna og olíu án íhlutunar Bandaríkjanna.



Bandarísk orrustuskip brenna í Perluhöfn.

Japönum sást yfir að sprengja olíutanka og viðgerðarstöðvar bandaríska flotans, en það gerði bandaríska flotanum kleift að bregðast ótrúlega fljótt við sókn þess japanska síðar meir. Afdrifaríkast var að árásarflotinn náði ekki meginmarkmiði sínu, að eyðileggja flugmóðurskipaflota Bandaríkjamanna. Leyniþjónusta Japana gerði þau mistök að staðsetja öll flugmóðurskipin í Perluhöfn en aðeins tvö flugmóðurskip af fjórum skipum bandaríska flotans höfðu aðsetur í Perluhöfn og þau voru bæði fjarri Oahueyju 7. desember. Öll þessi flugmóðurskip áttu eftir að koma mikið við sögu eftir því sem leið á seinni heimsstyrjöldina, sér í lagi í orrustunni við Midway-eyju, 3.-6. júní 1942. Eftir þá orrustu var í raun útséð um örlög japanska flotann eins og Yamamoto hafði spáð sjálfur fyrir ef árásin 7. desember heppnaðist ekki fullkomlega.

Árásin þjappaði bandarísku þjóðinni saman og hún stóð sameinuð að baki ríkisstjórninni og þinginu þegar lýst var yfir stríði gegn Japan daginn eftir, 8. desember 1941. Viðhorf þjóðarinnar til stríðsins í Evrópu hafði verið í átt til hlutleysis meðan æðstu ráðamenn, sérstaklega Roosevelt forseti, biðu eftir tækifæri til að grípa frekar inn í stríðið við Öxulveldin með öðrum hætti en að útvega Bretum vopn og verja skipaleiðir yfir Atlantshafið. Perluhöfn hafði því mikið áróðurslegt gildi fyrir Bandaríkin og Bandamenn í seinni heimsstyrjöldinni. Í þessu samhengi má líkja 7. desember 1941 við 11. september 2001, báðir þessir dagar í sögunni sameinuðu Bandaríkjamenn gegn „óvininum“.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað féllu margir menn og hvað eyðilögðust margar flugvélar þegar ráðist var á Pearl Harbor?
...